Vatnaflutningar til Fljótsdals

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:10:00 (617)

[18:09]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Í áætlunum Landsvirkjunar um stofnkostnað fyrirhugaðra virkjana kemur í ljós að meðal þriggja langódýrustu virkjunarkosta eru Arnardalsvirkjun og Brúarvirkjun með samanlagt uppsett afl 635 megawött. Forsenda þessara virkjana er að Jökulsá á Fjöllum verði veitt til Fljótsdals.
    Í áætlun Landsvirkjunar um flutning raforku um sæstreng er gert ráð fyrir Arnardals- og Brúarvirkjunum. Þær áætlanir sem hér um ræðir ásamt rannsóknum sem þær styðjast við, kosta væntanlega talsverða fjármuni. Þessar áætlanir eru væntanlega grundvöllur viðræðna við erlenda aðila um flutning orku um sæstreng og eru einnig grundvöllur, geri ég ráð fyrir, hagkvæmniútreikninga slíkra flutninga. Flutningur fallvatna milli landshluta snertir sem slíkur heildarstefnumörkun í orkuvinnslu og umhverfismálum og af þessum sökum hef ég talið rétt að beina þeirri fsp. til hæstv. iðnrh. sem er svohljóðandi:
  ,,1. Hafa hugmyndir um að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals vegna virkjana austan Arnardals og í Fljótsdal verið bornar undir iðnrn.?
    2. Telur ráðherra ráðlegt að láta undirbúning orkuframkvæmda ganga lengra en orðið er án þess að könnuð séu viðhorf Alþingis til þeirrar röskunar á umhverfi sem framangreindar hugmyndir um vatnsveitu og orkumannvirki hafa væntanlega í för með sér?``