Reglur um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 19:02:43 (638)


[19:02]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður hafði ekki telið eftir því sem ég sagði. Þetta skiptir nefnilega verulegu máli varðandi íslenska farmenn og ekki síst erlenda og einkum þá eftirlit með erlendum skipum vegna þess að í samþykktinni eru ákvæði um heimild aðildarríkja til að stöðva erlend skip í höfnum uppfylli þau ekki ákvæði alþjóðasamþykktarinnar svo og heimild til að veita tímabundnar undanþágur til einstakra sjómanna á kaupskipum sem fullnægja ekki að öllu leyti lágmarkskröfunum. ( GHelg: En íslensk?) Það á við um innlendu skipin. Íslensk skip eða leiguskip sem eru undir erlendum fána falla þá undir þessi ákvæði.
    Ég vildi þakka ráðherra þau svör sem hann hefur gefið og ég legg áherslu á að það er full þörf á að fá þessum lögum framfylgt og hrint í framkvæmd. Ég veit að það hefur verið unnin í samgrn. mjög greinargóð kennslubók fyrir verðandi háseta á kaupskipum og þar eru hinar ítarlegustu upplýsingar og fróðleikur fyrir þá sem eru að stíga frumspor sín á skipsfjöl þannig að ég sé, hæstv. ráðherra, að verkið er komið þó nokkuð á veg og ég vonast til þess að það líði ekki á löngu áður en þessari vinnu verði lokið.