Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 14:23:09 (648)

[14:23]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér er komið til 1. umr. er í rauninni fyrsti prófsteinninn á það hvernig þau fjárlög standast sem voru samþykkt rétt fyrir síðustu áramót. Þetta er fyrsta fjáraukalagafrv. sem fram kemur og það er hægt að sjá nokkur merki þess með frv. hvernig efnahagsstefnan hefur staðist og hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur tekist til í efnahagsstefnunni því að ríkisfjármálin eru að sjálfsögðu einn meginþáttur hennar.
    Ég á sæti í fjárln. og hef því að sjálfsögðu tækifæri og við aðrir nefndarmenn til að fara yfir einstök atriði frv. nánar í nefndinni og mun ég því ekki rekja hvert atriði frv. hér, enda rúmast það ekki innan þeirra tímamarka sem ég hef. Eigi að síður er óhjákvæmilegt að nefna nokkur meginatriði varðandi þetta mál.
    Með fjárlögum fyrir árið 1993 voru sett nokkur meginmarkmið og þau voru m.a. að heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs verði um 15,4 milljarðar kr., rekstrarhalli ríkissjóðs yrði 6,2 milljarðar kr. og það hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. hvernig þessi markmið hafa staðist. Þau hafa að sjálfsögðu ekki staðist og munar þar milljörðum. Það er alltaf hættan á því þegar rætt er um stórar upphæðir að við hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn dofni fyrir þeim upphæðum. Milljarður er nefnilega álitleg upphæð og 4 milljarðar eru enn þá hærri upphæð. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á þessu ári er komin yfir 20 milljarða kr. og það er ljóst með þessu fjáraukalagafrv. að rekstrarhallinn hefur vaxið um 7,3 milljarða kr. Þetta eru engar smáupphæðir sem hér er fjallað um og það er hætt við því þegar um þær er fjallað ár eftir ár eins og nú hefur verið, að menn geri sér kannski ekki grein fyrir afleiðingunum af þessum hallarekstri.
    En þá liggur næst fyrir að spyrja: Af hverju er þróunin á þennan veg? Af hverju hefur þróunin orðið svo til hins verra á yfirstandandi ári? Ég held að þetta fjáraukalagafrv. beri með sér að aðalástæðan fyrir þessari öfugþróun er sú að það hefur ekki tekist að snúa blaðinu við í atvinnumálum og fá hjól atvinnulífsins til að snúast á þann veg að ríkissjóður sé rekinn á viðunandi hátt. Þetta er mjög alvarlegt því að auðvitað viðurkenni ég það að viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs gerir það að verkum að ríkissjóður þarf að þrengja sér út á lánamarkaðinn, annaðhvort innlendan lánamarkað eða erlendis, og það hefur áhrif á eftirspurnina eftir lánsfé og þrýstir vöxtunum upp. En ein af ástæðunum fyrir lakri afkomu ríkissjóðs eru þeir háu vextir sem ríkissjóður þarf að borga.
    Það er nú svo að þeir liðir sem er verið að biðja um viðbótarfjárveitingar til eru liðir sem stjórnarandstaðan varaði sérstaklega við á sl. ári þegar þessi mál voru til umræðu. Stjórnarandstaðan varaði við eignasölunni, að hún gengi ekki eftir. Hún varaði við því að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs yrðu seldar og sú hefur orðið raunin. Það varð ekkert samkomulag um það mál. Hún varaði við því að áætla atvinnuleysi ekki nema 3% í forsendum fjárlaga sl. ár en það varð 4,5--5%. Útgjöldin jukust þar með um 1.200 millj. af þeim sökum. Og það var alveg ljóst að tekjur mundu ekki standast miðað við óbreytt ástand í atvinnumálum. En það hefur ekki tekist að hafa forustu um að snúa blaðinu við í atvinnulífi landsmanna. Það hefur ekki tekist að vekja bjartsýni hjá fyrirtækjum. Það hefur ekki tekist að auka fjárfestingar í þjóðfélaginu þannig að fjárfestingar eru og verða á næsta ári í sögulegu lágmarki þannig að það lágmark ýtir enn þá undir atvinnuleysið í landinu. Nú er ríkisstjórnin ósammála um --- eins og annað, hún er yfirleitt ósammála um allt --- hvernig forustu á að veita í þessu, hvernig á að tala í raun. Hæstv. forsrh. virðist vera búinn að komast að þeirri niðurstöðu að það eigi að tala með nokkurri bjartsýni og reyna að snúa þróuninni við með þeim efnum. Stefnræðan fól í sér nokkra bjartsýni. Hins vegar er forustumaður og formaður hins stjórnarflokksins, hæstv. utanrrh, ekkert sammála þessu fremur en öðru og talar af mikilli svartsýni. Þannig að þjóðin veit auðvitað ekkert hvað er fram undan og það er engin forusta hjá þessar ríkisstjórn um að vekja þá bjartsýni sem þarf til þess að snúa blaðinu við í atvinnulífi landsmanna. Takist það ekki þá verðum við með enn þá verra fjáraukalagafrv. núna rétt fyrir áramótin og enn þá verra næsta ár. Það er alveg ljóst.
    Ég viðurkenni það og það kemur fram í þessu frv. að ríkissjóður tók nokkuð á sig til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Ég er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér. Hitt er miklu verra að það virðist verða misbrestur á því að það eigi að standa við þau áform og þarf ekki annað en vitna til ályktunar miðstjórnar ASÍ um það mál frá 6. okt. sl. En hún endar svo, með leyfi forseta, eftir að forsagan er rakin:
    ,,Það er álit miðstjórnar að ef ekki verði gerðar verulegar breytingar á þessum atriðum frá því sem nú er í fjárlagafrv. muni það óhjákvæmilega hafa áhrif á niðurstöðu við endurskoðun kjarasamninga. Með þessu móti gæti ríkisstjórnin ekki einungis valdið verulegum trúnaðarbresti í samskiptum aðila, heldur einnig dregið úr þeim stöðugleika sem ríkt hefur bæði á vinnumarkaði og í efnahagslífi hér á landi á undanförnum árum.``
    Það er gagnrýnisvert að ekki skuli vera staðið við þau áform og þau fyrirheit sem gefin voru við gerð kjarasamninga og það ber að vona að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér í þeim efnum. Hitt er svo annað mál og það verð ég sem þingmaður og fjárlaganefndarmaður að gagnrýna harðlega, það samráð sem hefur verið við þingið og fjárln. í þessum efnum.
    Það kemur fram hér í fjáraukalagafrv. varðandi þær framkvæmdir til atvinnuskapandi aðgerða sem fyrirhugaðar eru, að fjmrn. hefur í samráði við önnur ráðuneyti gengið frá verkefnalista vegna framkvæmdanna og hann er birtur í fskj. 2 við þetta frv. Þar er m.a. leitað eftir 1.045 millj. kr. heimild vegna þeirrar framkvæmdaáætlunar. Um þennan lista hefur ekkert verið fjallað í fjárln. Hann hefur ekki verið afgreiddur þar og ekkert samráð verið haft við nefndina um skiptingu þessara liða sem eru þó verulegar, eins og kemur hér fram á bls. 54. Nýjar heimildir eru upp á 487 millj. kr. og um þetta mál hefur ekkert samráð verið haft við nefndina. Til að ég sé nú alveg nákvæmur í þessu, þá mun hafa verið minnst á á einum fundi í nefndinni að það stæði til að gera slíkan lista. En hann hefur ekki verið borinn undir nefndina eða samþykktur þar og auðvitað er þetta alveg óviðunandi og ber að gagnrýna það mjög harðlega.
    Hér kemur einnig fram á bls. 42 í fjáraukalagafrv. þar sem fjallað er um framlög til viðhalds og endurbóta á húseignum ríkisins að skipting á því fé liggi ekki fyrir en hún verði kynnt fjárln. Hér er komið inn í athugasemdir fjáraukalagafrv. að skiptingar verði kynntar fjárln. Mér er spurn hvort það eigi þá ekki að taka þær þar til afgreiðslu og samþykkja þær. Mér er spurn, hvort fjárveitingavaldið sé komið algerlega til framkvæmdarvaldsins með slíkum yfirlýsingum eða hvort þetta sé merki um það. Ég vona að hér verði teknir upp betri hættir varðandi afgreiðslu þessara mála.
    Á bls. 31 í frv. er rætt um viðhald og stofnkostnað og segir svo:
    ,,Í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor ákvað ríkisstjórnin að verja rúmlega 1 milljarði króna til atvinnuskapandi verkefna. Helmingur þeirrar fjárhæðar voru heimildir í fjárlögum 1992 sem ekki voru nýttar á því ári. Talið er að álíka há fjárhæð til framkvæmda í fjárlögum 1993 verði ekki nýtt á því ári. Ríkisstjórnin hefur gefið vilyrði um að þær flytjist til ársins 1994.``
    Hér er sagt að viðhald og stofnkostnaður sé talinn nema 16,4 milljörðum kr. á árinu 1993 og hækki um 500 millj. kr. frá fjárlögum. Hins vegar segir hér neðst á sömu blaðsíðu:
    ,,Á árinu 1993 verða útgjöld ríkissjóðs til atvinnuskapandi aðgerða, einkum fjárfestingar og viðhalds, aukin um 1.000 millj. kr. frá því sem áður hefur verið ákveðið. Þetta felur í sér að heildarútgjöld ríkissjóðs vegna fjárfestingar og viðhalds á árinu 1993 verða um 17 milljarðar kr. eða 3 milljörðum kr. meiri en árið 1992.``
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig stendur á þessu misræmi þarna á milli? Hér er viðhald og stofnkostnaður á sömu bls. talinn nema 16,4 milljörðum kr. á árinu 1993 og síðan 17 milljörðum kr. Þarna skakkar einhverju og væri fróðlegt að heyra skýringar á því. Þarna skakkar um 600 millj. kr.
    Varðandi það mál sem hæstv. ráðherra kom hér inn á um Hæstarétt og fjallað er um á bls. 34 í frv., þá er það rétt að auðvitað hefur Alþingi fjárveitingavaldið. Það hefur það á meðan framkvæmdarvaldið er ekki búið að taka það af því svona smám saman. En eigi að síður er mér spurn: Hver hefur ákveðið þessar launagreiðslur? Ég veit ekki betur en þessar launagreiðslur séu í ákveðnum farvegi. Þær séu í höndum Kjaradóms. Þess vegna finnst mér náttúrlega fullkomlega óeðlilegt að það sé hægt að senda ríkissjóði þennan reikning eða Alþingi sem auðvitað er rétt að á að veita heimildir af eða á um að greiða hann. En hins vegar þurfa að vera heimildir og launaákvarðanir hjá réttum aðilum þurfa að liggja þar að baki. Það vildi ég taka fram varðandi þetta mál.

    Ég vildi bera fram eina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. varðandi Hafrannsóknastofnun sem fjallað er um hér á bls. 38. Þar stendur að gerð sé tillaga um að sértekjur stofnunarinnar verði lækkaðar og verði frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að lögum mun Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins verða lagður niður og lækkar þá fjárþörf Hafrannsóknastofnunar sem nemur 190 millj. kr. óhöfnum innistæðum í sjóðnum. Nú kann það að vera að ég hafi ekki lesið frv. um þróunarsjóð nógu vel og skýringar sé þar að finna, en ég vil eigi að síður biðja hæstv. fjmrh. um nánari skýringar á þessu atriði.
    Það kemur auðvitað fram í þessu frv. að sparnaður sem ákveðinn hefur verið, gengur ekki upp, t.d. í heilbrigðiskerfinu þar sem verið hefur röð af slíkum ákvörðunum sem hafa ekki gengið upp m.a. vegna ónógs undirbúnings. Dæmi um það er að finna á bls. 40 þar sem fjallað er um Tryggingastofnun ríkisins og farið er fram á aukafjárveitingu að upphæð um 350 millj. kr. vegna þess að ýmsar aðgerðir sem áætlaðar hafa verið hafa ekki gengið upp. Sama er að segja um gjaldheimtur og innheimtukostnað þar sem farið er fram á 70 millj. kr. viðbótarheimild og væri fróðlegt að fá nánari skýringar á því hvers vegna farið er fram á slíka heimild. Síðan er farið fram á 50 millj. kr. viðbótarheimild vegna ferjurekstrar sem átti nú að koma í mjög gott horf og skikkanlegt við síðustu fjárlagagerð, en auðvitað voru ekki allir endar þar hnýttir.
    Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu að sinni, enda tíminn búinn samkvæmt hinum nýju þingsköpum og láta nægja, ef ég má, að enda á því að auðvitað sýnir þetta fjáraukalagafrv. að fjárlagafrv. var eins og stjórnarandstæðingar héldu fram meira og minna marklaust plagg. Það hefur mistekist að koma bjartsýni og framkvæmdahug í þjóðina og snúa hjólum atvinnulífsins við og kjarasamningar eru meira og minna að verða í uppnámi. Þetta er ekki góður dómur yfir þeim sem stjórna.