Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:08:05 (653)

[15:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Svo sem fram hefur komið hjá þeim sem hér hafa talað á undan mér, þá er halli fjárlaga allmiklu meiri heldur en gert var ráð fyrir og kemur það raunar ekki á óvart svo venjubundið sem það hefur verið. En ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að hér er ekki aðeins um tvöföldun á hallanum að ræða, sem er þó talað um svona sem þumalputtareglu, heldur meira en það því hann gerir meira en tvöfaldast. Hækkunin er 133% frá því sem áætlað hafði verið.
    Frv. til lánsfjárlaga, bæði það sem hér hefur nýlega verið rætt og lagt til viðbótar við lánsfjárlög árið 1993, endurspeglar að sjálfsögðu þessa staðreynd að hallinn hefur aukist svona mikið. Heildarlánsfjárþörfin var eins og kom fram hjá fjmrh., ég tel fyllstu ástæðu til þess að endurtaka þær staðreyndir, heildarlánsfjárþörfin var 15,3 milljarðar. Viðbótin er samkvæmt þessu fjáraukalagafrv. núna 6 milljarðar, en þar er ótalið framlag til Landsbanka Íslands upp á 2 milljarða kr. sem samþykkt var hér á þinginu sl. vetur og þar að auki uppkaup í fullvirðisrétti sem eru 700 millj. kr. þannig að hallinn verður nokkuð meiri þegar upp er staðið. Það er spurning hvort þessar upplýsingar eiga að vera með í fjáraukalagafrv. eða að koma aðeins í ríkisreikningi. Það er enn þá deila um það milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar hvernig með skuli fara. En staðreyndin er samt sem áður sú að Landsbankinn fær þessa 2 milljarða. Það er búið að samþykkja það hér á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað hlutur sem kemur þegar upp er staðið til gjalda hjá ríkissjóði og eykur þar af leiðandi halla ríkissjóðs á þessu ári.
    Til frekari skýringar ætla ég að vitna hér í niðurstöður úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir fyrstu sex mánuði ársins í ár. Því miður hefur Ríkisendurskoðun ekki enn unnist tími til að skila af sér skýrslu fyrir níu mánuði ársins, en þessi skýrsla er þó unnin í ágúst þannig að ég tel að inn í hana hafi verið teknar allmargar forsendur og það sé fullkomin ástæða til að skoða það sem Ríkisendurskoðun segir þar um afkomuhorfur í árslok 1993. Það snertir þá það frv. sem við erum hér að ræða. Það hefur reyndar komið í ljós þegar maður skoðar mat Ríkisendurskoðunar á afkomu ríkissjóðs allt frá árinu 1986 að Ríkisendurskoðun hefur tekist nokkuð vel upp við að spá á miðju ári fyrir um það hver yrði lokahalli fjárlaga og hefur komið í ljós að ekki munar mjög miklu á því sem endanlega verður. En í þessari skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins 1993 í kaflanum um afkomuhorfur í árslok 1993, segir Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru þær að ef stjórnvöld taka engar nýjar ákvarðanir í ríkisfjármálum það sem eftir er ársins og verðlags- og launaþróun haldast innan viðmiðunarmarka mun lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs aukast um 7,5--8 milljarða kr. eða úr 15,4 milljörðum kr. eins og fjárlög ársins gerðu ráð fyrir í 23--23,5`` --- en ekki í 20 milljarða kr. eins og segir í fjáraukalögum nú.
    ,,Að frádreginni afborgun lána ríkissjóðs er hrein lánsfjárþörf áætluð um 17 milljarðar króna og hækkar um svipaða fjárhæð og heildarlántökur ársins. Meðtalin í lántökum ríkissjóðs á árinu 1993 er lántaka vegna Landsbanka Íslands og lokauppkaup á fullvirðisrétti bænda samtals að fjárhæð 2,7 milljarðar kr. Mat á rekstarafkomu A-hluta ríkissjóðs í árslok þessa árs er að rekstrarhallinn muni verða á bilinu 14--14,5 milljarður kr. að meðtöldum framlögum til Landsbanka Íslands og lokauppgjöri vegna fullvirðisréttar. Í fjárlögum ársins 1993 var gert ráð fyrir rekstrarhalla A-hluta ríkissjóðs að fjárhæð 6,2 milljarðar kr. og gerir stofnunin því ráð fyrir að hann aukist um rúmlega 8 milljarða kr.``
    Og hækkun á hallanum er þá samkvæmt þessari úttekt Ríkisendurskoðunar 133% og er það allhá tala.
    Það er í raun og veru ekki hægt að ræða um fjáraukalög fyrir þetta ár öðruvísi en að koma jafnframt inn á forsendur fjárlaga fyrir næsta ár. Það má spyrja hvort það fjárlagafrumvarp, sem nýlega var kynnt, muni verða jafnóraunsætt og þetta sem við erum hér að ræða. Það mátti raunar heyra í framsögu hæstv. fjmrh. þegar hann kynnti það frv. að enn væri verið að tína saman hugmyndir um hvernig lækka mætti þann halla sem þar var settur fram og er kannski ástæða til að spyrja að því hvort eitthvað hafi orðið ágengt í því að finna einhverjar leiðir til að lækka hann.
    Það er líka svolítið furðulegt þegar maður ræðir um stefnu ríkisstjórnarinnar í fjárlögum ríkissjóðs hvernig hún forðast sífellt að ræða um það að hér sé um að ræða skattahækkanir á almenning, skattahækkanir á einstaklinga. Til þess að forðast að tala um skatta og skattahækkanir þá er sífellt rætt um einhver önnur orð. Ég held að það megi nánast segja að það sé farið að finna upp mjög mörg nýyrði í sambandi við það að fela þetta orð, skattar. Það er talað um þjónustugjöld, það er talað um skólagjöld og það er talað um heilsukort og tekjutengd þjónustugjöld og ég bara spyr: Hvað eru tekjutengd þjónustugjöld annað en skattar? Eru ekki skattar tekjutengd þjónustugjöld? Ég held að þeir hljóti að flokkast undir það. Heilsukortin eru hins vegar ekki tekjutengd þjónustugjöld, þau koma jafnt á alla, alveg sama hvaða tekjur menn hafa. Það sýnir enn og aftur að það er sífellt bætt sköttum á launþega, einstaklinga, en dregið af fyrirtækjum.
    Nú veit ég að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin tók þessa stefnu var sú að hún hélt að með því mundi hún bæta atvinnuástandið, það væri verið að draga úr kostnaði fyrirtækja. En það er kannski vert að velta þeirri spurningu fyrir sér: Er nokkur ástæða til þess að vera að lækka skatta á fyrirtækjum sem á annað borð geta greitt skatta? Þau sem tapa greiða hvort sem er engan tekjuskatt því þau hafa engan ágóða til þess að greiða tekjuskattinn af þannig að lækkun tekjuskatta á fyrirtæki endurspeglar í raun og veru að það er verið að hygla þeim fyrirtækjum sem koma þó út með einhvern ágóða og ég bara spyr: Er ekki alveg eins hægt að skattleggja þau og einstaklinga?
    Það er spurning í 1. umr. hversu mikið á að fara í einstaka liði. Ég hef nokkuð reynt að rekja það hvert stefnir í þessum málum og hver stefna ríkisstjórnarinnar er. Þrátt fyrir það sem ég sagði áðan um að draga úr kostnaði fyrirtækja þá hefur ekki tekist að stemma stigu við atvinnuleysinu og kemur það auðvitað fram í því að Atvinnuleysistryggingasjóður þarf á meira framlagi að halda eins og sagt var fyrir um í raun og veru þegar yfirstandandi fjárlög voru rædd. Þá lá alveg ljóst fyrir að atvinnuleysi yrði meira en 3% enda sýnir reynslan að það hefur a.m.k. orðið 4,5 eða jafnvel 5% og farið yfir það á stundum.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til þess að fara yfir í það hvernig þessi hækkun á fjárlögum sundurliðast sem hæstv. fjmrh. hefur raunar rakið og er ég ekkert að rengja það að hann hafi rakið það rétt. Hins vegar vil ég enn og aftur leggja áherslu á það að ég tel að hallinn verði enn þá meiri en þetta fjáraukalagafrv. sýnir og að heildarlánsfjárþörfin sé hærri en hér kemur fram.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um aukaframlag vegna yfirvinnu Hæstaréttar og tel ég að þar sé um mál að ræða sem verður þá rætt innan fjárln. hvernig með skuli fara, en ég tel það mjög ámælisvert að það sé byrjað að greiða þessa yfirvinnu án samþykkis Alþingis og án þess að þetta hafi nokkurs staðar komið upp á borðið fyrr en núna fyrir nokkrum dögum, að Hæstiréttur hafi ákveðið að dómarar við réttinn fái greidda yfirvinnu og byrjað hafi verið að greiða þetta í febrúar á þessu ári. Hitt er svo mjög mikið álitamál hvort yfirleitt dómarar hafa þann rétt að ákveða sér þessa yfirvinnu.
    Byggðastofnun sækir hér um 20 millj. kr. til að styrkja heimilis- og listiðnað í landinu og hef ég ekki nema gott um það að segja.
    Í menntmrn. er einnig sótt um viðbótarheimild fyrir Rannsóknasjóð til þess að koma til móts við fyrri stefnumörkun um það að gera sérstakt átak í rannsókna- og þróunarmálum. Eins og mönnum er kunnugt þá átt fimmtungur af sölu eigna að fara til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Þær hugmyndir gengu ekki eftir þannig að hér virðist eiga að reyna að bæta Rannsóknasjóði þetta að einhverju leyti með 45 millj. kr. viðbótarheimild --- eða ég spyr: Er það ekki meiningin, hæstv. fjmrh., að það sé verið að bæta það þarna að einhverju leyti? ( Fjmrh.: Það er meiningin.)
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leita eftir 10 millj. kr. heimild fyrir sérstöku viðbótarframlagi til fullorðinsfræðslu til kennslu nýbúa og verð ég að lýsa yfir ánægju minni með það þar sem við kvennalistakonur lögðum til við síðustu fjárlagaumræðu fyrir árið 1993 að það yrði tvöfaldað það framlag sem færi til kennslu nýbúa sem þá var áætlað að yrði um 10 millj. kr. Við drógum þá tillögu til baka vegna þess að við höfðum ákveðin vilyrði fyrir því að þetta yrði skoðað gaumgæfilega og ég sé að hér er í raun og veru orðið við þeirri brtt. okkar, þ.e. það er lagt til að hækka framlag til kennslu nýbúa um 10 millj. kr.
    Hv. 14. þm. Reykv. ræddi nokkuð um kaflann um Listir, framlög og ég vil taka undir það sem hún sagði um þá tillögu sem hér er borin fram að veitt sé 5,3 millj. kr. aukafjárveiting vegna kaupa á sýningarrétti kvikmynda til afnota fyrir grunnskóla. Það held ég að sé mjög umdeilt og ég segi fyrir mig að ef hún hefur ákveðið að leggja fram brtt. um að fella þetta framlag þá tek ég alveg heils hugar undir það. Ég sé enga ástæðu til þess ef ráðherra hefur ákveðið upp á sitt einsdæmi að kaupa þessar kvikmyndir sem allir vita raunar hver hefur átt, þá held ég að hann verði að taka það af sínu sérstaka ráðstöfunarfé en ekki leita eftir heimild Alþingis til slíks. Ég er sannfærð um að Alþingi samþykkir það ekki.
    Í utanrrn. kemur fram að heildarkostnaður við þýðingar vegna EES-samningsins stefnir í það að verða allt að 100% hærri en áætlað hafði verið, þ.e. það er um 90% hækkun frá því sem ætlað var þegar verkið var hafið á árinu 1990 og það er sem sagt útlit fyrir það að kostnaðurinn við það tvöfaldist frá áætlun og er það í samræmi við aðra áætlunargerð þessarar ríkisstjórnar.
    Ég get ekki sagt að ég harmi það mjög að það þurfi að fella niður 48 millj. kr. vegna þess að framlag Íslands til þróunarsjóðs EFTA fellur niður þar sem samningurinn hefur ekki tekið gildi. Sumir kunna e.t.v. að segja að þetta sé gott mál, að það sé gott að leggja til þróunarsjóðs EFTA, við fáum það margfalt á móti. Ég hef hins vegar upplýsingar um það að þeir sem hugsanlega mundu sækja í þennan sjóð eigi mjög óhægt um vik að gera það, standa illa að vígi. Það hefur ekki verið unnið það vel að vísinda- og þróunarstarfi innan lands að þeir aðilar sem hugsanlega gætu sótt í þennan sjóð séu raunverulega í stakk

búnir til að gera það. Ég held að það sé mjög mikið álitamál hvað okkur nýtist af þessum sjóðum sem við erum að greiða í þegar samningurinn tekur gildi. Það er jafnvel farið að tala um það af aðilum í sjávarútvegi að þau helstu atriði sem voru jákvæð við þennan samning, þ.e. niðurfelling tolla og lækkun tolla af útfluttum sjávarafurðum sem átti að vera helsti plúsinn í samningnum, muni ekki koma fiskútflytjendum neitt sérstaklega til góða því þar sé jafnvel verið að gera einhverjar breytingar á. Hvort það er rétt skal ég ekki um segja en e.t.v. getur hæstv. fjmrh. svarað því. Hvort þar eru fyrirhugaðar breytingar á tollum sem muni þá draga úr þeim hagnaði sem hér hefur mjög verið tíundaður af þeim sem studdu samninginn.
    Í kaflanum um Ríkismat sjávarafurða kemur í ljós að biðlaun voru vanmetin um 8 millj. kr. þegar verið var að leggja niður stofnunina. Ekki virðast vera öll kurl komin til grafar í því að það hafi verið mjög hagstætt að leggja niður Ríkismat sjávarafurða. Staðreyndin er líka sú að alls konar eftirlitsstofnanir hafa þotið upp í framhaldi af þeim gjörningi og það hefur aukið kostnað þeirra sem skyldaðir eru til þess að hafa þessi vottorð undir höndum. Það hefur aukið kostnað þeirra mjög mikið og ég held að það sé hafin víðtæk umræða um það í þjóðfélaginu að þetta hafi ekki tekist sem skyldi fyrir utan það að ég held að ríkismatið þurfi eftir sem áður að starfa því oft og tíðum þarf að vera opinbert vottorð, en ekki bara frá einkastofu.
    Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er búinn, ég hefði gjarnan viljað fara yfir nokkur atriði í viðbót en ég verð þá að geyma mér það til síðar.