Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:31:13 (655)


[15:31]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að vísu alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að þetta er ágreiningur um hugtök eða túlkanir á reikningnum, þ.e. hvort strax skuli færa skuldbindingar sem ríkið tekur á sig eða hvort þær skuli færa þegar greitt er af skuldbindingunum. Ég tel alveg tvímælalaust að það skuli færa skuldbindingarnar þegar þær eru ákveðnar jafnvel þó svo þetta skuldabréf sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan fyrir Landsbanka Íslands, 2 milljarðar kr., sé til allt að 20 ára og þó að það hafi nú raunar aldrei komið hér inn í þingið eða inn í fjárln. að sjá það bréf. En mér er sagt að það sé til allt að 20 ára þannig að ríkisstjórnin er að búa til fortíðarvanda fyrir framtíðina þarna.
    Hvað varðar það að þetta frv. til fjáraukalaga muni ekki sýna alveg rétta stöðu í árslok, vegna þess að það hafi breyst þá er það alveg rétt að það frv. sem kom til fjáraukalaga fyrir ári, á því voru áætluð miklu hærri gjöld heldur en svo urðu þegar upp var staðið. Það breyttist síðan með lokafjáraukalagafrv. sem nýlega er búið að leggja hér fram fyrir árið 1992, en það sem er nokkuð merkilegt í því eru einmitt þessar millifærslur á heimildum og umframgjöldum milli ára og það er búið að taka ákvarðanir á einu ári, við skulum segja árinu 1992, og það er ákveðið að ákveðin útgjöld skuli fara bæði til rekstrar og stofnkostnaðar eða viðhalds. Síðan er ákveðinn hluti af því sem ekki er nýtt fært yfir á næsta ár. Eftir sem áður var búið að taka ákvarðanir um þessi gjöld en heimildirnar færast til næsta árs og koma þá í raun og veru ekki fram fyrr en á því ári. Og það er kannski líka fróðlegt fyrir þá sem á hlusta að athuga milljarðinn sem fara átti til atvinnuskapandi framkvæmda. Hér er fskj. með þessu frv. þar sem kemur fram að yfirfærsla frá árinu 1992 er 558 millj. af þessum milljarði.