Endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 18:03:45 (689)

[18:03]
     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun laga um skipan opinberra framkvæmda. Tillagan er 41. mál á þskj. 44. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 63 frá 1970, um skipan opinberra framkvæmda. Endurskoðunin miði að því að koma á breyttri skipan við undirbúning og gerð langtímaáætlana um opinberar framkvæmdir.``
    Í greinargerð með tillögunni segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Með lögum nr. 63 frá 1970 var opinberum framkvæmdum skipað með ákveðnum og skýrum hætti og sagt fyrir um hvernig staðið skuli að undirbúningi, áætlanagerð og framkvæmdum.
    Frá því lögin voru sett hefur orðið ör framþróun á sviði verklegra framkvæmda auk þess sem breytt hefur verið verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þá hefur mannvirkjagerð aukist. Það er því mat flutningsmanns að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin og gera breytingar á þeim, einkum varðandi kröfur til undirbúnings framkvæmdum. Setja þarf ákvæði um hvernig meta eigi stærð bygginga áður en hönnun hefst, hvernig taka eigi ákvarðanir um flokk gæða viðkomandi byggingar og um leið kostnað á fermetra og hvernig hönnunarstjórn skuli háttað. Þá er mjög mikilvægt að herða ákvæði um skilamat opinberra framkvæmda þar sem gerð er grein fyrir hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun.
    Á sama hátt og gerð er áætlun til margra ára um framkvæmdir í vegagerð og hafnagerð er eðlilegt að langtímaáætlun um mannvirkjagerð sé lögð fram og samþykkt. Slík áætlun nái til allra flokka framkvæmda sem ríkið stendur að.
    Viðhald mannvirkja fer vaxandi með fjölgun opinberra bygginga. Því er nauðsynlegt að setja ákvæði um það í lög um opinberar framkvæmdir hvernig skuli staðið að skipulegu viðhaldi opinberra bygginga og fjármögnun þess af leigu eða reiknuðum tekjum af þeirri starfsemi sem nýtir viðkomandi byggingu eða mannvirki.``
    Greinargerðinni fylgir erindi forstöðumanns framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins sem hann flutti á mannvirkjaþingi á síðasta ári og er ástæða til þess að vekja athygli á því.
    Árið 1965 setti þáv. fjmrh. Magnús Jónsson nefnd til þess að vinna að skipulagi opinberra framkvæmda. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu um skipan opinberra framkvæmda og á grundvelli hennar var unnið frv. til laga um framkvæmdir á vegum ríkisins. Var það lagt fyrir þingið 1967. Nokkur tími fór í vinnu við frv. og voru samþykkt lög nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda.
    Meginhugmyndafræði laganna byggir á þeirri skipan að opinberar framkvæmdir hefjist með frumathugun sem skuli meta áður en frekari áætlanagerð og hönnun hefst. Verklegar framkvæmdir skuli hefjast að undangenginni kostnaðaráætlun, tímaáætlun og rekstraráætlun. Að loknum framkvæmdum skal gera skilamat sem lagt skal fyrir fjárlaganefnd Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.
    Að mati margra þeirra sem unnið hafa á grundvelli þessara laga eru þau um flest vel gerð og ættu að geta verið rammi um góða tilhögun og framvindu framkvæmda. En á þeim 23 árum sem liðin eru síðan þau tóku gildi hefur margt breyst hvað varðar opinberar framkvæmdir í landinu. Í greinargerð nefndar sem undirbjó frv. sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur fullvíst að ein af meginorsökum þess hversu mörg af opinberum mannvirkjum verða dýr sé ónógur tæknilegur og fjárhagslegur undirbúningur framkvæmdanna. Nefndin telur vafalaust að lægstum tilkostnaði við mannvirkjagerð megi ná með því að vinna samfellt að verkinu á skemmsta mögulegum tíma, en til þess að það geti orðið þarf öllum tæknilegum undirbúningi verksins að vera lokið áður en verkið sjálft hefst og allt fjármagn til verksins að vera tryggt á hinum skamma byggingartíma.

    Þetta hefur ekki verið gert á undanförnum árum, heldur hafa ákvarðanir um að hefja opinberar framkvæmdir verið teknar örar en fé hefur verið veitt til þeirra og afleiðingin hefur ekki hvað síst sagt til sín í miklum kostnaði.``
    Það sem hér er sagt árið 1966 í greinargerð með frv., sem síðar varð að lögum, er enn í fullu gildi og því ástæða til þess að endurskoða lögin og gera á þeim breytingar sem herði á allri framkvæmd og mati á árangri í verklok. Þeir þættir sem ég tel mikilvægast að endurskoða og taka til sérstakrar skoðunar af þeirri nefnd sem tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði, eru eftirgreindir:
    1. Hvernig skilgreina eigi sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga og annarra aðila svo að koma megi í veg fyrir togstreitu og ágreining með skýrt afmarkaðri ákvörðun um verkaskiptingu þegar um sameiginleg verkefni er að ræða. Þá er nauðsynlegt að koma á skýrum ákvæðum um lántökur og endurgreiðslu þeirra vegna verka sem unnin eru hraðar af öðrum samningsaðila. Má þar m.a. nefna fjármagnskostnað og verðtryggingu og einnig þann arð sem mannvirki gefur eftir að verki er lokið.
    2. Hvernig meta eigi stærðarþörf bygginga og hvaða kröfur eigi að gera til gæða þeirra, sem skiptir afskaplega miklu máli.
    3. Hvernig hönnunarstjórn skuli vera háttað og mati hvað varðar kostnaðar- og rekstraráætlun. Þá er mjög mikilvægt að setja skýrar reglur um áætlanagerð og mat á fráviki í áætlun eftir gerð mannvirkja.
    4. Hvaða mannvirki eigi að falla undir langtímaáætlun um mannvirkjagerð á vegum ríkisins. Má þar draga saman reynslu af vegalögum og hafnalögum og fella inn í löggjöf um opinberar framkvæmdir langtímaáætlun um húsbyggingar og viðhald mannvirkja.
    5. Hvaða reglur eigi að gilda um viðhald mannvirkja og fjármögnun þess og forgang umfram nýbyggingar.
    6. Hvernig herða skuli skilamat og reglur um útboðsgögn og verklýsingar. Það gildi bæði um nýbyggingar og ekki síður viðhald þeirra.
    7. Hvernig undirbúningi og yfirumsjón með verkum skuli háttað, hvernig styrkja megi framkvæmdadeild Innkaupastofnunar og koma í veg fyrir að einstök ráðuneyti eða stofnanir fari eigin leiðir sem stangist á við lög og þær verklagsreglur sem í gildi eiga að vera.
    Verulegur hluti útgjalda ríkisins gengur til nýbygginga og viðhalds mannvirkja. Það varðar því miklu að allur undirbúningur sé vandaður og ekki ríki tortryggni milli þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdum og þeirra stjórnmálamanna sem er gert að taka pólitíska ábyrgð á framkvæmdum. Í ljósi þess er tillagan flutt og vona ég að hún nái fram að ganga og lög um opinberar framkvæmdir megi falla að þeim aðstæðum sem hafa verið að þróast og fjármunir ríkisins nýtist sem allra best.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegi forseti, að tillögunni verði vísað til fjárln. og síðari umr.