Virðisaukaskattur á flugfargjöld innan lands og ferðaþjónustu

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:48:19 (700)


[13:48]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það kemur mér mjög á óvart ef það er rétt hjá hv. þm. að flugfargjald til Egilsstaða muni hækka um 2.000 kr. af þessum sökum ef teknar eru í heild þær efnahagsráðstafanir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á sl. hausti og síðan. Ég veit að sjálfsögðu að honum er ljúft að láta mér í té þá útreikninga sem standa á bak við þá fullyrðingu.
    Ég vil einnig taka það fram að það er rétt sem ég sagði á sínum tíma að ég taldi að ferðaþjónustan ætti í erfiðleikum með að standa undir frekari álögum en orðið var vegna þess hversu dýrt er að koma hingað til lands, hversu dýr matvæli eru hér og þar fram eftir götunum. En því miður er ástandið í ríkisfjármálum þannig nú að ekki eru forsendur fyrir því að hverfa frá þeim áformum sem uppi eru um virðisaukaskatt á mannflutninga hér innan lands. Því miður er það nú svo og ber ég fulla ábyrgð á því sem ráðherra eins og aðrir. Ég tók þátt í þeirri ákvörðun og ætla ekki að skorast undan því. Ég vil á hinn bóginn vekja athygli á því að ýmislegt hefur gerst vegna góðrar efnahagsþróunar vegna þess að ríkisstjórnin hefur gert meira en aðrar ríkisstjórnir til að létta álögum af atvinnurekstrinum að verðbólga hér hefur ekki verið jafnmikil og áður og sérstaklega er það eftirtektarvert að dýrtíðin hefur minnkað. Matarverð hefur lækkað og af þeim sökum er ódýrara en áður var að ferðast um landið.