Virðisaukaskattur á flugfargjöld innan lands og ferðaþjónustu

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 13:52:52 (703)

[13:52]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst ákvörðun ríkisstjórnar hvernig standa á að því að létta þessari skattbyrði. Það er hins vegar mjög erfitt mál, hæstv. ráðherra, að fara að gera það með þeim hætti að fara nokkur ár aftur í tímann. Hvað á þá að fara mörg ár aftur í tímann? Ég held að ráðherrann ætti ekki að dvelja mjög lengi við þær hugmyndir heldur einfaldlega snúa sér að því að viðurkenna að hér var ranglega að málum staðið og það eina sem hægt er að gera af viti er að ganga til baka. Nú væri það út af fyrir sig mjög merkilegt og mikið nýmæli ef núv. ríkisstjórn gæti tekið slíka ákvörðun því að á þeim bæ virðist almennt ekki vera hægt að taka nokkra ákvörðun þannig að öll mál eru í óvissu. En að fara nú að tala um að þeir séu svona að tala um það hvort eitthvað sé hægt að gera aftur í tímann, það tel ég ekki skynsamlegt, hæstv. ráðherra, og ég vænti þess að þú beitir þér fyrir því næstu vikurnar að þessi skattur verði aflagður.