Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:25:57 (718)


[14:25]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. samgrh. sagði hér áðan að 1. umr. um þetta frv. fór fram í fyrra en ekki var lokið að ræða það innan samgn. og kom það aldrei til 2. umr. Hins vegar bárust ýmsar umsagnir um frv. sem samgn. var búin að fá og mér finnst rétt að gera að nokkru leyti grein fyrir þeim. Þær umsagnir eru nokkuð í takt við þær athugasemdir sem við höfðum uppi um þetta frv. Til dæmis er frá ýmsum héraðsnefndum, héraðsnefnd Strandasýslu, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu og fleirum, mjög tekið undir sérálit Þórðar Skúlasonar sem fylgir frv., sérstaklega um það að komið verði á fót samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga sem fjalli um ýmis ágreiningsmál milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna. Þessi samþykkt frá héraðsnefnd Strandasýslu er nokkuð samhljóða öðrum og ég ætla að lesa hana hér, með leyfi forseta:
    ,,Héraðsráðið lýsir yfir eindregnum stuðningi við sérálit Þórðar Skúlasonar. Sérstaklega vill ráðið hvetja til þess að komið verði á fót samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Samstarfsnefndin gæti þá eftir atvikum fjallað m.a. um framsal veghalds skv. 5. gr. frv. og hugsanlegan ágreining vegna ákvæða 29. gr. Héraðsráðið telur æskilegt að fyrir liggi drög að flokkun vega til að unnt verði að átta sig á því hvernig breytingar á vegalögum samkvæmt frv. koma við einstök svæði.``
    Í þessu sambandi hefur héraðsráð nokkrar áhyggjur af því að fjárveitingar til þeirra safnvega, sem áður töldust þjóðbrautir, minnki frá því sem nú er. Hér er verið að gera allverulegar breytingar á flokkun veganna, að það verði aðeins tveir flokkar vega, þ.e. að ekki verði allir þeir flokkar vega sem áður hafa verið, t.d. þeir sem ekki eru stofnvegir, þjóðvegir, verði einkavegir. Það verði í raun og veru aðeins tveir flokkar, þjóðvegir og einkavegir. Síðan skiptast aftur þjóðvegirnir niður í undirflokka, sem er skilgreint í 8. gr.
    Eins og ég sagði er kannski ekki nein ástæða til að endurtaka allt sem sagt var í 1. umr. á síðasta þingi. Það er ástæða til að fjalla mjög vel um þetta frv. í samgn. og skoða þær umsagnir, sem hingað hafa komið og munu sjálfsagt enn þá eiga fleiri eftir að berast, en mér sýnist að það sé verið að færa nokkuð mikið vald til Vegagerðarinnar. Það er verið að auka vald Vegagerðarinnar. Og þó að hún sé alls góðs makleg og hafi unnið

vel að þeim málum sem hún á að vinna að og ég treysti mjög vel þeim mönnum sem þar eru, þá tel ég að Vegagerðin sem stofnun eigi ekki að fá allt það vald sem hér er fært til hennar.
    Það hefur einnig verið rætt nokkuð í sambandi við þessa breytingu og m.a. komið athugasemd frá Búnaðarfélagi Íslands í sambandi við þær girðingar sem þurfi að setja upp við nýja vegi sem lagðir eru, að það fylgi jafnframt með að viðhald þeirra sé kostað af vegafé, ekki aðeins kostnaðurinn við að girða, sem nauðsynlegt er að fara að gera í miklu meira mæli heldur en hingað til hefur verið gert, að girða af þjóðvegi. Höfum við dæmi um það, því miður, hversu hættulegt það getur verið og hefur valdið stórslysum. En það er líka nauðsynlegt að það komi fram hver á að sjá um viðhaldið og það sé jafnframt af vegafé.
    Ég tel að það sé nokkuð sem segir í athugasemdum Þórðar Skúlasonar í séráliti með frv. þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarpið felur í sér þá breytingu, að áhrifavald Vegagerðarinnar varðandi flokkun vega og skipulagsmál er aukið en dregið úr áhrifum sveitarfélaga og skipulags þeirra. Sveitarfélögin eiga þó mikilla hagsmuna að gæta bæði fjárhags- og skipulagslegra og samskipti og samningagerð einstakra sveitarfélaga við Vegagerðina munu aukast verði frumvarpið að lögum. Því er gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri samstarfsnefnd Vegagerðarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.``
    Það má einnig geta þess að þeir vegir, sem í dag teljast sýsluvegir og eru á forræði sýslusjóða eða héraðsnefnda og þeirra sjóða í dag, verða í raun og veru lengdir, þ.e. það verður enn þá lengra vegakerfi sem á að falla undir þá skilgreiningu. Hingað til hefur sýsluvegur verið frá enda að þriðja býli, það hefur verið í umsjón sýsluvega, en samkvæmt þessu frv. þá lengist sá vegur þannig að núna verður það að fjórða býli og þannig er verið að setja meira á sýsluvegina. Það er út af fyrir sig gott ef heimamenn hafa meira um það að segja en þá verður einnig að fylgja þeim flokki aukið fjármagn. Það er ekkert komið um það eða hvernig það verður hugsað.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um þetta en geymi það þar til í samgn.