Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 14:40:22 (720)


[14:40]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Í fyrra þegar þetta frv. var lagt fram og rætt við 1. umr. komu fram ýmsar athugasemdir frá mér og fleirum hv. þm. Ég ætla að gera að umtalsefni fáeinar af þeim en ég hef tækifæri til þess að taka þátt í umfjöllun um málið í samgn. þannig að ég ætla ekki að hafa um þetta mjög langt mál.
    Ég vil fyrst koma að þessari nýju skiptingu í þjóðvegi og einkavegi og ítreka það sem ég sagði í fyrra að ég tel að skiptingin út af fyrir sig geti vel gengið en mér finnst að það þurfi að skipta einkavegum upp í það sem ég mundi vilja kalla einkavegi og síðan aðra vegi sem ég hef ekki tillögu um hvaða nafn ættu að bera. Ég segi þetta vegna þess að ég tel að það sé óeðlilegt að vegir sem opinberir aðilar eiga, t.d. sveitarfélög, séu kallaðir einkavegir. Fólk hefur einu sinni ákveðinn skilning á því hvað sé einkavegur og menn hafa meira að segja merkt sína einkavegi með það fyrir augum að vegfarendur átti sig á því að þetta væri ekki alfaraleið heldur væri þetta heimreið að húsi eða landareign sem menn ætluðust ekki til að væri almenn umferð um. Ég held að út af fyrir sig sé bara eðlilegt að halda orðinu einkavegur í þeim skilningi sem menn leggja í það í dag og þess vegna sé ekki gott að skilgreina þetta svona að einkavegir séu, eins og stendur í 9. gr.: ,,Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.``
    Ég tel að þetta geti gengið um einstaklinga og fyrirtæki en tæplega um opinbera aðila. Munurinn er aðallega sá að um vegi opinberra aðila er yfirleitt frjáls umferð og aðgangur allra en einkavegirnir eru ekki endilega opnir öllum til umferðar. Mér finnst þetta skipta dálitlu máli.
    Þá langaði mig til að koma að 23. gr. þar sem fjallað er um ferjur. Þar er mjög ákveðin tillaga um það að komi ferja í stað vegasambands um stofnveg eða tengivegi eða eigi að koma, a.m.k. hluta úr árinu, og að heimilt sé að greiða kostnað við bryggjur fyrir slíkar ferjur.

    Það er sem sagt verið að segja okkur að það verði óheimilt að greiða styrki eða taka þátt í rekstri ferja sem eru milli staða þar sem samgöngur á landi eru fyrir hendi. Það velkist enginn í vafa um hvaða ferjurekstur er verið að tala um, það eru tvö skip sem nú eru rekin, það eru Akraborgin og Fagranesið sem þarna er verið að tala um og það er sagt skýrt og skorinort að það eigi að leggja niður þennan rekstur innan þriggja ára. Ég tel að það þurfi að fjalla ítarlega um þetta mál, að vísu eru málefni Skallagríms eða Akraborgarinnar í biðstöðu eins og er og hljóta að ráðast fyrst og fremst af því hvort verður af þeim fyrirætlunum manna að leggja eða gera göng undir Hvalfjörð. Það vita náttúrlega allir fyrir fram að verði af þeim áætlunum þá mun rekstur Akraborgarinnar í þeirri mynd sem hann er núna falla niður. Hins vegar ef ekki verður af þeim rekstri þá tel ég að það þurfi að skoða það mál miklu betur heldur en búið er að gera, hvort að það er þjóðhagslega hagkvæmt og skynsamlegt að halda áfram rekstri bílaferju á leiðinni milli Akraness og Reykjavíkur.
    Ég tel að það sé ástæðulaust að slá því föstu hér og nú án þess að fara yfir útreikninga aftur að það sé ekki hagkvæmt að reka slíkt skip.
    Síðan langaði mig til þess að koma að 29. gr. frv. þar sem verið er að fjalla um skipulag. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegir skulu lagðir í samræmi við skipulag. Við gerð skipulags skal haft samráð við Vegagerðina um val á legu þjóðvega og tengingar við þá. Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar skal viðkomandi sveitarfélag greiða kostnaðarmun.``
    Þarna finnst mér vera á ferðinni mjög vafasamt ákvæði í þessum lagatexta. Ég tel að það sé mjög hæpið að leggja það í vald Vegagerðarinnar að úrskurða um það að fyrirætlanir sveitarstjórna á einhverju ákveðnu svæði í skipulagsmálum séu ekki réttar vegna þess að þær velji dýrari leið en hægt sé að velja. Dýrari leið er ekki alltaf vitlausasta leiðin og það geta verið ýmsar skipulagsástæður fyrir því að menn velji dýrari leið fyrir veg. Það getur verið vegna þess að menn séu að sækjast eftir því að byggðin þróist á betri stöðum en annars væri og það getur verið að menn séu að sækjast eftir einhverju allt öðru, einhverju sem ég hef ekki hugmyndaflug til að telja hér upp en ég tel að það sé óeðlilegt að Vegagerð ríkisins hafi þetta úrskurðarvald. Ég held að sveitarstjórnum og skipulagsyfirvöldum sé alveg treystandi til þess að fara með skipulagið og sú niðurstaða eigi að gilda í sambandi við þann kostnað sem síðan á að falla á heimamenn í sambandi við vegagerð. Þannig að ég hef fyrirvara um þetta ákvæði og vonast til þess að menn í nefndinni vilji skoða það vandlega hvort ekki sé ástæða til að breyta því.
    Þá langaði mig til þess að ræða um flokkun vega og mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hann sé sannfærður um að það sé úthugsað til enda hvernig flokkun vega eigi að vera. Ég ætla að nefna sérstakt atriði í því sambandi þar sem verið er að skipa vegunum í flokka. Þar sem lína skerst í því hvort það megi veita styrki til einkavega þar er gefið upp að götur í þorpum sem hafa undir 200 íbúa geti ekki notið styrks. Nú spyr ég: Ber að skilja orðið þorp þá þannig að sveitarfélag sem hefur yfir 200 íbúa en þeir eru kannski ekki allir staðsettir í þessu þorpi, og slíkt sveitarfélag fær ekki styrk en annað sveitarfélag sem væri kannski fámennara en menn væru svo hamingjusamir að búa allir í sama þorpinu, það fengi sem sagt styrkinn?
    Ég held að þarna sé verið að fara svolítið óljóst í hlutina og það geti valdið vandamálum síðar meir að úrskurða í þessu efni. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi leitt hugann að þessu.
    Flokkun veganna er auðvitað stórt mál í þessu og þarna verða verulegar breytingar. Vegakerfið lengist um 830 km sem verið er að tala um við þessa breytingu og það kallar væntanlega á meiri kröfur til ríkisins um framlög til vega, en að sumu leyti er þó verið að ýta byrðum frá ríkinu yfir á sveitarfélög þannig að ég svo sem hef ekki aðstöðu til þess að meta hver kostnaðarmunurinn verður að lokum. En eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. benti á hérna áðan, þá er verið að tala um í þessum tillögum að þjóðvegir í þéttbýli sem hafa verið styrktir verulega úr sjóðum landsmanna styttast um það bil um þriðjung og það

er ekkert lítið mál og þyrfti nefndin að láta reikna út fyrir sig og fá skoðun á hvað það gildir fyrir sveitarfélögin í landinu.
    En þeir sem hafa talað hér á undan mér hafa bent á ýmis af þeim atriðum sem ég hefði annars komið að og ætla þess vegna að stytta mál mitt. Ég vil enda á því að kvarta aftur við hæstv. ráðherra um það að hann skyldi setja nefnd í þetta mál þar sem eingöngu voru fulltrúar stjórnarflokkanna og annarra aðila en fulltrúar frá stjórnarandstöðunni skyldu ekki taka þátt í þessari vinnu, það hefði örugglega sparað mönnum eitthvað af þeim tíma sem nú fer í það að fara yfir málið í samgn. og það verður auðvitað til þess að málið kemst kannski ekki alveg jafnhratt áfram eins og hans óskir standa til. En ég hef út af fyrir sig ekki neinar óskir um það að þetta mál tefjist hér í þinginu. Ég tel alveg fulla ástæðu til þess að koma þessu málum áfram og mun taka þátt í því í samgn. að vinna að því að málið fái þar greiðan framgang en ég tel að það muni koma fram töluvert af brtt. frá minni hluta það sé óhjákvæmilegt vegna þess hvernig að málinu hefur verið staðið.