Vegalög

24. fundur
Miðvikudaginn 27. október 1993, kl. 15:29:12 (731)


[15:29]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega hefur nokkuð af því komið hér fram sem ég ætlaði að fara yfir þegar ég kvaddi mér hljóðs. Ég vil þó undirstrika það að ég er sannfærður um að hæstv. núv. samgrh. hefur fullan vilja til þess að reyna að vinna vel að bættum vegasamgöngum. Ég er sannfærður um að hugur hans stendur til þess og hann á minn stuðning í þeim efnum. En það sem ég vakti máls á, hæstv. ráðherra, var að ég tel að það sé óskhyggjan ein, því miður, að það verði komin jarðgöng undir Hvalfjörð og það verði búið að byggja upp veginn frá Ísafirði til kaupstaðarins Ísafjarðar innan þriggja ára. Vegna þess að ég tel að þetta verði ekki til staðar, þá liggur það í augum uppi, hæstv. ráðherra, að þá á að leggja niður bæði Akraborgina og Fagranesið. Það var það sem ég gat um í mínum upphafsorðum og vildi fá að skoða betur í samgn.
    Annað sem ég vildi einnig geta um er að í þeirri nefnd sem endurskoðaði þetta mál voru að sjálfsögðu eintómir stjórnarsinnar. Enginn af þeim sér ástæðu til þess að sitja hér inni nú. Að vísu var hæstv. 6. varaforseti þingsins dæmdur til þess að sitja hér um stund í ræðustólnum og þurfa að hlusta á mál okkar en lengur gat hann ekki verið og enginn sést nú í salnum af þeim stjórnarliðum sem voru við að semja þetta frv.
    Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu sem ég bar hér fram um það hvaða kostnaðartölur við værum hugsanlega að ræða um eftir að búið væri að færa um þriðjung kostnaðar af stofn- og viðhaldskostnaði þjóðvega í þéttbýli frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessari spurningu minni og því beini ég henni til þeirra þingmanna Sjálfstfl. og Alþfl., þar af tveggja hæstv. varaforseta þingsins sem hljóta nú að vera hér í húsinu, að þeir svari þessu. Þetta hlýtur að hafa komið fram í störfum nefndarinnar. Um það háar upphæðir hlýtur að vera að ræða að það getur ekki annað verið en nefndin hafi gert sér einhverja grein fyrir því um hvað var verið hér að fjalla. ( Gripið fram í: Í sambandi við hvað?) Kostnað. ( Gripið fram í: Við hvað?) Flutning. ( Gripið fram í: Á hverju?) Verkefnum til sveitarfélaga.