Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 13:52:57 (787)


[13:52]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú satt að segja síst ástæða til að gagnrýna Sjálfstfl. í þessum sal fyrir það að hafa óskýra stefnu í þessu máli. Ég tel að það sé í raun og veru fagnaðarefni að Sjálfstfl., þessi stóri flokkur komi tiltölulega opinn að viðræðuborði um kjördæmamálið. Þess vegna vil ég vísa því á bug og gagnrýna þingmenn fyrir að ráðast með þessum heiftarhætti að hv. 3. þm. Reykv. eins og hér hefur verið gert.
    Ég tel í alvöru talað að það sé í raun og veru mikilvægast sem fram kom í hans ræðu hér upphaflega áðan að flokkarnir og forustumenn þeirra tali um þessi mál og tali um þau út frá tveimur grundvallarsjónarmiðum.
    Í fyrsta lagi að það sé um að ræða eins góðan jöfnuð á milli sjónarmiða, milli pólitískra sjónarmiða í landinu og kostur er. Í öðru lagi því að það sé eins góður jöfnuður og kostur er á milli byggðarlaga í landinu. Þetta tvennt þarf að fara saman. Ef menn læsa sig fasta í einhverjar flokkssamþykktir áður en menn leggja af stað í viðræður af þessu tagi þá komast menn aldrei á leiðarenda. Þess vegna vil ég bera af hv. 3. þm. Reykv. þá rakalausu og ósanngjörnu gagnrýni sem flutt hefur verið á hann hér á þessum fundi, hæstv. forseti.