Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 14:46:50 (810)


[14:46]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. þessarar þáltill. fyrir að flytja hana. Ég er að vísu að einu leyti ekki sammála henni. Ég tel að hún sé of einhæf vegna þess að í henni er verið að tala um að rannsaka sérstaklega einungis eina útfærslu á hugmyndum um að breyta kosningalöggjöfinni og kjördæmaskipuninni. En hv. 1. flm. hefur sagt að hann telji eðlilegt að það verði endurskoðað í nefnd og ég tek það fullkomlega gilt.
    Ég hef líka tekið það alveg fullkomlega gilt að það væri full meining hjá stjórnarflokkunum í því að þeir ætluðu sér að taka þetta mál á dagskrá og það er þess vegna sem ég hef hreyft umræðu áður, bæði í mínum þingflokki og víðar, um það hvernig Alþb. ætti að bregðast við nýjum hugmyndum um það hvernig ætti að skipa þessum málum. Ég er einn af þeim sem tel að núgildandi fyrirkomulag sé út af fyrir sig að mörgu leyti nokkuð gott og það tryggir ákveðna hluti sem ekki voru fyrr hendi áður en það varð til. Það tryggir að það er jöfnuður milli flokkanna og það tryggir annað sem ég tel mjög mikilvægt. Það tryggir flokkunum flestum að mestu leyti fulltrúa í hverju kjördæmi. En það er mesti ágallinn á þeim hugmyndum sem ég hef heyrt um breytingar að flestar ganga þær út á það sama, þ.e. að taka fulltrúa af kjördæmunum úti á landi. Ef menn ætla að lækna eitt óréttlæti sem menn finna í því að þeir fái ekki nógu marga fulltrúa hér í þéttbýlinu með því að koma á öðru óréttlæti sem felst í því að menn fái engan fulltrúa í ýmsum kjördæmum fyrir ýmsa flokka hér út um allt land, þá er það ekki nógu góð niðurstaða og ég mun ekki styðja slíka niðurstöðu. Ég tel aftur á móti að það séu nægilegar röksemdir fyrir því að segja sem svo að þetta sé út af fyrir sig kannski viðunandi fyrir fólkið í þéttbýlinu. Fólkið í þéttbýlinu gerir t.d. alls ekki þá kröfu að fá sama vægi atkvæða sinna í sveitarstjórnarkosningum eins og gerist út um land. Það þyrfti t.d. æðimarga borgarfulltrúa í Reykjavík ef það ætti að jafnast á við hreppsnefndarfulltrúa í einhverjum litlum hreppi eða eitthvað í þessum dúr. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta snýst um þá pólitísku skoðun manna að það sé eins konar togstreita í gangi milli þéttbýlis og dreifbýlis og þess vegna þurfi fjöldi þingmanna úr þéttbýlinu að vera miklu meiri heldur en úr dreifbýlinu. Það sé það sem menn vilji rétta af. Ég hef ekki skilið útskýringar manna á því að það væri meira réttlæti að gera menn fulltrúalausa á landsbyggðinni heldur en að þeir fái eins og nú er fyrst sinn fulltrúa kosinn inni í þéttbýlinu en hjálpi síðan til við að kjósa fulltrúa fyrir sinn flokk inni á landsbyggðinni. En þannig kemur þetta mér fyrir sjónir.
    En þessi umræða hefur verið vakin upp og ég tel að hún eigi að ganga fram. Við þurfum á henni að halda. Það hefur verið mikill áróður í gangi um að það þurfi að jafna þennan atkvæðisrétt og við þurfum að ganga í gegnum þessa umræðu. En þessar tillögur sem ég nefndi hér áðan um jöfnun atkvæðisréttarins ganga sem sagt út á þetta annars vegar, einhvers konar fækkun þingmanna í kjördæmum og kannski smærri kjördæmi og hins vegar eina hugmynd sem er um það að fækka kjördæmunum. Ég tel að fækkun þingmanna í kjördæmum með þeim hætti sem hefur verið lýst komi ekki til greina vegna þess að hún skapi þetta óréttlæti sem ég var að lýsa áðan, þ.e. að fólk missti þá fulltrúa sína í hinum dreifðu byggðum.
    Hin hugmyndin, að fækka kjördæmunum, er ekki gallalaus heldur. Hún gæti tryggt meiri jöfnuð atkvæða, en hún mundi á móti auka ójafnvægið milli þingmanna og þeirra starfa sem þeir ættu að vinna. Það væri mjög óeðlileg verkaskipting, finnst mér, að hafa 20--23 þingmenn í hinum dreifðu kjördæmum en síðan eitthvað yfir 40 þingmenn sem væru kosnir í þéttbýlinu. Verkefni þingmanna úr dreifbýlinu, við skulum segja Vesturlandskjördæmi eða hvað það nú héti sem næði allt frá Hvalfirði og að Norðurlandi sem er kallað Norðurl. v. núna, það væri mikill munur á verkefnum þingmanna. Það væri síðan aragrúi þingmanna sem væri kosinn hér úr þéttbýlinu, sem væri talinn kjördæmakosinn hér úr þéttbýlinu. Þess vegna hefur það flögrað að mér og verið mín niðurstaða að ef landsbyggðarfólk stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að fólk vilji ekki una þessu misvægi atkvæða, þá verði menn að meðtaka það sem staðreynd. Og svarið við því hljóti þá að vera að athuga það gaumgæfilega hvort hægt væri að gera landið að einu kjördæmi þannig að allir stæðu jafnt gagnvart þeim fulltrúum sem kosnir væru til löggjafarsamkomunnar. Það er ýmislegt sem mundi vinnast með þessu. Það er ekki ágallalaust heldur. Það er alveg efalaust að þetta er meira miðstýringarkerfi heldur en við búum við í dag. En það yrði kannski meiri friður um það og ég hugsa að fólkið á landsbyggðinni sé frekar tilbúið til þess að taka þátt í einhverjum breytingum þar sem allir eru settir við sama borð heldur en að sæta því að heilu landsvæðin verði þá án fulltrúa.
    Ég held líka, og ég vil koma að því, að þingmenn sem væru kosnir á þennan hátt fyrir landið mundu vinna öðruvísi. Þeir mundu vinna þannig að þeir litu á sig sem fulltrúa fyrir allt landið. Þeir færu að vinna bæði í tengslum við atvinnugreinar og landsvæði með öðrum hætti en áður. En flokkarnir stæðu síðan frammi fyrir því að það þýddi ekki að bjóða upp á lista sem ekki höfðuðu til kjósenda á landsbyggðinni á hverju svæði. Flokkur sem ætlar að vera með alvöruframboð á landsvísu hlýtur að þurfa að bjóða upp á einhverja möguleika fyrir viðkomandi landsvæði sem væri ekki lengur kjördæmi til þess að styðja þann lista. Ég held að ef við bara bregðum okkur aðeins yfir í þetta hlutverk, svo að ég nefni dæmi um jákvæða breytingu, þá væri t.d. Kvennalistinn með sinn þingflokk í dag ef landið væri eitt kjördæmi,

þá væri það auðvitað eðlilegt hlutverk Kvennalistans að þingmenn hans sinntu öllum kjördæmunum í landinu, öllum landsvæðunum. Það er eins og þingmenn vita ekki þannig að þingflokkar sem eiga ekki fulltrúa í kjördæmunum geti með sama hætti, þó þeir vilji, sinnt öllum kjördæmum landsins og tekið þátt í þeim málefnum sem þar eru leyst.