Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:41:34 (828)


[15:41]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt sem hæstv. umhvrh. sagði að það eru nokkrir í Alþfl. sem ekki eru sammála þeirri skoðun að taka hér upp kjördæmaskipan sem byggir á landið eitt kjördæmi. Ég held meira að segja að þeir séu ekki bara nokkrir heldur sé það allfjölmennur hópur sem aðhyllist þá skoðun að það sé ekki skynsamlegt. Fyrst og síðast vegna þess að sú kjördæmaskipan sem við höfum búið við allt frá árinu 1959 hafi reynst okkur afar vel. Hún hafi gagnast þjóðinni mjög vel og lagt grunn að kosningakerfum sem hafa að vísu tekið breytingum einu sinni á þessu tímabili og við þetta kerfi megi enn una vel. Þegar við hugsum um að breyta kjördæmaskipan til eins kjördæmis þá verður mér strax eitt atriði í huga. Það er það að ég held að það muni veikja samband þings og þjóðar af því að kjördæmaskipanin eins og hún er núna leggur þennan grundvöll og hún treystir samband þings og þjóðar betur en ef landið væri eitt kjördæmi. Þetta finnst mér mjög mikilvægt, sérstaklega nú á tímum þegar ríkisvald hefur verið að eflast í Reykjavík, ríkisstofnanir að þenjast út og þeim fjölgað og embættiskerfinu öllu vaxið fiskur um hrygg, þá tel ég afar mikilvægt að styrkja þingið og ég held að þingið styrkist ekki ef við ætlum að byggja það á kosningakerfi sem á rætur að rekja til landsins sem eins kjördæmis.
    Í þessu sambandi og þessu tengt eru umræður sem Sjálfstfl. hefur haft forustu fyrir og kom fram á landsfundi hans og var ályktað sérstaklega um það nú fyrir stuttu að það beri að fækka þingmönnum og ráðherrum. Ég hef ekki enn þá heyrt nein skynsamleg rök lögð til grundvallar því að rétt sé að stefna að fækkun þingmanna og ráðherra. Það kann að vera að það sé til vinsælda vel fallið að tala þannig en vona að svo verði alls ekki. Mér segir svo hugur að sá vilji liggi að baki þessari landsfundarályktun Sjálfstfl. Aftur á móti ef sá hugur fylgir máli að þessi tillaga sé lögð fram til þess að stuðla að sparnaði í ríkisrekstri og að draga úr kostnaði við uppihald og rekstur þingsins þá er náttúrlega annað upp á teningnum og ber að skoða málið í víðara samhengi. (Gripið fram í.) Ég er viss um það ef þjóðin yrði spurð að því hvort

hún mundi frekar vilja spara hjá Seðlabankanum eða hjá Alþingi að þá mundi þjóðin taka afstöðu með þinginu. Vegna þess að það kostar nánast það sama að reka Seðlabankann og Alþingi. Það kostar nánast það sama að reka og halda Alþingi uppi með öllu inniföldu og Seðlabankann. Þetta segir náttúrlega mikla sögu og ég verð að segja það að ég hefði fremur vænst þess að við hefðum fengið að sjá sparnaðartillögur af landsfundi Sjálfstfl. sem hefðu horfið í þá átt að spara í Seðlabankanum, í miðstýringunni, í kerfinu heldur en að draga úr lýðræðinu í landinu vegna þess að það hlýtur hver maður að sjá að ef fækka á stórlega alþingismönnum, fulltrúum kjörins valds í landinu, þá erum við náttúrlega að veikja lýðræðið með ákveðnum hætti. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að þjappa valdi á færri hendur. Það er sérstakt að sjá hvernig fjöldi þingmanna hefur þróast frá árinu 1920 og allt fram til þessa dags. Þeir voru 40 árið 1920 og eru 63 í dag. Það er merkilegt að þeim hefur alltaf fjölgað þegar kjördæmaskipan hefur verið breytt. ( KÁ: Hvað hefur þjóðinni fjölgað á þessum tíma?) Það væri rétt að skoða það í samhengi þó að ég segi ekki að það þurfi að vera endilega algildur mælikvarði á það hvað þingmenn eigi að vera margir og talan 63 sé ekki heilagri en önnur í þessu sambandi. Hitt tel ég aðalatriðið að þegar við ræðum um fækkun eða fjölgun, að við ræðum það á einhverjum rökrænum grundvelli, að við gerum það ekki á grundvelli fljótfærni, öfga eða hentistefnu af því að okkur finnst það bara. Þannig skipum við ekki grundvelli lýðræðisins í landinu.
    Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma fram í sambandi við þessa umræðu. Auðvitað skiptir það máli hvar alþingismenn eiga heima og hvar þeir eru kosnir. Það skiptir máli. Og ef við ætlum að rjúfa þessa hefð, sem við höfum byggt lýðræðið í landinu á, að kjósa þingmenn í nokkrum kjördæmum í landinu sem fólkið þekkir vel, þá á ég við kjördæmaskipunina, þá er ég hræddur um að það veiki samband þings og þjóðar sem ég tel langtum fremur að þurfi að efla núna.
    Og síðast en ekki síst þetta: Ef við breytum landinu í eitt kjördæmi og á sama tíma ætlum að fækka þingmönnum þá tel ég að við séum að veikja löggjafarvaldið andspænis framkvæmdarvaldinu. En einmitt hið gagnstæða held ég að sé meginmál núna og virkilegt umhugsunarefni fyrir Alþingi að hugleiða hvernig við getum styrkt þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu, gagnvart embættiskerfinu. Það er satt og það er rétt. Mér finnst það og mörgum fleiri að embættiskerfið hafi verið að taka til sín meiri og meiri völd. Það býr yfir meiri þekkingu og það býr jafnvel yfir meiri tækni til þess að safna þekkingunni og beita henni. Og Alþingi eins og búsetan á landsbyggðinni á í vök að verjast. Þar fara saman búsetan og Alþingi gagnvart þessu kerfi og ég er hræddur um að ef við ætlum að fækka þingmönnum og veikja grundvöllinn undir kosningaskipuninni þá séum við að veikja lýðræðið í landinu og það vil ég ekki.