Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 15:52:06 (830)


    [15:52]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki gert það nógu vel að skýra út í hverju þetta felst að tengsl þings og þjóðar eru betur varðveitt á grundvelli núverandi kjördæmaskipunar en ef landið yrði eitt kjördæmi. Það felst náttúrlega í því að núna sækir þingmaðurinn umboð sitt inn á afmarkað svæði og ber ábyrgð á gjörðum sínum fyrst og fremst á þessu svæði þó að hann beri ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þjóðinni allri um leið og hann er hluti af tilteknum þingflokki.
    Og annað sem ég vildi benda á í þessu sambandi líka, sem kannski ekki er tími til að skýra út né hef reynslu af að vera hvort tveggja í senn þingmaður hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það kemur mér virkilega á óvart hvað fólk virðist búa í langtum meira nábýli við hinar pólitísku ákvarðanir á landsbyggðinni heldur en það gerir hér á höfuðborgarsvæðinu. Í því náttúrlega birtist um leið þessi atvinnuskipan sem við búum við. Það eru 2000 krókaleyfisbátaeigendur sem bíða núna eftir því hvaða ákvörðun verður tekin hér um lífsafkomu þeirra allra. Ég er hræddur um að það verði vandfundnar þær stéttir í Reykjavík sem eru svo nákomnar hinni pólitísku ákvörðun um lífsafkomu sína, jafnvel frá ári til árs.