Kostir þess að gera landið að einu kjördæmi

25. fundur
Fimmtudaginn 28. október 1993, kl. 17:32:36 (866)


[17:32]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú fer kannski svo að ég verð að fara að stafa og vita hvort hv. þm. skilur þá. En ég hef margsinnis tekið fram í dag að þetta mál sé sett fram til þess að það sé skoðað sem raunverulegur möguleiki og verði með í umræðunni í framhaldinu um breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipan. Ég sagði einnig í ræðu minni áðan að ég sem óbreyttur þingmaður taldi mig ekki hafa neina stöðu til þess að setja fram tillögu um að málið væri skoðað í heild. Þá hefði ég færst allt of mikið í fang. Það er hlutur sem á að vera á vettvangi forustumanna í stjórnarflokkunum. Það tekur hins vegar ekki þann rétt af einstökum þingmönnum að leggja til að þar verði einstakar leiðir skoðaðar ofan í kjölinn þannig að þær verði gjaldgengar inn í þá umræðu.