Framlög til vísindarannsókna

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:36:05 (902)


[15:36]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin en þau sýndu að hörmungasaga einkavæðingarinnar virðist engan enda ætla að taka hjá ríkisstjórninni. Eins og menn bentu á fyrir u.þ.b. ári síðan þá hafa þessi áform ekki gengið eftir og þar af leiðandi hafa þeir peningar sem áætlað var að verja til vísindarannsókna og þróunar ekki skilað sér. Þetta er auðvitað mjög bagalegt vegna þess að við þurfum ekki á neinu meira að halda en að efla rannsóknir og þróunarstarf í atvinnulífi og grunnvísindum af ýmsu tagi. Því get ég ekki annað en harmað það að ríkisstjórnin skyldi fara þessa leið í fyrra og nú skuli þurfa að leita eftir heimildum á fjáraukalögum til þess að reyna að standa við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem eru ekki bjóðandi, ég verð nú að segja það, virðulegi forseti. En ég vona svo sannarlega að það aukna fé sem nú á að verja til vísindarannsókna skili sér en þetta er ekki nóg, við þurfum meira og við þurfum peninga til vísindarannsókna á fleiri sviðum og þau fjárframlög verða að hvíla á traustum grunni.
    Ég fagna því að menn eru að beina þessu inn í ákveðna sjóði sem vonandi verður til þess að það verður haldið fastar um og peningar veittir í verkefni sem skipta máli, en það er einu sinni svo í vísindum að það er erfitt að meta hvað skilar sér og hvað ekki og ýmislegt sem gert er kann að vera tilraunanna virði en ekki víst að árangurinn sýni sig í atvinnulífinu eða annars staðar. En það fór sem sagt eins og mig grunaði að þessi einkavæðingaráform hafa ekki skilað sér til vísindanna.