Málefni Blindrabókasafns

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:58:44 (910)


[16:01]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :

    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra sé ljóst að ég er sérstaklega að vísa til margítrekaðra athugasemda frá Blindrafélaginu og Öyrkjabandalagið þar sem beðið hefur verið um miklu nánara samráð og samvinnu. Ég tek ekki afstöðu til þess, hvort þetta samráð heyri endilega einungis undir eina fulltrúa Blindrafélagsins í stjórn Blindrabókasafnsins. En ég vil nefna það sérstaklega að þetta hefur verið gagnrýnt og það ekki bara einu sinni eða tvisvar heldur mjög oft. Þær upplýsingar sem fram komu í máli hæstv. ráðherra um það að þarna sé í rauninni ekki um þann hóp sem helst þarf á að halda að ræða sem sækir þjónustumiðstöðina að Hamrahlíð 17, heldur sé þetta hópur sem er dreifður út um allt hafa verið vefengdar. Þarna eru fullyrðingar á móti fullyrðingum eins og ég veit að hæstv. ráðherra veit um. Ég ætla ekki að rekja þau bréfaskipti sem hafa verið þarna á milli. Ég veit að hæstv. ráðherra er þetta ljóst og mig langar því að spyrja hann núna í framhaldi: Telur hæstv. ráðherra að það hafi verið reynt til þrautar að ná sáttum í þessu máli því að það er ekki í sátt hér og nú. Í öðru lagi: Telur hæstv. ráðherra að það sé ásættanlegt að gera þetta í ófriði við Blindrafélagið og Öryrkjabandalagið, ef af þessum flutningi yrði?