Húsnæðiskannanir sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:05:17 (912)

[16:03]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Árið 1990 voru gerðar verulegar breytingar á þeim kafla laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins sem snúa að félagslega húsnæðiskerfinu. Eitt af því sem tekið var á í þessari endurskoðun laganna var sá þáttur sem snýr að skipulagningu og mati á þörf fyrir félagslegt húsnæði. Það má ljóst vera að til að fjármagn nýtist sem best og þeir peningar sem til skiptanna eru fari þangað sem þörfin er mest verður þekking að vera til staðar um samsetningu íbúa og félagslegt ástand. Því var sett inn í lögin árið 1990 ákvæði um að heildarþörf fyrir félagslegt húsnæði yrði könnuð með reglulegu millibili í hverju umdæmi og áætlanir gerðar í samræmi við niðurstöðuna. Einnig áttu slíkar áætlanir að vera stjórn Húsnæðisstofnunar til leiðbeiningar við úthlutun lána. En hvernig hefur framkvæmdin verið? Það fýsir mig að vita og því spyr ég hæstv. félmrh. á þskj. 68 eftirfarandi spurninga:
  ,,1. Hversu mörg sveitarfélög könnuðu heildarþörf á félagslegu húsnæði í umdæmi sínu á árunum 1991--1993, sbr. 45. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins?
    2. Hversu mörg sveitarfélög hafa gert áætlanir til fjögurra ára um byggingu og kaup á félagslegu húsnæði, svo sem skylt er samkvæmt lögum, á grundvelli slíkra húsnæðiskannana?
    3. Hvernig hefur verið staðið að húsnæðiskönnunum sveitarfélaganna? Hafa þær verið samræmdar þannig að um sambærilegar niðurstöður sé að ræða?
    4. Hafa húsnæðiskannanir sveitarfélaga verið lagðar til grundvallar lánveitingum Húsnæðisstofnunar ríkisins til félagslegra íbúðarbygginga eða kaupa á undanförnum þremur árum?``