Útfararþjónusta

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:15:49 (938)

[17:15]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við þessum fyrirspurnum. Þau voru ítarleg og greinargóð út af fyrir sig, þó að ég væri kannski ekki alveg alls kostar ánægður með þau öll. Ég leyfi mér að hafa t.d. uppi efasemdir um það að þetta nýja væntanlega fyrirtæki geti verið svo sjálfstætt frá annarri starfsemi Kirkjugarðanna, eins og lögin kveða skýrt á um. Auðvitað er ég ekki lögfróður maður og get ekki kveðið upp neinn dóm í því efni. Vafalaust hefur ráðuneytið skoðað þetta vel og vandlega, en ég sé það þó á fundargerðum sem ég vitnaði til áðan og ég hef hér fyrir framan mig, að um þetta eru reyndar mjög skiptar skoðanir hjá þeim fulltrúum sóknarnefnda sem sæti eiga í stjórn Kirkjugarðanna og sátu þennan fund. Tillaga um stofnun þessa fyrirtækis sem þar var borin til atkvæða var samþykkt með 10:6 atkvæðum og segir hér í fundargerðinni að þar að auki hafi einhverjir setið hjá, þannig að um málið er alls ekki einhugur hjá Kirkjugörðunum. Það er auðvitað leitt til þess að vita að svo skuli vera.
    Varðandi það hver eigi að bera bótakröfuna ef hún yrði nú samþykkt, þá er sjálfsagt erfitt að kveða upp úr um það meðan mál er fyrir dómstólum og réttara að bíða eftir úrskurði þeirra. En þegar um bótakröfu af þessu tagi er að ræða, þá hafa sjálfsagt ýmsir verið valdir að því að svona hafa mál þróast á undanförnum árum. Mér fannst þess vegna ekki óeðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra eftir því hvort það kæmi ekki til greina að hið opinbera, ráðueyti hans eða fjmrn., ríkissjóður, tæki þátt í því að bæta það tjón sem kann að hafa orðið eða kann að verða í þessari samkeppni, þegar ljóst er að enn er verið að niðurgreiða útfararþjónustuna af hálfu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma svo sem staðfest er í þessum fundagerðum sem ég hef hér fyrir framan mig.