Fjöleignarhús

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 14:10:28 (953)

[14:10]
     Steingrímur J. Sigfússon :

    Virðulegur forseti. Ég dreg það ekki í efa að þörf er fyrir þær reglur sem þetta frv. gerir ráð fyrir að settar verði eða til staðar verði um meðferð mála í fjöleignarhúsum eins og á víst að fara að kalla þau samkvæmt textanum. Hitt finnst mér miklu meira álitamál hvar þeim reglum eigi að vera fyrirkomið og hvort það sé að öllu leyti skynsamlegt að setja þær upp í lagatexta með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Hér hafa verið færð fram rök fyrir því, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, að vegna þess að efni þessa frv. varði viðfangsefni sem sé hluti af daglegum samskiptum og umhverfi fjölda fólks þá sé nauðsynlegt venju fremur að lagatextinn sé skýr og skilji ekkert eftir opið.
    Ég held það megi reyndar færa sömu rök fyrir býsna mörgu sem til umfjöllunar er við löggjafarstarf. Þegar til kastanna kemur varðar það oftast og vonandi að einhverju leyti daglegt líf fólks eða getur haft áhrif á hagi þess og kjör og með sömu rökum býst ég við að mætti færa fram fyrir því rök að lagasafnið þyrfti að vera allmikið að vöxtum.
    Ég held að það sé líka annað sem þurfi að hafa í huga í þessu efni og það er að eitthvert samræmi sé í lagasetningunni hvað þetta atriði varðar. Mér sýnist því miður stefna ansi mikið sitt í hvora áttina. Hér er réttilega á það bent að tillagan er um að taka upp í lagatextann sjálfan ákvæði sem áður voru í reglugerð, en í mörgum öðrum tilvikum og jafnvel á sama þingi eða á undanförnum þingum hafa verið til meðferðar frumvörp sem ganga í alveg gagnstæða átt, að fella niður og einfalda lagatextann og láta afgreiða eða sundurliða og útskýra hlutina í ríkari mæli en áður var gert í annars vegar greinargerð og öðrum lögskýringargögnum og þá hins vegar í reglugerð.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á því og rugla því ekki saman að lög geta verið skýr þó þau séu einföld og stutt. Það er ekki það sama að setja skýr lög og að setja ítarleg lög. Ég tel að út af fyrir sig sé allt eins hægt að hafa í stuttum lagatexta mjög skýr ákvæði um það sem beinlínis er lögbundið og sömuleiðis skýr fyrirmæli um það hverju skal ráða til lykta í reglugerð. Lögin þurfa ekki að vera óskýr þótt þau séu stutt. Hitt gerist því miður auðvitað oft að þau eru hvort tveggja og reglugerðarvaldið sem framselt er er ekki takmarkað með neinni beinni lýsingu á því í lagatextanum til hvers reglugerðarákvæðin skuli taka. En menn mega hins vegar alls ekki rugla þessu tvennu saman að mínu mati og í mörgum tilvikum er það bæði þægilegra og eðlilegra að einstökum tæknilegum atriðum eða nánari skýringum sé komið þannig á framfæri. Það getur til að mynda auðveldað mönnum að setja skýra rammalöggjöf sem fær að einhverju leyti staðist tímans tönn en þarf ekki sífellt að breyta hér með frumvarpsflutningi vegna þróunar sem er í gangi úti í þjóðfélaginu.
    Þetta er vel þekkt á ýmsum sviðum, bæði í atvinnulífi og einkalífi og þarf ekki að fjölyrða um.
    Ég vil fyrst og fremst láta það sjónarmið mitt koma fram að þessu tvennu á ekki að rugla saman og ég er ekki endilega kominn til með að segja að það sé nauðsynlegt þó svo að menn vilji hafa um þetta atriði skýrar reglur sem hér eru til umræðu, að því eigi öllu saman að hnoða inn í lagatextann sem gerir þetta þar með að viðameiri lagabálkum í öllu lagasafninu, frv. upp á einhverjar 80 greinar ef ég man rétt.
    Ég verð t.d. að segja það alveg eins og er að ég hef efasemdir um að það sé þörf fyrir svo ítarleg ákvæði um húsfélög að þau slagi upp í hlutafélagalögin sjálf. Það liggur við að hér sé mælt með skýrari hætti í lögum fyrir um það hvernig skuli standa að hinum einstöku atriðum í sambandi við starfrækslu húsfélaga heldur en er í sjálfri grundvallarlöggjöf atvinnurekstrarins, hlutafélagalögunum. Er t.d. ástæða til þess að taka á því í lögum hvenær óþarft sé að kjósa sérstaka stjórn húsfélags í minni húsum, en það er gert í 67. gr. Þar segir undir fyrirsögninni ,,Sérstök stjórn er óþörf í minni húsum``, með leyfi forseta:
    ,,Þegar um er að ræða fjöleignarhús með sex eignarhlutum eða færri er ekki þörf á að kjósa og hafa sérstaka stjórn og fara þá allir eigendur í félagi saman með það vald og þau verkefni sem stjórnin annars færi með samkvæmd lögum þessum.
    Einnig er heimilt í slíkum húsum að fela einum eiganda að einhverju leyti eða öllu verkefni stjórnar og skal þá beita ákvæðum laganna um stjórn eftir því sem við á um hann.``
    Ég spyr mig að því hvort það sé ástæða til þess að fara svona nákvæmlega ofan í saumana á þessum hlutum og hafa það t.d. bundið af lagatextanum að það þurfi ekki sérstaka stjórn ef eigendur eru sex en þess þurfi hins vegar afdráttarlaust ef þeir eru sjö. Þetta er dæmi um það í hvaða vandræðum menn geta lent þegar menn einmitt fara að tína inn einstök smáatriði eða skilgreiningaratriði af þessu tagi. Auðvitað geta menn sagt og vissulega með réttu að þetta geti komið í veg fyrir rifrildi þar sem eru t.d. sjö íbúar og þar með geti þeir krafist þess og eigi heimtingu á því samkvæmt lagabókstafnum að þessi stjórn sé kosin. En ef þeir eru hins vegar sex þá geta þeir ekki krafist slíks. Spurningin er hvort ekki er auðveldara að leysa úr slíkum vandamálum með því að fela viðkomandi hópi eitthvert vald sjálfum, t.d. innan einhverra marka um það að meiri hluti íbúanna geti þá ráðið slíku til lykta, hvort hann vill hafa sérstaka stjórn í húsfélaginu eða ekki. Um þetta má sjálfsagt endalaust deila en ég leyfi mér allra náðarsamlegast að halda því fram þrátt fyrir m.a. rök síðasta ræðumanns að þessum hlutum megi ofgera og tel að það hljóti að koma til greina að hv. félmn., sem ég að öðru leyti óska góðs gengis í því að lesa og betrumbæta þetta frv., velti því fyrir sér hvort ekki mætti einfalda þessa löggjöf eitthvað. Sérstaklega vil ég þó endurtaka að það þarf aðeins að hafa það í huga að eitthvert heildarsamræmi sé haft að leiðarljósi þegar unnið er að lagasetningu af þessu tagi, að það sé ekki á ferðinni jafnvel í gegnum sama löggjafarþingið frv. sem vísa í algjörlega gagnstæðar áttir í þessum efnum. Þannig að það sé einhver stefnumörkun í gangi almennt séð hjá

löggjafanum um það á hvaða grundvelli löggjöfin skuli standa, hvort menn séu sem sagt frekar að leita eftir einfaldari og skýrri rammalöggjöf eða hinu að hún sé ítarlegri í einstökum atriðum eða velja þarna einhverja rökstudda og skynsamlega millileið. Og endilega ekki rugla því saman að viðamiklir lagabálkar séu sama sem skýr lagaákvæði. Því miður þarf það alls ekki að fara saman. Þvert á móti geta einföld og styttri lög verið allt eins skýr ef þau eru bara þannig úr garði gerð að fyrirmæli þeirra eru skýr og reglugerðarheimildirnar séu afmarkaðar og skýrar eins og frá þeim er gengið í lagatextanum en ekki galopnar. Það skrýtna er nú að þrátt fyrir þessa miklu löggjöf, upp á 81 grein, endar hún með tiltölulega hefðbundnum hætti --- eða hvernig? Með reglugerðarheimild, 81. og síðasta grein frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði og fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.``