Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:15:18 (960)

[15:15]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið um frv. til húsaleigulaga. Ég hygg að það sé óhætt að segja að í heildina tekið fái þetta frv. jákvæðar undirtektir þeirra sem hér hafa talað þó að vissulega hafi komið fram ýmsar ábendingar frá síðustu tveimur ræðumönnum og álitamál sem þeir nefna, sem þá væntanlega verða skoðuð í félmn. En ég legg mikla áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi því að ég tel að í því felist mikil réttarbót fyrir leigjendur.
    Hér hefur verið varpað fram spurningu um húsaleigubætur og hvort frumvarp um það efni verði lagt fram á yfirstandandi þingi. Það er nú svo varðandi húsaleigubætur að þær hafa verið allmörg ár í umræðunni hér á þingi og úti í þjóðfélaginu, án þess að þær hafi verið lögfestar. Ég minni á það að í tíð síðustu ríkisstjórnar var mikið fjallar um húsaleigubætur og það var ekki fyrr en á síðustu dögum þeirrar ríkisstjórnar að það frv. var lagt fram hér á Alþingi. Síðan var þetta mál tekið upp í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar og ég hef lagt mikið kapp á að löggjöf um húsaleigubætur nái fram að ganga. Ástæða þess er augljós. Ég tel að það eigi að jafna aðstoð frá hinu opinbera til leigjenda eins og til íbúðareigenda. Íbúðareigendur njóta allmikillar aðstoðar frá hinu opinbera, til að mynda í gegnum skattkerfið, meðan þeir sem búa á leigumarkaðinum njóta þar engrar aðstoðar. Og það er auðvitað svo að það fólk sem er á leigumarkaðinum hefur ekki önnur tök en að leigja á almennum markaði ef það fær ekki inni í félagslegu íbúðakerfi. Þar er meiri eftirspurn heldur en framboð og þetta fólk hefur ekki neitt fjármagn eða greiðslugetu til þess að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Og það segir sig sjálft að oft er þetta það fólk sem er verst statt í þjóðfélaginu. Því er gert að greiða háa leigu, kannski helming til þriggja fjórðu af sínum tekjum í húsaleigu, og það segir sig sjálft að það er brýnt að jafna þennan aðstöðumun, þennan mun sem er milli þeirra sem leigja og þeirra sem geta eignast húsnæði.
    Okkar nágrannaþjóðir, svo að ég vitni nú bara til Norðurlandanna, hafa fyrir löngu síðan farið þessa leið og telja sjálfsagt að þeir sem þurfa að leigja og þeir sem eiga íbúðir séu jafnsettir hvað varðar aðstoð frá hinu opinbera. Og það er alveg ljóst að aðstoð á hinum Norðurlöndunum til þeirra sem þurfa að leigja hefur skilað sér mjög vel til þess að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem eru á leigumarkaðinum. Í úttekt sem hefur verið gerð í þessu efni af norrænu ráðherranefndinni kemur í ljós að þetta hefur skilað sér mjög vel til láglaunafólks og er Danmörk þar nefnd sem dæmi um það að þetta hafi lækkað húsnæðiskostnað láglaunafólks í Danmörku um 26%. Í Svíþjóð, þó sú þjóð hafi nú gengið í gegnum nokkurn niðurskurð í ríkisútgjöldum, þá er engu að síður á döfinni þar að hækka húsaleigubætur vegna þess að þetta er talið hafa skilað sér mest og best til láglaunafólks. Það er því augljóst af hverju ég sæki það mjög fast að slíkt frv. líti dagsins ljós hér á Alþingi og verði afgreitt og ég hygg að verkalýðshreyfingin taki almennt undir nauðsyn á slíkri lagasetningu, enda var það svo að ákvæði um þetta eru ekki einungis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar heldur var einnig samið um það í kjarasamningum fyrir vel ári síðan. Í kjölfar þess var sett niður nefnd sem skilaði frá sér áliti um útfærslu á húsaleigubótum. Og þá kem ég kannski að því að svara hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, 4. þm. Norðurl. e., þar sem hann tefldi fram sínum rökum fyrir því að nauðsynlegt væri að lögfesta þetta mál á þessu þingi þannig að þetta gæti komið í gegnum útgreiðslu í skattkerfinu með líkum hætti og vaxtabætur, ef ég skildi þingmanninn rétt.
    Ég vil nefna í því sambandi að í þeirri útfærslu sem var lögð fram af síðustu ríkisstjórn, á síðustu dögum sem hún lifði, þá var gert ráð fyrir að framkvæmdin yrði með þeim hætti að þetta yrði greitt í gegnum skattkerfið með líkum hætti og vaxtabætur. Í þeirri útfærslu sem núna liggur fyrir frá þeirri nefnd sem lagði til breytta leið varðandi þetta atriði, þá er lagt til að framkvæmdin verði hjá sveitarfélögunum og að húsaleigubætur verði ekki greiddar eftir á heldur jafnóðum þannig að þau rök sem þingmaðurinn tefldi fram eiga ekki við í þessu tilviki.
    Varðandi spurningu hv. þm. og reyndar einnig hv. 2. þm. Austurl. um hvenær frv. um húsaleigubætur verði lagt fram, þá vænti ég þess að það geti orðið hið fyrsta. Hitt er engu að síður ljóst að það hefur ekki náðst niðurstaða milli stjórnarflokkanna hvenær og með hvaða hætti það frv. verður. Engu að síður geri ég mér vonir um að það geti orðið fljótlega. Ég hef lagt áherslu á að þetta frv. verið lögfest á yfirstandandi þingi þó að framkvæmdin eða gildistakan yrði ekki fyrr en 1. jan. 1995. Ég geri mér vonir um

að það muni skýrast fljótlega hver niðurstaðan verður í þessu máli á milli flokkanna, en ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað á þessari stundu en að um það geti náðst samkomulag hvenær það frv. verður lagt fram. Það má segja að það sem fyrst og fremst hafa verið skiptar skoðanir um milli flokkanna hafi verið hvernig staðið skyldi að fjármögnun húsaleigubótanna. En ég vænti þess, virðulegi forseti, eins og ég hef hér sagt, að það mál verði í höfn á milli flokkanna fljótlega.