Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:25:57 (962)


[15:25]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurði hvort búið væri að ræða þessi mál við sveitarfélögin. Auðvitað er búið að því og hefur fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga setið í nefnd með fulltrúa félmrn. og fjmrn. til þess að vinna að þessari útfærslu. Ég vil nefna það af hverju það er eðlilegt að sveitarfélögin sjái um framkvæmdina á þessu. Menn komust einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það væri rétt, eðlilegt og skynsamlegt vegna þess að sveitarfélögin, a.m.k. þau stærstu, eru með niðurgreiðslur varðandi styrki til þeirra sem eru á hinum almenna leigumarkaði, fyrir utan það að vera með niðurgreiðslur á leiguíbúðum. Það er talið að þetta nemi a.m.k. um 150 millj. kr. og því var talið rétt og eðlilegt að steypa þessu í einn farveg. Það er áætlað að það muni kosta um 300 millj. kr. að koma til móts við þá sem eru á almennum markaði og njóta ekki neinnar niðurgreiðslu með húsaleigubótum. Vissulega yrði það með þeim hætti að þessi fjárhæð yrði þá flutt frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna þannig að þetta yrði viðbót við það sem nú er hjá sveitarfélögunum í niðurgreiddum styrkjum, sem eru í nokkrum mæli til fólks á almennum markaði sem er undir tekjumörkum.