Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:52:13 (988)


[16:52]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær jákvæðu undirtektir sem frv. hefur fengið hjá báðum hv. síðustu ræðumönnum. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó að menn geri athugasemdir við greinargerðina því að það hefur aldrei staðið til af minni hálfu að leggja það til að hún yrði samþykkt á Alþingi. Ég geri mér fyllilega ljóst að þar er um að ræða smekksatriði og þar ræður úrslitum sá sem heldur á penna, þ.e. ég í þessu tilviki og er vanur að kveða með þeim hætti að orði sem þarna stendur, en ég er ekki að leggja þetta upp eins og ég sagði til samþykktar fyrir Alþingi eða synjunar og ekki einu sinni fyrir þingflokk Alþb. og er þá langt gengið að vísu, hæstv. forseti.
    Varðandi málið að öðru leyti þá finnst mér að það hafi í raun og veru komið fram hjá hæstv. ráðherra og í máli hans skilningur á stöðu og skyldu ráðherra sem er í grundvallaratriðum allt annar en ég hef. Mér er það alveg ljóst, hæstv. forseti, að það er enginn kostur á því að ræða þau mál nægilega vel hér á þessum fundi, en það kom fram í máli hæstv. ráðherra t.d. að honum hafi ekki verið skylt að leita til starfsmanna áður en hann réði þjóðminjavörð til tveggja ára. Það er alveg rétt, honum var það ekki skylt. Það stendur ekki í lögum. Hann sagði líka að sér hefði ekki verið skylt að leita til starfsmanna Ríkisútvarpsins áður en hann réði framkvæmdastjóra til eins árs. Það er rétt, honum var það ekki skylt. Það stendur ekki í lögum. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það hefði verið skynsamlegt að reyna að halda þannig á málum að það hefði tekist sátt um þessa niðurstöðu. Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur t.d. reynt að stýra þeirri óstýrilátu stofnun sem heitir þingflokkur Sjálfstfl. og ég er sannfærður um það af þeim sögum sem ég hef heyrt af honum þaðan frá öðrum þingmönnum að þar hefur hann ævinlega sýnt meiri lagni en þegar hann var að stjórna Þjóðminjasafninu og/eða Ríkisútvarpinu. Ég held að honum hafi mistekist, honum hafi verið verulega mislagðar hendur að því er varðar stjórn þessara tveggja menningarstofnana og ég harma það. Ég harma það í fullri alvöru, ekki aðeins vegna þessara stofnana heldur einnig vegna hans sjálfs.
    Hæstv. ráðherra sagði síðan um frv. sem slíkt að það væri tímaskekkja með þeim rökum í fyrsta lagi að nú væri unnið að samningu frv. um þjóðbókasafn. Ég vissi ekki um það. Mér þykir það fínt ef það er verið að semja frv. um þjóðbókasafn og þá finnst mér sjálfsagt mál að við tökum það til athugunar, þ.e. hvernig æðstu menn þeirrar stofnunar verða ráðnir og við getum þá skoðað hugmyndir þessa frv. í tengslum við það frv. þegar það kemur. En hæstv. ráðherra sagði að hugmyndir þeirra sem um þetta frv. fjalla um stjórn safnsins hnigi í allt aðra átt en hér er gert að fyrir. Það finnst mér merkilegt, satt að segja, kemur mér á óvart og ég er spenntur að sjá hvaða hugmyndir þeir menn hafa.
    Varðandi þau rök hæstv. menntmrh. gegn þessu frv. sem ég mæli hér fyrir að veitingavaldið sé með frv. tekið af ráðherra og það sé ekki skynsamlegt og ekkert fleiri rök um það. Af hverju getur ekki verið að það sé skynsamlegt að taka veitingavald af ráðherra? Hvaða rök eru fyrir því að ráðherra eigi alltaf að ráða mönnum sem vinna hjá ríkinu? Eru einhver sérstök rök fyrir því? Mér er það fullkomlega ljóst að hugsunin á bak við þetta er hin gamla hugsun einveldisins sem síðan var deilt út til ráðherranna þannig að samkvæmt stjórnarráðslögunum frá 1970 er í raun og veru hver ráðherra formlega séð einvaldur á sínu sviði. En er endilega rétt að þetta sé skynsamlegt í öllum tilvikum? Er ekki hugsanlegt að í sumum tilvikum sé það rétt að ráðherrann hafi ekki þetta vald heldur sjálfstæðar ríkisstofnanir sem beri ábyrgð, bæði faglega ábyrgð og líka fjárhagslega ábyrgð á þeim peningum sem þessar stofnanir eru að eyða? Er það endilega skynsamlegt að ráðherrar eigi alltaf að ráða því hverjir stýra stofnunum á þessu sviði ríkisbúskaparins? Ég segi nei og ég tala þar af verulegri reynslu í þessum efnum úr nokkrum ráðuneytum. Ég tel beinlínis að það sé rangt að ráðherra sé að kássast upp á mál í ríkisstofnunum með þeim hætti sem oft hefur verið gert og ég tel að undantekningarlítið hafi það gefist illa og stofnanirnar hafi orðið verri faglega eftir þá íhlutun ráðherranna heldur en án þeirra. Þess vegna finnst mér það ekki vera rök að veitingavald í þessu frv. er tekið af ráðherranum. Mér finnst það næstum eins og að segja: af því bara. Það eru engin efnisleg rök fyrir því eða fagleg að ráðherrar eigi endilega að hafa þetta veitingavald.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það er kostulegt að ráðherrar skuli vera að úthluta embættum á lægri stigum í ríkisstofnunum. Ég tala nú ekki um í æðri embættum. En á lægri stigum í ríkisstofnunum að þar sé ráðherra ekki bara að ráða hinn æðsta yfirmann, heldur líka á lægri stigum. Ég nefni í því sambandi t.d. Tryggingastofnun ríkisins eða Ríkisútvarpið. Ég held að þetta sé beinlínis rangt að farið og ég vil láta það koma fram. Ég sé engin rök fyrir því að menn eigi alltaf að taka því sem sjálfsögðum hlut að ráðherrar ráði þessum málum alltaf. Ég skil það ekki. Það er alveg lóðréttur ágreiningur á milli okkar núv. hæstv. menntmrh. í þessu efni, ég heyri það, og ég get út af fyrir sig skilið að það er ekki kostur á því að ræða það til hlítar hér, en ég segi, ég tel að stofnanirnar eigi að vera sem sjálfstæðastar þannig að það sé hægt að taka þessa menn og reka þá líka, ef þörf krefur, og að þeir séu bundnir lýðræðislegu aðhaldi og það sé hægt að gera kröfu til þess að þeir reki undirmenn sína ef þannig stendur á, ef þeir ekki standa sig í starfi. Ég held að reynslan sýni að þetta einræðishugarfar sem kemur hérna fram hjá hæstv. menntmrh., sé gamaldags, úrelt og rangt, og það gerir stofnanirnar verri sem faglegar ríkisstofnanir en þær þurfa að vera.
    Ég er nákvæmlega þessarar skoðunar líka að því er varðar það hvort forstöðumaður á að velja sér sjálfur staðgengil eða ekki, ég tel að maður sem er treyst til að ráða ríkisstofnun einhvern tímann eigi að fá að ráða því hver leysir hann af þegar hann er í burtu. Annað geti boðið upp á stórkostlega erfið innri vandamál í stofnuninni ef ágreiningur er á milli hins ráðna yfirmanns og staðgengils hans. Dæmi um það þekkjum við úr ríkisstofnunum bæði nú og áður. Þannig að ég tel eðlilegt að forstöðumaður hafi með þessi mál að gera. Hvort maðurinn er ráðinn til fjögurra ára og aftur fjögurra ára, eða fimm ára og aftur fimm ára skiptir mig engu, það breytir engu í þessu sambandi.
    Fyrir allmörgum árum flutti hv. 3. þm. Norðurl. v. um frv. til laga um breytingar á öllu stjórnkerfinu sem gerðu ráð fyrir því að allir æðstu yfirmenn yrðu eingöngu ráðnir til fjögurra ára og svo heimild til að ráða þá til fjögurra ára í viðbót. Út af fyrir sig má þetta vera á þennan veg eða annan fyrir minn smekk, aðalatriðið í mínum huga er það að losa um málið frá því sem það er, æviráðningarkerfið tel ég að sé slæmt.
    Þá kem ég að því að lokum sem mér finnst kannski það jákvæðasta við umræðuna, virðulegi forseti, það er það að ég tel að hæstv. menntmrh. og ég og aðrir sem hér hafa talað, hv. 14. þm. Reykv., séum sammmála um tvennt. Í fyrsta lagi að það eigi að vera dómnefndir, eða hugaleiða að það séu til dómnefndir. Það finnst mér árangur ef menn geta náð samstöðu um það. Í öðru lagi að það eigi almennt að tímabinda ráðningar þessara embættismanna, hvernig þær eru tímabundnar er svo annað mál, og ég tel þess vegna að þegar hafi frv. skilað nokkru gagni og ég er viss um að hv. formaður menntmn. sem hefur setið og hlýtt á þessar umræður með mikilli athygli mun beita sér fyrir því af festu og harðfylgi að frv. þetta

verði afgreitt samviskusamlega í nefnd hennar.