Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:35:00 (1007)

[18:35]
     Einar Már Sigurðarson :
    Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og fagna þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir. Það hefur komið fram í umræðunni að hér er vissulega um mikinn og margvíslegan vanda að ræða og ég hygg að hér sé einn meginvandi framhaldsskólakerfisins til umræðu. Ég fagna því þeim yfirlýsingum sem komið hafa fram hjá hæstv. menntmrh. og hv. þm. Sigríðu Önnu Þórðardóttur um það að fljótlega sé væntanlegt frv. frá nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði á síðasta ári.
    Það hefði í raun verið þörf á að það frv. hefði legið fyrir miklum mun fyrr en væntanlega sýnir það hversu mikill þessi vandi er að nefndin hefur þurft að taka sér miklu lengri tíma en ætlað var í upphafi.
    Það kemur fram í þeirri ágætu tillögu sem hér liggur fyrir að vandi iðn- og verknáms er margvíslegur. Hv. 1. flm. vék að því að Verkmenntaskóli Austurlands hefði verið að gera tilraun í þeim anda sem m.a. er hér lagt til. Ég vil því nota tækifærið og upplýsa örlítið hvernig það mál stendur. Það er rétt að Verkmenntaskóli Austurlands fékk

heimild frá menntmrn. að gera tilraunaverkefni til fimm ára á þann hátt að skólinn væri nokkurs konar milligönguaðili milli nema og meistara. Þetta hefur verið í vinnu í skólanum um nokkurt skeið og því miður verður að segja að undirtektir meistara hafa ekki verið eins og vænst var. Það helgast væntanlega fyrst og fremst af því atvinnuástandi sem nú um nokkurt skeið hefur einkennt iðnaðinn á Austurlandi. Þetta verkefni er hugsað þannig að það verði gerðir þríhliða samningar, í fyrsta lagi samningur milli skóla og nemenda, í öðru lagi samningur milli skóla og meistara og í þriðja lagi samningur milli nemenda og meistara.
    Undirtektir iðnnema hafa verið mjög miklar og fyrir liggja margra beiðnir frá þeim um að geta farið þessa leið. Sá áhugi sem verið hefur í þessum skóla helgast m.a. af þeirri miklu ábyrgð sem starfsmenn skólans hafa fundið gagnvart því sem fram hefur komið og kemur fram í greinargerð tillögunnar að mjög margir iðnnemar hafa ekki komist á samning eða getað lokið starfsþjálfun. Við höfum horft upp á það í þó nokkuð mörg ár að nemar sem lokið hafa námi í grunndeild, m.a. er það svo í nokkrum iðngreinum að nemendur hafa ekki heimild til þess að fara á samning öðruvísi en að ljúka grunndeild, að margir þeirra hafa ekki komist á samning og þar af leiðandi eingöngu lokið sinni grunndeild og ekki geta haldið áfram námi. Þetta er önnur hliðin á starfsþjálfunarvandanum. Hin hliðin er sú sem snýr að nemum sem hafa farið þá leið að fara í skólann og ljúka hluta af sínu verknámi þar en síðan átt eftir starfsþjálfunartímabil úti á vinnumarkaðinum. Þar hefur komið upp í seinni tíð mikill vandi, eins og hér hefur verið lýst, þar sem í ljós hefur komið að nú safnast upp stór hópur iðnnema sem ekki hefur getað lokið sínu iðnnámi og þar af leiðandi ekki getað gengist undir sveinspróf.
    Ég held því að það væri mjög brýnt og mundi sýna vilja Alþingis í verki ef þessi tillaga yrði samþykkt. Það er nauðsynlegt að brýna fyrir hv. menntmn. að hún fari mjög vandlega yfir þetta mál og það komi síðan aftur til afgreiðslu. Ég er sannfærður um að það mundi bæta frekar en hitt lagafrv. sem nú er í smíðum ef horft yrði á þá tillögu sem hér liggur fyrir.
    Einn þáttur er það sem hér er minnst á og er feikn mikilvægur í þessu sambandi, en það er eins og segir í greinargerð varðandi námsráðgjöf í íslensku skólakerfi. Það er hluti af ábyrgðinni gagnvart nemendum að þeir geti gengið að upplýsingum á sem bestan hátt. Því miður hefur ástandið verið svo til mjög langs tíma að nemar sem hafa verið að ljúka námi í grunnskólum hafa hreinlega ekki getað fengið neinar upplýsingar um það hvað bíður þeirra, hvað þá heldur að þeir hafi getað fengið einhverja fullvissu um það að geta lokið því námi sem þeir hafa áhuga á. Þetta er einn meginvandinn, það hefur skort upplýsingar og það hefur skort framtíðarsýn bæði hvað varðar þróun atvinnulífs og jafnvel þróun íslensks skólakerfis. Það má benda á það í þessu sambandi að sparnaði í skólakerfinu má ná á ýmsan hátt. Það hafa verið færð mjög sterk rök fyrir því að ein vænlegasta leiðin til að ná fram sparnaði í íslensku skólakerfi væri einmitt að efla námsráðgjöf, auka upplýsingastreymi til nemenda þannig að val þeirra væri byggt á sem traustustum grunni. Því miður hafa margir nemendur þurft að gera tilraunir á sjálfum sér í íslensku skólakerfi til þess í raun og veru að komast að því hvert hugur þeirra stefndi.
    Í þessu sambandi má rifja upp það sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði hér áðan um þann mun sem er á íslensku skólakerfi varðandi starfsmenntabraut og t.d. er í Þýskalandi. Þetta sést einnig mjög vel þegar horft er á iðnnámið sérstaklega en það hefur verið upplýst að það eru eingöngu rúmlega 37% þeirra sem einhvern tímann skrá sig í iðnnám sem hafa lokið iðnnámi sex árum eftir grunnskólapróf. Og það er innan við helmingur þeirra sem lýkur iðnnámi sem lýkur því á innan við sex árum frá lokum grunnskóla. Eitt til viðbótar til að sýna í raun hvað það tekur oft langan tíma að komast að niðurstöðu um hvert hugurinn stefnir þá er meðalaldur þeirra sem ljúka sveinsprófi 27 ár. En eins og við vitum þá er sá aldur sem nemendur eru oftast á í framhaldsskóla 16--20 ára.
    Það má hér bæta við, vegna þess að mér er um það kunnugt, að gerð hefur verið könnun á meðal nemenda tíunda bekkjar í grunnskólum á Austurlandi þar sem þeir voru m.a. spurðir um áhuga þeirra á framhaldsnámi og hvers konar framhaldsnámi þeir hefðu

áhuga á. Í ljós kom að rúmlega þriðjungur þeirra hafði áhuga á iðn- eða tækninámi. Þegar við berum þetta síðan saman við þær tölur sem raunveruleikinn sýnir okkur um það hverjir fara í þetta nám þá blasir við að það eru ekki allir þeir sem áhuga hafa á þessu námi sem fara í námið. Það er á margan hátt mjög skiljanlegt vegna þess að sú leið er mjög torfarin. Það er mun erfiðara að fara leið iðnmenntunar í íslensku skólakerfi heldur en leið bóknáms. Þess vegna held ég að þetta mál, þó mikilvægt sé, verði að skoða í samhengi við allan framhaldsskólann vegna þess að það gengur ekki að öll áhersla sé lögð á bóknám þrátt fyrir öll fögru orðin. Og því er ástæða til þess í lokin að fagna þeim orðum hæstv. menntmrh. að það sé mjög nauðsynlegt að stóraukið fjármagn verði veitt til starfsmenntunar á næstu árum.