Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:01:31 (1014)

[14:01]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni falleg orð í garð hestamanna og er ánægður með að heyra að hann hefur að mörgu leyti svipuð viðhorf og ég hef haft til reiðvegagerðar, að þegar nýir þjóðvegir eru gerðir þá eigi að hafa það í huga hvar hestamennirnir eiga að fara um og þá muni kostnaðurinn við reiðvegagerðina vera tiltölulega lítill.
    Ég vil hins vegar spyrja hann að því hvort hann væri sáttur við að þar sem vegir þarfnast nú úrbóta, þar sem búið er að leggja vegina en reiðvegi vantar, hvort hann væri sáttur við að fjármunir af hinu almenna vegafé sem er til skiptanna í hverju kjördæmi, að það fé væri notað til að bæta þar úr?