Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:07:26 (1019)


[14:07]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þingmaðurinn sagði að ég hefði ært óstöðugan og við sáum að hann fór hér upp, hv. þm. Árni Johnsen þannig að það kom mér ekki á óvart. En hér flutti hann eina af sínum undarlegu ræðum. Það er alveg rétt að það sjá það allir sem hugsa um leiðina til Vestmannaeyja að þar er ekki auðveld jarðgangagerð, jafnvel þó menn fari beint úr kartöflugörðunum í Þykkvabæ og þar út og niður þá gengur það ekki heldur.
    Ég taldi það skyldu mína að vera ekki að rugla þjóðina og síst Vestmanneyinga í því að það væri auðveldur hlutur og ódýr að gera jarðgöng til Vestmannaeyja. Mér datt ekki í hug að standa að því að afgreiða þá tillögu. Ég vænti þess að við báðir verðum steindauðir áður en þessi jarðgöng koma, við hv. þm. Árni Johnsen. En hvað Herjólf varðar þá var það mikilvægt samgöngutæki. Við vitum að gamla skipið bjó yfir miklum hættum, það var ein vél í því og þess vegna var mikilvægt að fá nýtt skip og ég vakti hér athygli á því að allt í kringum smíði skipsins hefði heppnast vel. Nú kemur hv. þm. Árni Johnsen og heldur því fram að skipið séu mistök og allt sem ráðherrann hefur sagt hér í stóryrðum í síðustu viku sé rétt. Ég bið hann um að flytja þessa ræðu úti í Vestmannaeyjum, yfir fólkinu þar. Ég hræddur um að hann fái jafnvel á baukinn hjá svartasta íhaldinu sem stjórnar þessu fyrirtæki.