Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 15:26:06 (1050)

[15:26]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar er á dagskrá. Stefnuleysi stjórnvalda í málefnum iðnaðarins er algjört. Á valdatíma núverandi ríkisstjórnar hafa tapast hvorki meira né minna en um 1.500 til 2.000 störf í iðnaði. Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstfl. sagði einn aðaltalsmaður flokksins í iðnaðarmálum, Páll Kr. Pálsson, m.a.: ,,Nú erum við búnir að missa ullariðnaðinn, fataiðnaðinn, húsgagnaiðnaðinn, innréttingaiðnaðinn, skipasmíðaiðnaðinn og stóran hluta málmiðnaðarins í gjaldþrot á síðustu þremur árum.`` Þetta er alvarlegur áfellisdómur yfir núverandi stjórnarstefnu af sjálfum Páli Kr. Pálssyni.
    Á hverju ári eru eru fluttar inn iðnaðarvörur sem hægt væri að framleiða hér á landi fyrir hvorki meira né minna en um 20 milljarða kr. Raunhæft markmið væri að færa það stóran hluta þessarar framleiðslu inn í landið að skapa mætti 4.000--5.000 störf.
    Hér hafa orðið mikil og ill þáttaskil. Á tveimur árum, 1991 og 1992, voru flutt inn 29 fiskiskip fyrir á áttunda milljarð kr. Verkefni sem íslenskir iðnaðarmenn gátu svo sannarlega leyst af hendi. Í skýrslu starfshóps ríkisins um undirboð í skipasmíðaiðnaðinum frá í maí sl. kemur fram að íslenskur skipaiðnaður sé samkeppnisfær við erlendan ef hann þyrfti ekki að keppa við stórlega ríkisstyrktan skipaiðnað annarra þjóða. Hér verða vitaskuld eðlilegir viðskiptahættir og leikreglur að gilda. Íslenskur skipaiðnaður hefur aldrei beðið um annað en það, hæstv. ráðherra, íslenskur skipaiðnaður hefur aldrei beðið um annað en það að fá að sitja við sama borð og samkeppnisaðilarnir.
    Ég hef hér á Alþingi talað fyrir aðgerðum til stuðnings skipaiðnaðnum. Á árinu 1988 flutti ég tillögu um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar. Tillagan var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að allra leiða verði leitað til efla og bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar og sporna við því að skipaiðnaðarverkefni fari úr landi.
    Ríkisstjórnin tryggi að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða um viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. varðandi meðhöndlun tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu. Tilboðin verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar. Gerðar verði staðlaðar reglur um útboð, veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefni.
    Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankarnir veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefnin eru unnin erlendis.``
    Tillagan var samþykkt breytt hér á Alþingi 6. maí 1989. Síðan hefur Alþfl. farið með þessi málefni og afraksturinn af störfum krata í iðnrn. er vægast sagt hörmulegur.
    Tillagan sem hér var samþykkt var alveg skýr og ef henni hefði verið fylgt eftir eins og ráðherra bar að gera væri staða innlends skipaiðnaðar önnur og betri en nú. Ráðherra skuldar þingmönnum og atvinnugreininni skýringar á því að ekki hafi verið unnið eftir samþykkt Alþingis í þessu máli. Ráðherra skuldar okkur skýringu.
    Íslenskur skipaiðnaður á vissulega möguleika til að dafna og þjóna íslensku atvinnulífi, en þá þarf skilningur stjórnvalda á mikilvægi þess að hér þrífist heilbrigð og sjálfstæð atvinnustarfsemi að koma fram í markvissari aðgerðum en hingað til hefur verið. Skipaiðnaðinum er að blæða út, segir Örn Friðriksson, formaður Félags járniðnaðarmanna. Skal nokkurn undra þótt formaðurinn láti til sín heyra og fylki liði þegar markaðshlutdeild innlends skipasmíðaiðnaðar (Forseti hringir.) hefur lækkað úr 75% í 8% og starfsmönnum fækkað um helming á allra síðustu árum. --- Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Varnarbarátta innlends skipaiðnaðar á ekki að byggjast á tilboðum til starfsmanna um lækkuð laun. Það er uppgjöf og óásættanleg leið til endurreisnar þessari atvinnugrein. Meinið er annað og á því þarf að taka. Alþingi sjálft verður að grípa hér inn í atburðarásina. Það verður ekki gert hér í utandagskrárumræðu. (Forseti hringir.) Málið er margslungið og mikilvægara en svo. Hér verða alþingismenn að ná saman og knýja

fram breytta og betri stefnu fyrir íslenskan iðnað.