Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 15:32:28 (1051)

[15:32]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Staða skipasmíðaiðnaðarins hefur verið rædd ítrekað á þessu þingi og á undanförnum þingum og ekki að ástæðulausu því að þessi iðngrein hefur verið á hröðu undanhaldi mörg undanfarin ár. Skipasmíðastöðvarnar hafa átt við mikla erfiðleika að etja og starfsmönnum hefur fækkað jafnt og þétt. Nú er svo komið að þessi stóriðja okkar Íslendinga sem skipasmíðaiðnaðurinn óneitanlega var á áttunda áratugnum og fram á þann níunda er á síðasta snúningi og mun að öllu óbreyttu leggjast af á allra næstu árum.
    Kringum 1980 voru um 1.000 ársverk í íslenskum skipaiðnaði. Í dag eru þau helmingi færri. Undanhaldið hófst fyrir 8--10 árum og það var margt sem stuðlaði að því, m.a. þær breytingar sem urðu hjá útgerðinni með kvótakerfinu og samdrætti í afla, vonlaus samkeppnisstaða gagnvart skipasmíðastöðvum þeirra þjóða sem ríkisstyrkja þessa iðngrein, samskipti samtaka skipasmíðastöðvanna við helstu samtök viðskiptavinanna, LÍÚ, hafa alls ekki verið nógu góð, ekki eins góð og skyldi, og langvarandi áhugaleysi þeirra sem ráðið hafa ríkjum í iðnrn. tel ég að eigi einnig nokkurn þátt í því hvernig komið er. Þetta hefur m.a. lýst sér í því að íslensku stöðvarnar hafa ekki fengið að sitja við sama borð og erlendar hvað varðar ábyrgðir íslenskra banka vegna viðgerðarverkefna þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og hefur þetta oft ráðið úrslitum um að verk voru unnin erlendis en ekki heima. Þá hefur því verið haldið fram í fjöldamörg ár að ekki þyrfti að smíða fleiri fiskiskip að sinni, flotinn væri orðinn allt of stór. Samt er það nú svo að á sama tíma hafa nýsmíðaverkefni fyrir milljarða og aftur milljarða verið unnin í erlendum skipasmíðastöðvum sem hafa getað boðið lægra verð vegna margháttaðs stuðnings viðkomandi stjórnvalda, bæði í formi niðurgreiðslna og fjármögnunar. Það er óþolandi að horfa á eftir öllum þessum stóru verkefnum úr landi þegar það er óumdeilt að íslensk smíði stenst fyllilega samkeppni við það besta sem kemur erlendis frá.
    Það er staðreynd að íslenskar skipasmiðjur hefðu aðeins þurft hluta af þeim verkefnum sem farið hafa úr landi síðsta áratuginn til að halda fullum dampi. Þá væru 500--600 fleiri starfsmenn í þessari grein en eru í dag.
    En hvað er til ráða? Eins og ástandið er núna, þá dugar ekki sú aðgerð ein að setja á jöfnunartolla. Félag dráttarbrauta og skipasmiðja lagði fram hugmyndir sínar í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í fyrra og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Félag dráttarbrauta og skipasmiðja hefur hingað til ekki gert kröfu til þess að beinir styrkir væru teknir upp hér á landi. Félagið hefur ítrekað bent á að vanda skipasmíðaiðnaðarins ætti að mæta með úrbótum á almennum starfsskilyrðum. Stjórnvöld verða að lýsa því yfir afdráttarlaust að stefnt sé að því að viðhalda skipasmíðum og skipaviðgerðum í landinu og tryggja að óeðlilegri erlendri samkeppni, svo sem ríkisstyrkjum og undirboðum, verði mætt með hörðum aðgerðum. Auk þess gerir Félag dráttarbrauta og skipasmiðja þær kröfur að íslenskum skipaiðnaði verði tryggð almenn rekstrarskilyrði og benda á eftirtalin atriði:
    Að felld verði alveg niður lán Fiskveiðasjóðs til nýsmíða og breytingaverkefna erlendis.
    Að stjórnvöld beiti sér fyrir því að lánastofnanir veiti ábyrgðir til verka sem unnar eru í íslenskum stöðvum.
    Að íslenskum skipasmíðastöðvum verði ávallt gefinn kostur á að bjóða í nýsmíði og viðgerðir á skipum fyrir íslenska aðila þegar lán eru veitt til slíkra verka af opinberum lánstofnunum.
    Að skip smíðuð á Íslandi fái aukakvóta úr Hagræðingarsjóði og að reglum um úreldingu erlendra skipa vegna smíði á nýjum verði breytt þannig að þær verði hagstæðar innlendri skipasmíði.
    Að íslenskur skipaiðnaður fái fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands.``
    Þarna eru settar fram margar athyglisverðar hugmyndir sem verður að taka afstöðu til. Hæstv. iðnrh. ákvað fyrir mánuði að skipa enn eina nefnd til að gera tillögur um úrbætur. Þessi nefnd hefur því miður enn ekki hafið störf. Það þolir enga bið að hún taki til starfa og skili tillögum til ráðherra á allra næstu vikum. Í framhaldi af því verða stjórnvöld að taka ákvörðun um aðgerðir. Þær aðgerðir þurfa að vera afgerandi og raunhæfar. Við höfum ekki efni á því að láta skipasmíðaiðnaðinn deyja drottni sínum. Þarna er um að ræða störf fyrir mörg hundruð manns. Skipasmíðastöðvarnar eru afkastamiklir iðnmenntunarstaðir eins og fram kom hér í umræðum í gær um tillögu um iðnmenntun í landinu og þjóð sem byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi getur ekki verið án skipaiðnaðar.
    Sú skoðun heyrist sums staðar að við eigum að kaupa alla mögulega hluti erlendis frá. Við séum svo smá og fá að við getum ekki keppt við erlendu risana. Við eigum að kaupa af niðurgreiðsluþjóðunum skip, föt, húsgögn og margs konar iðnvarning sem við höfum framleitt til þessa, að ógleymdum landbúnaðarvörum. Það gleymist stundum finnst mér í þessari umræðu að við aukinn innflutning fækkar störfum í landinu og það þarf gjaldeyri til þessara viðskipta. Meginmarkmið okkar hlýtur að vera að skapa innlendri framleiðslu þau skilyrði að hún geti staðist samkeppni. Takist það ekki er illa komið fyrir okkur.