Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 11:30:45 (1070)

[11:30]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykn. fjallaði nokkuð um það vandamál sem uppi er þegar þannig stendur á að fyrirtæki eða hlutabréfasjóðir, sem aðeins að mjög litlu leyti eru í eigu útlendinga, hyggja á kaup á hlutafé í sjávarútvegi. Þetta er þekkt mál sem upp hefur komið og það var t.d. svo að Olíufélagið Skeljungur fékk lögfræðilega álitsgerð þar sem niðurstaðan var einfaldlega sú að ef þetta hlutafé hafi verið keypt eftir lagasetninguna árið 1991 um fjárfestingu erlendra aðila, þá bæri félaginu skylda til þess að selja hlutafé sitt í viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki, ella væri hætta á því að sjávarútvegsfyrirtækið missti veiðiheimildir sínar hér við land. Þetta er auðvitað vandamál sem ég á ekki von á að auðvelt verði í sjálfu sér að finna lausn á og ég er sammála hv. 7. þm. Reykn. um það að hér er bæði um viðkvæmt mál að ræða og erfitt í framkvæmd. Hins vegar hefði ég gjarnan kosið af því að hér á í hlut formaður Framsfl. að hann hefði líka gert okkur öðrum þingmönnum grein fyrir því hver afstaða hans og hans flokks væri til þessa sérstaka vandamáls, því vitaskuld er þetta vandamál sem uppi er og getur haft veruleg áhrif á þá möguleika sem sjávarútvegurinn á til þess að afla sér eðlilegs áhættufjármagns og hlutafjár til samræmis við það sem gerist og gengur í öðrum atvinnugreinum.
    Ég á ekki von á því að hér í þinginu séu menn almennt þeirrar skoðunar að hleypa eigi erlendum aðilum óheft inn í okkar sjávarútveg, ég á ekki von á því. En hins vegar er þessi staða auðvitað uppi að ekki bara einstök fyrirtæki eins og olíufélög, sem hv. þm. nefndi, heldur líka hlutabréfasjóðir, sem eru kannski helstu og árvökulustu fjárfestarnir í dag. Það er nánast girt fyrir það miðað við núverandi lagasetningu að þeir geti tekið þátt í sjávarútvegi.