Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 12:59:15 (1082)

[12:59]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Mér heyrðist hæstv. ráðherra vera að kvarta yfir því eins og hann orðaði það að framfylgja fortakslaust ákvæðum í lögum. Ég ætla að vona að mér hafi misheyrst vegna þess að ég tel að íslenskum ráðherrum beri fortakslaust að framfylgja ákvæðum í íslenskum lögum og íslensk lög ganga auðvitað framar t.d. einhverju kontoristasamkomulagi sem kann að hafa verið gert.
    Líka varðandi eignarrétt útlendinga á orkufyrirtækjum, ráðherra hafði áhyggjur af neysluvatninu eða nefndi það sem dæmi. Ég hef áhyggjur af fleiru. Það er t.d. alger forsenda fyrir hugmyndunum um sæstreng að útlendingar ættu orkuvinnslufyrirtæki og við gætum leigt þeim vatnsföllin en allt tal um sæstreng eða virkjanir fyrir hann í eigu Íslendinga að verulegum hluta eða mestum hluta er út í loftið. Hér er um svo gígantískar fjárhæðir að ræða, frú forseti. Líka tel ég að tvímælalaust eigi Alþingi að kjósa áfram nefndina um erlenda fjárfestingu.