Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:15:55 (1141)

[14:15]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að svara hv. þm. efnislega í lengri ræðu á eftir en ég vil bara nota þetta tækifæri í andsvari til að vekja athygli á einum grundvallarmisskilningi sem þessi hv. þm. er greinilega haldinn, að þetta frv. snúist sérstaklega um girðingar meðfram vegum. Svo er ekki. Þetta frv. gengur út á það að sveitarfélög setji samþykktir eða landslög ákveði bann við lausagöngu stórgripa sem ósköp einfaldlega þýðir að eigendur stórgripanna þurfa að hafa heldar girðingar á sínu landi fyrir hagagöngu sinna gripa. Eftir sem áður getur verið ógirt meðfram vegum og þessum tveimur málum mega menn alls ekki blanda saman. Það eru allt aðrir hlutir og væri allt önnur aðferð ef farið yrði í þetta með þeim hætti að ákveða að girða af öll vegsvæði í landinu. Mér virtist hv. þm. hafa misskilið málið þannig að það gengi út á það að nú stæði til að þvinga fram með lögum að afgirða öll vegsvæði í landinu. Svo er ekki. Þetta mun í langflestum tilvikum ekki breyta neinu miðað við það búskaparlag sem tíðkast í landinu, því langflestir bændur sjá nú þegar sóma sinn í að hafa fullnægjandi hagagirðingar fyrir sína stórgripi og lausaganga þeirra utan girðinga og þá á annarra manna landi tíðkast mjög óvíða. Hér yrði því ekki nema í örfáum tilvikum, hygg ég, um að ræða einhverja umtalsverða breytingu og einhver útgjöld fyrir búskapinn í landinu eða landeigendur, þá fyrst og fremst í þeim örfáu tilvikum að menn hafi stundað það búskaparlag að láta stórgripi ganga utan girðinga og þá á vegsvæðum þar sem umferð er. En það er sem betur fer mjög fátítt og ef menn trúa því ekki þá ættu þeir að lesa töfluna í fskj. II með frv. þar sem talin eru upp þau fjölmörgu sveitarfélög í landinu sem nú þegar hafa fyrirskipað bann við lausagöngu af þessu tagi.
    En ég vildi leiðrétta þennan misskilning ef það mætti eitthvað hjálpa til í umræðunni en ætla að öðru leyti að svara útúrsnúningum hv. þm. og misskilningi hér á eftir.