Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:18:06 (1142)

[14:18]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Sá slæmi misskilningur virðist vera uppi hjá hv. flm., 4. þm. Norðurl. e., að vegirnir liggi ekki um beitarlönd. Vegirnir liggi á einhverjum allt öðrum stað en þar sem grasi gróið land er, vegirnir liggi ekki um beitarlönd bændanna. Þess vegna sé um tvö óskyld mál að ræða.
    Ég hvet hæstv. umhvrh. ekki til að lesa neinar skýrslur, ég hvet hann til að ferðast um landið og kanna það hvort vegirnir liggi ekki um grasi gróin svæði á þessu landi, beitilönd bændanna. Komist hann að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki þá eru forsendurnar út af fyrir sig réttar hjá honum, ef það er bara uppi á öræfum sem þessir vegir eiga að vera. En meðan svo er þá blasir það við að í mörgum tilfellum er þetta spurningin um það

hvort það eru bændurnir sem girða meðfram vegunum eða hvort það er Vegagerðin sem gerir það. Það vill svo til að ég hef verið beðinn, af bændum á Vestfjörðum, að reka það erindi að leita eftir því hvort Vegagerðin vildi bera ábyrgð á því að girðing yrði greidd seinna meir sem þeir mundu reisa. Undirtektirnar voru ekkert jákvæðar. Og það væri sumt öðruvísi hefði það svar verið jákvætt. Þess vegna tel ég að það sé úthugsaður útúrsnúningur það svar sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann kvartaði undan því að ég skildi ekki tillöguna.