Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 14:58:56 (1151)

[14:58]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi í sambandi við girðingar og hlutverk Vegagerðarinnar í því efni, þá er það alveg rétt að að sjálfsögðu er hægt að ráðast í þetta verkefni þannig að fyrst séu tekin fyrir þau svæði út frá meginþéttbýlinu og meðfram aðalumferðaræðum sem mestu skiptir að friða alfarið fyrir ágangi búfjár og ég er reyndar þeirrar skoðunar að það hefði fyrir löngu átt að setja af stað markvissa áætlun um að girða af þjóðbrautirnar út frá suðvesturhorninu og út frá öðrum helstu þéttbýlisstöðum landsins og t.d. ætti leiðin að mínu mati austur yfir fjall og a.m.k. austur til Víkur í Mýrdal að vera afgirt nú þegar. Það er auðvitað eiginlega alger tímaskekkja að það skuli vera göt í girðingar meðfram vegum á svo miklum umferðaræðum sem þar eiga í hlut. Og það sama mætti segja um þjóðleiðina a.m.k. áleiðis norður og vestur í land. Það er auðvitað alveg óviðunandi hversu lítið hefur miðað í þeim efnum. En við þekkjum það báðir, ég og hv. þm. að þarf heilmikið átak og mun taka mörg, mörg ár að ná ásættanlegum árangri í gegnum þá aðferð eina og sér og ég held að sú breyting sem hér er lögð til, með vísan til alls þess sem ég hef áður um hana sagt, eigi að geta leyst ásættanlega úr þessum málum, a.m.k. fyrst um sinn á meðan annað er ekki ákveðið. Ég tel að þetta frv. leggi ekki þær stórkostlegu kvaðir eða íþyngjandi skyldur á hendur einum eða neinum að ekki verið við það ráðið. Komi upp slík tilvik, þá hlyti að mega líta á slíkt í gegnum viðkomandi sveitarstjórnir eða með einhverjum öðrum hætti, hugsanlega standa við bakið á þeim sem sannanlega yrðu að leggja mest á sig til þess að mæta svona kvöðum. Ég held að það væru þá ótal leiðir færar til þess, en gagnvart öllum þorranum og í langflestum sveitarfélögum landsins eins og ég hef áður sagt mundi þetta ósköp einfaldlega engu breyta af því að vörsluskylda stórgripa er þar fyrirskipuð nú þegar.