Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 15:02:06 (1153)

[15:02]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það kom fram í yfirlýsingu hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann væri miklu kunnugri landinu en ég. Þetta kom ekki úr ræðustól heldur úr sæti viðkomandi hv. þm., en ég vil að þetta komi hér alveg skýrt fram sem yfirlýsing þannig að það fari nú ekki á milli mála að hv. þm. hafi legið á þessari stöðu að eigin mati.
    Ég tel einnig rétt að geta þess að sú seinni ræða sem hér var flutt var að því leyti langskárst þegar lesið var upp hvaða sveitarfélög það væru sem samþykktu lausagöngubannið. Þar mátti greina viss tilþrif í málflutningi. En að öðru leyti undrar mig það stórum að hv. þm. skuli yfir höfuð hafa kjark til að flytja þetta mál hér inn á Alþingi Íslendinga og með leyfi forseta hyggst ég lesa hér hversu mikið bændur áttu inni hjá Vegagerðinni 1. jan. 1992, kröfur sex og átta ára gamlar margar hverjar og þess vegna velflestar frá tíð hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann var samgrh.:
    Á Suðurlandi voru þá 99 km óuppgerðir. Á Reykjanesi 28,2, á Vesturlandi 104,8, á Vestfjörðum 9,3, Norðurl. v. 90,6, Norðurl. e. 199,3, Austurland 59. Nú var gert upp, fjárveitingu að upphæð 26 millj. var skipt, 17 millj. fóru í girðingarnar og 9 fóru í uppgræðsluna. Þá var ákveðið að gera upp á Suðurlandi 11 km, á Reykjanesi engan, ekkert borgað. Vesturland 9,4, Vestfirðir 0,6, Norðurl. v. 24,2, Norðurl. e. 20,4, Austurland 11,4 km. Óafgreitt 1. jan. 1993 voru, því að þrátt fyrir þetta halda nú bændur áfram að girða meðfram vegunum: Suðurland 60 km, Reykjanes 28,2, Vesturland 99,3, Vestfirðir 8,7, Norðurl. v. 71, Norðurl. e. 148,9 og Austurland 51,4 km.
    Ég er sannfærður um að þetta hyrfi sem vandamál um leið og ríkið gerði heiðarlega upp við bændur í þessum efnum en léti þá ekki þurfa að vera með kröfur 6--8 ára gamlar því að það er eitt sem verið er að gefa í dag að þó að þetta hafi verið svona á sínum tíma, þá er þetta yfirleitt tekið inn í stofnkostnaðinn þegar nýbyggingar eru framkvæmdar í dag. Það er viðurkennt í dag en að gera heiðarlega upp við þá sem eru búnir að gera þetta, það er farið rólega í það. Það er ekki verið að flýta sér að borga þær kröfur og mér er til efs að margir væru þolinmóðari að bíða en þeir sem eiga þessar kröfur á ríkið.
    Hér er annars vegar fulltrúi réttlætisins sem heldur því fram að það eigi ekki að beita á nágrannann. Hver hefur talað fyrir því í þessum stól að það eigi að beita á nágrannann? Aftur á móti virðist hv. 4. þm. Norðurl. e. hafa á því misjafnar skoðanir hvort á að beita hrossum á nágrannann eða hesta. Verði hans málflutningur tekinn alvarlega, þá er allt í lagi að beita kindum á nágrannann. Það virðist líka vera allt í lagi að láta kindurnar vera á vegunum. Ég skil yfir höfuð ekki sjónarmiðin sem eru þarna á bak við, ég skil þau ekki.
    Það er talað um það sem einhvern fáránlegan hlut að sveitarstjórnir eigi að hafa tillögurétt í þessum efnum, um umferð í gegnum sín svæði. Ég veit ekki betur en borgarstjórn Reykjavíkur hafi lengst af haft um það tillögurétt hér í Reykjavík hvernig ýmsar samþykktir voru í þessum efnum og ég efa að það sé hægt að líta svo á að það sé óeðlilegri hlutur að sveitarstjórnir úti á landi fái að hafa úrslitaáhrif í þessum efnum. Hvers vegna skyldu þær ekki mega að fá að ráða þessu? Hvers vegna skyldum við líta svo á að hreppsnefndirnar séu ófærar um að taka þessa ákvörðun? Það er verið að snúa bótakröfunni við. Hver hefur ekki komið þar að þar sem barn hefur verið að reka kýr yfir veg og þurft að slá af og talið það sjálfsagðan hlut og eðlilegan vegna þess að þannig hagar til að skepnuhúsin eru öðrum megin við veginn og bithaginn er hinum megin. ( SJS: Það telst ekki lausaganga, hv. þm.) Ef kýrnar ganga lausar, þá hlýtur það að vera lausaganga. Hvaða gangtegund skyldi það annars vera? Nei, mér finnst að málflutningurinn og talið hafi verið á tilfinninganótunum, að það sé verið að reyna að pressa hér ákveðið mál í gegn vegna þess að það hafa vissulega orðið slys. Hins vegar er það ósannað mál hvort þeir sem þannig keyrðu hefðu ekki orðið fyrir slysi þó að þeir hefðu ekki lent á umræddum skepnum. ég held nefnilega að í flestum tilfellum hafi ástæðan verið sú að menn höfðu keyrt það greitt að þeir réðu ekki við að stöðva farartækið innan eðlilegra marka.
    Ef menn vilja leysa þessi mál í friði, þá hlýtur það fyrsta sem eigi að gerast að vera það að gert verði upp við þá bændur sem eiga kröfu á ríkið, það verði gert upp og það verði látið sjá hvort hinir fara þá ekki í að girða meðfram vegum þar sem það er hægt í trausti þess að þeir muni fá þær girðingar greiddar. Ég hygg að hv. flm., 4. þm. Norðurl. e., viti það mætavel að það er hægara sagt en gert að fara að segja mönnum á sumum svæðum landsins að girða þar af svo að öruggt sé að vetrarlagi og það verður lengi hægt að deila um það undir þeim kringumstæðum hvort skepnurnar hafi sloppið vegna þess að þær hafi komist af vel girtu svæði eða hvort ekki nógu vel hafi verið staðið að girðingarmálum. Ég hygg í reynd að það sé verið að setja mikil illindi af stað ef tillaga sem þessi er samþykkt. Og ég hygg að margir bændur sæju þann kost vænstan að gefa Vegagerðinni landið undir veginum til þess að geta krafist þess að girt yrði á landamerkjum og fengið helming greiddan og helming af viðhaldi greiddan um ókomin ár. Ef þeir gerðu það, þá ættu þeir rétt á helmingi af viðhaldinu líka gagnvart allri framtíð eins og íslensk lög eru í dag. En ef menn telja að þetta sé sá þjóðfélagshópur sem eigi mesta peninga aflögu, þ.e. þeir sem búa í hinum strjálu byggðum landsins og séu ekki of góðir til að fara af stað og kosta girðingar í stórum stíl, þá held ég að þeir séu á miklum villigötum svo að ekki sé meira sagt.
    Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að tala lengur en tími minn leyfir, en það væri fróðlegt fyrir hæstv. fyrrv. ráðherra að lesa á bls. 27 í skýrslunni sem samgrh. lagði fram við vegáætlun 1992.