Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:20:37 (1165)

[16:20]
     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst nú að hæstv. ráðherra hafi tekið tiltölulega vel í þá skoðun að það þurfi að vinna að þessum málum. En hann svaraði því samt ekki beinlínis hvort hann teldi að hinir möguleikarnir kæmu til greina, þ.e. að gerð verði krafa um að það verði útbúnaður um borð í skipunum sem stunda síldveiðar til þess að geta skilað aflanum til manneldisvinnslu. Ég held að það þurfi að velta þessum málum fyrir sér út frá þeim möguleikum sem fyrir hendi eru. Ég held því alls ekki fram að það sé af hinu vonda að loðnuskipin veiði síld. Hins vegar má það ekki verða þannig að þeirra hagsmunir sem koma til vegna stærðar þeirra, þ.e. að taka kannski heilan síldarkvóta í heilli ferð og landa í bræðslu, verði til þess að ekki verði hráefni til vinnslunnar til manneldis. Og það er það sem ég tel varhugavert og menn eigi að skoða.
    Svo er aftur hitt sem hæstv. ráðherra benti á hér áðan, að síldarkvótarnir eru komnir í hendurnar á stóru fyrirtækjunum sem eru jafnframt með verksmiðjurnar, mjölverksmiðjur og síldar- og loðnuvinnslu. Og þá er hætta á ferðum að því leyti til að við þurfum auðvitað að hugsa um þennan útveg ekki bara sem stundarhagsmuni heldur langtímahagsmuni og það er fyrst og fremst af þeim ástæðum sem þessi tillaga kemur fram að við horfum til lengri tíma og til langtímahagsmuna okkar en ekki til skemmri tíma.