Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 10:33:19 (1213)

[10:33]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn., nál. á þskj. 229. Minni hlutann skipa auk ræðumanns hv. þm. Halldór Ásgrímsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Kristín Ástgeirsdóttir. Minni hlutinn flytur jafnframt brtt. á þskj. 230, sem ég mun gera grein fyrir.
    Í tengslum við kjarasamninga sl. vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu, dags. 21. maí, um ýmsar aðgerðir af hálfu ríkisins til að uppfylla forsendur kjarasamninga eins og þeir lágu fyrir eða voru grundvallaðir á þátttöku ríkisvaldsins í ýmsum aðgerðum, svo sem fjárframlögum til atvinnuskapandi aðgerða, tímabundna endurgreiðslu tryggingagjalds og fleiri þátta. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að fullkomlega eðlilegt og réttmætt sé að ríkisvaldið sé í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og leggi sitt af mörkum til að greiða fyrir kjarasamningum og friði á vinnumarkaði. Við leggjumst ekki gegn efnisatriðum frv. eins og þau

liggja fyrir og ganga út á að uppfylla þær skyldur sem ríkisstjórnin eða ríkisvaldið undirgekkst í þessu sambandi í tengslum við gerð þessara kjarasamninga. Við teljum hins vegar að við þær aðstæður sem uppi voru sl. vor hefði tvímælalaust verið rétt að kalla Alþingi saman til að afgreiða nauðsynlegar lagaheimildir þar að lútandi.
    Það verður að átelja það harðlega að ekkert samráð af neinu tagi var haft við Alþingi, við fjárln. eða efh.- og viðskn. við afgreiðslu málsins. Þetta er á allan hátt óeðlilegt, ekki síst þegar haft er í huga að þarna voru til ráðstöfunar miklir fjármunir, svo sem milljarður kr. í atvinnuskapandi aðgerðir, og það þarf ekki að kynna það hv. alþm. að það er ekki eðlilegur framgangsmáti að framkvæmdarvaldið taki sér vald til að skipta slíkum opinberum fjármunum, það er hlutverk Alþingis og á að afgreiðast hér, svo ekki sé nú talað um þegar slíkt er gert án samráðs við þær nefndir þingsins sem um slík verkefni fjalla.
    Það hefur endurtekið gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar að miklum fjárhæðum hefur verið ráðstafað á einstök verkefni eða skipt á einstök verkefni af hálfu framkvæmdarvaldsins og ber að átelja slíkt. Það ætti að vera óþarfi að minna á í þessu sambandi að Alþingi situr nú allt árið samkvæmt nýjum lögum. Nefndir þingsins starfa allt árið og því er ekkert að vanbúnaði og ekkert til fyrirstöðu að kalla þær saman til funda af samráð þarf að hafa um aðgerðir af þessu tagi. Sjálft þingið er unnt að kalla saman með tiltölulega mjög stuttum fyrirvara ef afgreiða þarf lagabreytingar eins og þá sem hér á í hlut.
    Meðferð núverandi stjórnarflokka á bráðabirgðalagavaldinu er að okkar mati mjög ámælisverð. Þetta er í annað sinn sem ríkisstjórnin grípur til setningar bráðabirgðalaga á ferli sínum og í hvorugt skiptið hefur að okkar mati verið til að dreifa þeirri brýnu þörf og þeirri aðkallandi nauðsyn að setja lög án þess að tími gæfist til að kalla Alþingi saman. Hæstv. forsrh. hefur reyndar viðurkennt að hann eftir á að hyggja telji að ríkisstjórnin hafi gert mistök í því að kalla ekki Alþingi saman þegar bráðabirgðalögin voru sett hið fyrra sinnið og ég held að augljóst sé að það sama eigi við um þessa bráðabirgðalagasetningu. Það var engin knýjandi nauðsyn á tafarlausri lagasetningu á sl. vori, þvert á móti lá fyrir að minnihlutaflokkarnir voru tilbúnir til að koma til fundar og afgreiða lagasetninguna þar. Það liggur jafnframt fyrir að afstaða minni hlutans efnislega til málsins er slík að við leggjumst ekki gegn þessum atriðum sem hér eru á ferðinni og hefðum þar af leiðandi ekki á nokkurn hátt tafið fyrir því að lög væru sett til þess að uppfylla skyldur ríkisvaldsins í þessu efni ef þing hefði verið kallað saman á sl. vori. Það er af þessum ástæðum sérstaklega, hæstv. forseti, sem minni hlutinn kýs að sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísar ábyrgð af þessum vinnubrögðum á hendur ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar.
    Þá hafa einnig verið uppi talsverðar efasemdir um að ríkisstjórnin hafi staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og þá ekki síður gagnrýni á með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur gengið fram í því máli. Það er að vísu ljóst að á grundvelli uppsagnarákvæða kjarasamningsins hefur verkalýðshreyfingunni tekist að knýja fram efndir á ýmsum þáttum sem áður virtist ætlun ríkisstjórnarinnar að vanefna og sömuleiðis er lítill vafi á að hótunin um uppsögn kjarasamninga leiddi til þess að loks var gripið til aðgerða gagnvart vaxtaokrinu.
    Þá fékk verkalýðshreyfingin því einnig áorkað að ríkisstjórnin hætti við eða a.m.k. breytti að nokkru áformum sínum um nýjar álögur og má þar nefna hinn nýja atvinnuleysisskatt og heilsukortin, sem áformað var samkvæmt fjárlagafrv. að taka upp, en með þeim átti að selja mönnum aðgang að heilbrigðiskerfinu eins og kunnugt er. Þessar breytingar hafa síðan leitt til þess að af uppsögn kjarasamninganna, sem áður lá í loftinu, verður ekki þar sem það er mat samningsaðila að fyrir slíkri uppsögn séu ekki forsendur. En það breytir ekki því að framganga ríkisstjórnarinnar og öll málsmeðferð í þessu sambandi er ámælisverð.
    Þá vil ég fjalla, hæstv. forseti, um þann þátt þessa máls sem lýtur að sjávarútveginum og sérstaklega meðferð aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Þar liggur á bak við alllöng saga sem ástæða væri til að rifja upp ef hv. þm. er hún ekki kunnug, en satt best að segja er meðferð hæstv. ríkisstjórnar á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs að verða harla skrautleg svo ekki sé nú meira sagt. Eins og kunnugt er greip ríkisstjórnin til þess ráðs í upphafi ferils síns að ákveða að nú skyldi selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs og átti það að heita svo á fyrsta árinu að þær skyldu fénýttar til að standa straum af kostnaði vegna hafrannsókna í landinu. Framkvæmdin hefur hins vegar orðið öll í skötulíki og litlar tekjur hafa hlotist af þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Sumarið 1992 lá það fyrir að veiðiheimildir yrðu skertar verulega, einkum í þorski, og kom þá strax upp umræða um að nauðsynlegt væri að nýta veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs til jöfnunar til að draga úr áfallinu fyrir þær útgerðir og þau byggðarlög sem mesta skerðingu fengju. Stjórnarandstaðan var eindregið þeirrar skoðunar að þessari aðferð ætti að beita og sömuleiðis virtist hæstv. sjútvrh. vera á þessari skoðun. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð engu að síður sú að veiðiheimildirnar skyldi áfram selja en gefin var út yfirlýsing um það af hálfu hæstv. forsrh. og loforð að útgerðunum yrði bætt með sérstökum fjárframlögum aflasamdrátturinn þannig að það kæmi út á eitt og var talað um að innan fárra daga, nánar tiltekið ákveðinn föstudag, mundi niðurstaða fást í málinu og eftir það mættu útgerðarmenn vænta ávísana frá hæstv. ríkisstjórn. Þetta var gert undir því fororði að vandinn væri meira byggðalegs eðlis heldur en að hann sneri sérstaklega að útgerðinni og þar með heyrði málið sérstaklega undir hæstv. forsrh. en ekki sjútvrh.
    Óþarft er væntanlega að rekja fyrir hv. alþm. þessa sorgarsögu alla. Útgerðarmenn í landinu biðu mánuðum og missirum saman eftir ávísunum frá hæstv. forsrh. sem aldrei komu. Allan þennan tíma rembdist stjórn Hagræðingarsjóðs við að reyna að selja veiðiheimildirnar með litlum árangri, en þó var það svo

að einstöku útgerðarmenn glöptust á því að kaupa þær og var þeim í reynd mismunað í ljósi þess sem síðar gerðist.
    Stjórnarandstaðan lagði til snemma hausts 1992 að kannað yrði til þrautar hvort samstaða gæti tekist um það hér á Alþingi að nota veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs í þessu skyni til jöfnunar gagnvart þeim útgerðum og þeim byggðarlögum sem mestan samdrátt höfðu þá orðið að þola eða blasti við að mestan samdrátt mundu þola í veiðiheimildum á komandi fiskveiðiári. Meðal annars voru tilmæli send til stjórnar Hagræðingarsjóðs um það síðsumars eða snemma hausts 1992 hvort stjórnin treysti sér til að bíða með það að hefja sölu veiðiheimilda á meðan málið yrði kannað. En skemmst er frá því að segja að stjórn Hagræðingarsjóðs svaraði því þannig að hún teldi sig ekki hafa lagaheimildir til annars en að undirbúa og hefja sölu veiðiheimildanna eins og þágildandi lög um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins gerðu ráð fyrir, en þau hljóða á þann veg að við upphaf fiskveiðiársins skuli stjórn Hagræðingarsjóðs bjóða veiðiheimildirnar til sölu, fyrst áður en fiskveiðiárið hefst, kanna það hvort einhver byggðarlög á grundvelli þar tilskilinna ákvæða telji sig hafa rétt á veiðiheimildum úr sjóðnum. Ef svo er ekki skal bjóða útgerðunum forkaupsrétt sem þær eiga hlutfallslega miðað við aflaheimildir. Og í þriðja lagi skal svo bjóða það sem enn er eftir hæstbjóðendum á uppboði. Stjórn Hagræðingarsjóðs treysti sér sem sagt ekki til þess haustið 1992 að verða við tilmælum um að fresta sölu á veiðiheimildunum þar sem eindregin lagaskylda hvíldi á stjórninni að selja þær strax í upphafi fiskveiðiárs eins og lögin kveða á um. Ég tel nauðsynlegt að rifja þetta upp, hæstv. forseti, í ljósi þess sem síðan hefur gerst.
    Á sl. þingi flutti svo stjórnarandstaðan frumvörp sem gengu til sjútvn. um það að málið yrði leyst með þeim hætti að lagaheimildar yrði aflað til úthluta því sem eftir stæði af veiðiheimildunum án endurgjalds og til jöfnunar til þeirra útgerða sem mesta skerðingu höfðu þolað. Þessi frumvörp biðu afgreiðslu í sjútvn. allan sl. vetur og undir lok þinghaldsins sl. vor hafnaði meiri hlutinn því að þau yrðu afgreidd frá sjútvn. Lagðist gegn því. En síðan gerist það fáeinum vikum síðar að ríkisstjórnin, væntanlega í krafti meiri hluta síns hér á Alþingi, skulum við vona, setur bráðabirgðalög um nákvæmlega sama efnisatriði, þ.e. að því sem þá var eftir ónotað af veiðiheimildum fiskveiðiársins 1992--1993 skuli úthlutað til útgerðanna með sama hætti og frumvörp okkar gerðu ráð fyrir.
    Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að ég held að þetta sé næsta fátítt í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu hér í þinginu og eitt allra mesta kæruleysi, svo ekki sé sagt sóðaskapur, í meðhöndlun bráðabirgðalagavaldsins sem lengi hefur sést. Það er fyrir neðan allar hellur að neita afgreiðslu á þingmálum sem fyrir liggja, þannig að Alþingi hefði með eðlilegum og venjulegum hætti getað afgreitt þessar lagaheimildir, en setja síðan sömu ákvæði nokkrum vikum síðar með bráðabirgðalögum þó öllum væri ljóst að þessar lagabreytingar þurfti að framkvæma. Þetta hljótum við að átelja mjög harðlega sem minni hlutann skipum og þegar svo er komið að lagst er gegn afgreiðslu mála hér í þinginu að því er best verður séð af þeirri einu ástæðu að þau eru flutt af stjórnarandstöðunni þó svo að ríkisstjórnin síðan nokkrum dögum seinna geri sömu efnisbreytingar á lögum með bráðabirgðalögum, þá er illa komið virðingu manna fyrir hlutverki löggjafans. Það væri gaman að vita hvort allir hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar væru stoltir af framgöngu hennar í þessu máli og umgengni hennar við bráðabirgðalagavaldið í þessu tilviki og raunar í allri þessari sögu sem snýr að veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Ef til vill verður þessi saga einhvern tíma skrifuð, og er ekki búin því að enn dregur til tíðinda í þessu máli.
    Þannig er að bráðabirgðalagaákvæðið sem er í IV. kafla frv., 7. gr., snýr aðeins að úthlutun veiðiheimildanna á sl. fiskveiðiári eða kvótaári þannig að nú 1. sept. í haust gengu í gildi á nýjan leik reglubundin ákvæði laganna um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og þau kveða á um það að stjórn sjóðsins skuli hefja sölu á veiðiheimildum strax við upphaf fiskveiðiársins. --- Hvernig er það, hæstv. forseti? Eru þeir ráðherrar sem þetta mál heyrir undir hvergi nálægir í umræðunni? Er ætlast til þess að við höldum umræðunni áfram án þess að þeir láti svo mikið sem sjá sig hér í salnum? Er t.d. hæstv. sjútvrh. týndur og tröllum gefinn? Og hæstv. forsrh. mun væntanlega vera flytjandi þessa máls. Er landið stjórnlaust með öllu? Við heyrðum það að vísu á dögunum að hæstv. sjútvrh. færi með átta ráðuneyti og er það mikið lagt á ekki stærri mann. ( Forseti: Forseti er að gera ráðstafanir til þess að þeir hæstv. ráðherrar sem í þinghúsinu eru komi hér til fundar.) Já, mér þykir vænt um það, herra forseti, því að það er í raun og veru með öllu ástæðulaust að þola þeim það að vera ekki viðstaddir umræðuna. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. verði viðstaddir. Út af fyrir sig spillir ekkert þó að hæstv. fjmrh. komi í salinn líka úr því að hann er hér í dyrunum. ( Fjmrh.: Ég heyri svo ágætlega.)
    Herra forseti. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að fara svolítið yfir þessa sögu um meðferðina á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs því hún er með miklum endemum. Og nú gerist það vegna þess hvernig bráðabirgðalögin eru úr garði gerð að 1. sept. sl. ganga í gildi á nýjan leik óbreytt ákvæði laganna um Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Þau kveða á um það að veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs skuli seldar og reyndar hefur stjórnin þegar hafið framkvæmd þeirra lagaákvæða að nokkru því að sveitarfélaginu Bíldudal mun hafa verið úthlutað til sölu ákveðnum kvóta af því að vegna mikils kvótataps og erfiðleika í atvinnulífi fullnægði það sveitarfélag þeim ströngu skilyrðum sem sett eru um þau sveitarfélög sem geti fengið kvóta keyptan frá sjóðnum í upphafi áður en úthlutun hefst að öðru leyti. ( Forseti: Ef ég mætti ónáða hv. þm. í ræðu sinni, en áður en hv. þm. tók til máls þá var þess ekki kostur að leita afbrigða um það að brtt. á þskj. 230 sem mér heyrist að hv. þm. ætli nú að fara að skýra, hvort hann mundi vilja gera hlé á

máli sínu stutta stund svo forseti geti leitað afbrigða um að brtt. á þskj. 230 megi koma á dagskrá.) Það er alveg sjálfsagt, forseti.