Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

33. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 12:04:29 (1225)

[12:04]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta er mjög sérkennileg staða sem er komin upp á Alþingi. Ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að gera þessa breytingu sem hér á brátt að koma til atkvæða. Ríkisstjórnin er líka þeirrar skoðunar að það geti ekki beðið mjög lengi en segir hins vegar: Ef dráttur verður á að niðurstaða fáist í ríkisstjórninni þá mun nýtt frv. verða flutt um þetta sama mál. Hvers konar staða er eiginlega komin upp í þessari ríkisstjórn? Stjórnarandstaðan flytur mál af góðum vilja á fullkomlega eðlilegan hátt vegna þess að það voru uppi tillögur líka um það síðast að þetta yrði gert a.m.k. fyrir tvö ár. Nú eru forsendur breyttar, ríkisstjórnin kemur ekki fram með frv. um stjórn fiskveiða í upphafi þings eins og hún lofaði, meira að segja strax í upphafi þings og lofaði líka að afgreiða málið á fyrstu vikum þingsins, þannig að samkvæmt því hefði málið átt að vera afgreitt. Það getur ekki beðið lengur, hæstv. sjútvrh., að draga afgreiðslu þessa máls og það væri að mínu mati fullkomlega óeðlilegt, eins og mér fannst að hæstv. sjútvrh. væri að boða, að næstu daga kæmi hugsanlega fram frv. um þetta mál og þess vegna er að sjálfsögðu nauðsynlegt að við fáum mat hæstv. umhvrh. á því, sem hér er staddur, hvaða líkur hann telji á því að þetta geti staðist hjá hæstv. sjútvrh. að frv. muni birtast alveg næstu daga því hæstv. umhvrh. hefur látið hafa það eftir sér að það liggi ekkert á því fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Það er nauðsynlegt að fá hæstv. umhvrh. til að tjá sig og þá er e.t.v. hægt að meta málið betur.