Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 14:23:34 (1253)

[14:23]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka af öll tvímæli um það að þær sögusagnir, sem hv. þm. vitnaði til, um að þessi mál mundu ekki verða lögð fram í þinginu, eru rangar. Málin verða að sjálfsögðu lögð fram hér í þinginu og vonandi afgreidd með hraði, einkum þó þróunarsjóðsfrv. Og ég vænti þess að hv. þm. og aðrir þingmenn sem hér eiga sæti geti fyrir sitt leyti stuðlað að því að málið fái hraða meðferð, þó auðvitað eðlilega og nauðsynlega umræðu. Ef það gengur eftir, sem ég vona, þá tel ég fyrir mitt leyti að stjórn Hagræðingarsjóðs hafi við þær aðstæður sem stjórninni eru þá kunnar svigrúm til þess og fyrir því eru fordæmi að afgreiða ekki mál sem mundu ganga í berhögg við þann vilja þings og stjórnarmeirihluta sem kæmi fram í framlagningu slíks frv.