Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 15:44:44 (1269)

[15:44]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. dómsmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Vill forseti beita sér fyrir að dómsmrh. verði gert viðvart? ( Forseti: Forseti hefur þegar gert aðvart og hæstv. dómsmrh. er genginn í salinn.)
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að í mínum augum er Hæstiréttur hálfheilagur og það sómir ekki að draga niðurstöðu hans í efa jafnvel þótt áhrifasvæði hans hafi verið nokkuð skert með því að afhenda hluta af dómsvaldinu úr landi með EES-samningnum. Ég held að traust almennings á Hæstarétti sé ákaflega mikið og við höfum treyst því að þar væru viðhöfð vönduð vinnubrögð og ástunduð mjög gaumgæfileg athugun mála og þess vegna hefur hann notið trausts.
    Mér finnst 2. gr. þessa frv. orka nokkuð tvímælis og þess vegna kveð ég mér hljóðs. Hún hljóðar svo:
    ,,Ef kærður er úrskurður sem varðar rekstur máls í héraði, kærumálið er skriflega flutt og það varðar ekki mikilvæga hagsmuni getur einn dómari skipað dóm í því. . . . ``
    Það er þetta atriði sem ég vil gera athugasemd við, að þau tilvik séu til jafnvel þó smá séu að það sé einungis einn dómari sem kveður upp úrskurði. Ég held að þetta verði til þess að rýra traust manna á óskeikulleika Hæstaréttar og ég vil biðja hv. nefnd og hæstv. dómsmrh. að athuga það gaumgæfilega hvort það er svo mikilvægt að spara að vert sé að fara út í þessa breytingu.
    Nú er mér það alveg ljóst að Hæstiréttur er önnum kafinn. Það er út af fyrir sig lofsvert að létta vinnuálagi af hæstaréttardómurum. Það getur jafnvel verið fjárhagslega hagkvæmt ef yfirvinna þeirra t.d. minnkaði með minna vinnuálagi, en það má nú ekki ganga of langt og mér finnst að þetta atriði þurfi gaumgæfilegrar athugunar við áður en gert verður að lögum. Þ.e. mér finnst það ekki traustvekjandi að einn dómari fjalli um mál og úrskurði í því prívat og persónulega. Ég held að við séum að stofna þarna meiri hagsmunum í hættu fyrir minni hagsmuni. Að vísu er þetta nokkuð skýrt í athugasemdum með frv. en sá lagatexti sem liggur fyrir virkar ekki vel á mig.
    Flýting á málsmeðferð er nauðsynleg en hún má ekki ganga út yfir vönduð vinnubrögð og nóg um það.
    Ég tel að það væri freistandi að ræða aðstöðu Hæstaréttar. Hér er talað um að fjölga dómurum og ég vil taka undir þá athugasemd sem kom fram fyrr í umræðunni um það að ég tel óheppilegt að hæstaréttardómari sé líka dæmandi af og til í öðrum dómstóli. Mér finnst það ekki gott fyrirkomulag. Varðandi starfsaðstöðu Hæstaréttar ber líka að líta á húsnæðismál Hæstaréttar og ég hygg að það sé mjög mikilvægt að vinda bráðan bug að því að lagfæra húsnæðismál Hæstaréttar þannig að starfsaðstaða vegna húsakosts sé viðunandi. Ég er ekki þar með að leggja til eða hvetja til að reist verði hin skrímslislega bygging á bílastæðinu milli Arnarhvols og safnahússins og Þjóðleikhússins. Ég tel að það sé mjög misráðið að reisa svo stórt hús á þeirri lóð og húsnæðismál Hæstaréttar verði heppilega leyst með öðrum hætti. Einn fyrrv. hæstaréttardómari a.m.k., Magnús Thoroddsen, hefur bent á hversu auðvelt væri að koma Hæstarétti fyrir í safnahúsinu og útbúa þar æskilegt húsnæði fyrir Hæstarétt. Ég hefði talið það miklu aðgengilegri lausn en fara skemma hin fögru hús sem eru þarna í kringum þessa lóð og þrengja að þeim með því að byggja stórhýsi sem nær alveg út í götu á lóðinni. Ég vil sem sagt biðja hv. allshn. að athuga þetta vel og vekja athygli á þessu atriði með einn dómara sem ég tel að orki ákaflega mikið tvímælis.