Hæstiréttur Íslands

34. fundur
Fimmtudaginn 11. nóvember 1993, kl. 16:52:01 (1283)

[16:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það heldur áfram að vera þannig að maður trúir bara ekki að hæstv. forsrh. sé í raun og veru að segja það sem hann flytur hér úr ræðustólnum. Er hæstv. forsrh. búinn að gleyma því að það var felldur úrskurður Kjaradóms sem byggði á því að færa yfir í launakerfið þær venjur sem höfðu skapast um yfirvinnu hjá einstökum aðilum og annað af því tagi? Og rökin sem voru færð þá, á þeim dögum sem liðu frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp og þangað til honum var hnekkt með bráðabirgðalögum, voru einmitt þau sömu og hæstv. forsrh. var að flytja hér áðan. Að þetta hefði tíðkast í kerfinu hjá hinum og þessum aðilum og þess vegna væri rétt að hækka launin hjá hæstaréttardómurum, hjá þingmönnum og hjá ráðherrum. En síðan hnekkti hæstv. ríkisstjórn þessum úrskurði með bráðabirgðalögum og Alþingi staðfesti þau bráðabirgðalög þannig að með þeim vilja sínum lýsti ríkisstjórnin og þingið því yfir að það vildi ekki slíkar breytingar. Það var kjarninn í þeirri deilu sem stóð hér um fyrri úrskurð Kjaradóms og síðan eðli bráðabirgðalaganna sem sett voru. Deilurnar sem stóðu þá fyrstu dagana milli mín og hæstv. forsrh., þegar ég vildi láta hnekkja úrskurði Kjaradóms en hann ekki, voru akkúrat um þetta atriði, að fjmrh. og forsrh. töldu að nú væri tími til kominn að fara að leiðrétta yfir alla línuna. En það var einmitt það sem var ekki gert, hæstv. ráðherra, með setningu bráðabirgðalaganna. Og nú er hæstv. forsrh. að koma hér og segja að vegna þess að þetta hafi tíðkast hér áður og þrátt fyrir að bráðabirgðalögin voru sett, þá sé heimilt að hækka laun allra sem ekki var heimilt eftir að bráðabirgðalögin voru sett.
    Satt að segja eru þetta svo makalausar yfirlýsingar að þær krefjast auðvitað miklu lengri umræðu en hér í andsvörum. Ég er því miður búinn með rétt minn til þess að tala oftar í þessari umræðu en þessar yfirlýsingar hæstv. forsrh. í ljósi þessarar sögu og launamálanna í landinu hljóta að krefjast miklu ítarlegri umfjöllunar hér á Alþingi.