Ávinningur sjávarútvegs af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:08:59 (1326)


[16:08]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. fyrirspyrjandi sagði um Japan þá vil ég taka það sérstaklega fram að kröfur okkar á hendur Japan um tollalækkanir ná til alls 270 tollskrárlína innan 3. og 16. kafla um fisk og fiskafurðir. Því miður er það svo að Japanir hafa þá afstöðu að fiskur falli fyrir utan það samkomulag sem varðar allsherjarniðurstöðu og þurfi því að fara í gegnum tvíhliða viðræður ríkja. Auk þess sem þeir hafa ekki tekið undir kröfur okkar sem varða t.d. mikilvægar vörutegundir eins og síld og lax. Fastanefnd okkar hefur því beðið um frekari viðræður við Japani sem væntanlega geta átt sér stað á næstu dögum.
    Að því er varðar Suður-Kóreu þá hafa framlagðar kröfur á hendur þeim náð til 40 tollnúmera innan 3. kaflans um sjávarafurðir. Sömuleiðis hefur því verið fylgt eftir með kröfum á hendur þeim og Áströlum og fleiri þjóðum um verulegar tollalækkanir á vatni.
    Tilboð Suður-Kóreu felur í sér 50% lækkun á flestum þeim vörum sem Ísland hefur gert kröfu til um undir kafla 3 um fiskafurðir og mundi þannig lækka þá tolla sem hv. þm. nefndi úr 20% í 10%.
    Að því er varðar einstök ríki vil ég sérstaklega nefna í þessu sambandi lönd eins og Nýja-Sjáland og Ástralíu. Við höfum lagt fram ellefu kröfur á hendur Nýja-Sjálandi, m.a. um vatn og Nýsjálendingar hafa beðið um að fá að ræða landbúnaðarmál samhliða kröfum Íslands en þá beiðni má túlka á þann veg að viðbrögð við okkar kröfum að því er varðar lönd eins og Nýja-Sjáland og Ástralíu mótist mjög af því hver verða okkar tilboð að því er varðar landbúnaðarafurðir. Þannig að augljóslega er gagnkvæmni í því þegar við erum að fara fram á tollaniðurfellingu á okkar helstu útflutningsafurðum, (Forseti hringir.) þá er að sjálfsögðu spurt um gagnkvæmni í því efni. En mestu máli skiptir þó að við höfum sett fram ítarlegar kröfur á hendur helstu markaðsríkjum okkar eins og Bandaríkjunum og Kanada. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Ég nefni sem dæmi að alls eru kröfurgerðir okkar á hendur Bandaríkjunum, einkum og sér í lagi á sviði sjávarútvegs og einnig hvers kyns tæknivara í tengslum við sjávarútveg, hvorki meiri né minni 125 talsins.