Styrkir til tannviðgerða

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:57:08 (1349)

[16:57]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. En eins og sagði í svari við fyrri spurningu minni sendi tryggingaráð ráðherra tillögur sínar að nýjum reglum þann 15. okt. sl. og ráðherra segist staðfesta þær bráðlega. Mér finnst ekki seinna vænna að fara að staðfesta reglur um með hvaða hætti skuli staðið að greiðslum Tryggingastofnunar fyrir þessar aðgerðir, því eins og ég sagði eru þetta lög nr. 1 frá árinu 1992 og þar er kveðið á um að það skuli setja þessar reglur. Árið 1992 er liðið og árið 1993 er næstum því liðið án þess að þessar reglur séu settar, þ.e. tvö ár, og það er enn ekki komin nein staðfesting á því hvernig þetta skuli vera gert.
    Ráðherra sagði líka að Tryggingastofnun hefði tekið þátt í kostnaði vegna þessa samkvæmt gamalli reglugerð, þ.e. frá 1991, sem var þá reglugerðin sem var sett miðað við þau lög sem þá giltu um þetta efni. Mér finnst alveg ófullnægjandi að svona skuli staðið að málum í Tryggingastofnun og ráðuneyti, að það skuli farið eftir reglugerð sem sett er á grundvelli gamalla laga. Mér finnst í rauninni réttarstaða þess fólks sem þarf að eiga samskipti við Tryggingastofnun ríkisins verulega skert með þessum hætti. Ég fagna því sannarlega ef þessi reglugerð á að fara að komast á koppinn en ég tel mjög ámælisvert að svona skuli hafa verið staðið að málum í þau tvö ár sem liðin eru síðan þessi lög voru sett og ég tel að þetta skerði réttarstöðu þeirra sem þurfa að hafa samskipti við Tryggingastofnun.