Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:53:05 (1400)

[14:53]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna spurninga hv. 3. þm. Vesturl. um afstöðu mína til efnisatriða frv. vil ég taka fram að auðvitað legg ég frv. fram í þeirri gerð sem ég vil hafa það nema rök hnígi að öðru við athugun í nefnd. Það á jafnt við ákvæði 26. gr. um upptöku mannvirkja fyrir skip sem önnur ákvæði, þannig að ég hygg að hv. þm. hljóti að hafa farið rangt með það sem hæstv. viðskrh. sagði úti í bæ eða þá hæstv. viðskrh. úti í bæ hefur sagt einhverja hluti sem eru á misskilningi byggðir.
    Um það hvers vegna lagt sé til að hægt sé að reka höfn í hlutafélagsformi þá hefur það verið hægt fram að þessu, en hér er lagt til að opnað sé fyrir þann möguleika að hlutafélag með aðild einkaaðila geti fallið undir hafnalögin. Það er munurinn. Ég hef orðið var við að einstakir þingmenn telja að ákvæði frv. séu ekki nægilega skýr varðandi þessi atriði og er sjálfsagt að athuga það sérstaklega. Ég ræddi við formann samgn. hér áðan. En á hinn bóginn hygg ég að hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, hafi ekki með sínum síðustu orðum hér áðan verið að gefa það í skyn að ástæða væri til að tefja fyrir framgangi málsins því að það hefur hlotið mjög nákvæma skoðun í nefnd og ég hef viljað halda góðri samvinnu við þingmenn um nefndastörf og annað og vona að það geti haldist.