Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:31:34 (1406)

[15:31]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað öryggismál hafna varðar, þá er það að hluta til rétt sem hér kom fram hjá ráðherra. Auðvitað þarf að gæta þess svo sem verða má að slys verði ekki í höfnum, en um tíma var mjög alvarlegt ástand og mjög mikil slysatíðni í mörgum höfnum landsins og þurfti þar verulegra bóta við. Í flestum höfnum landsins hefur kappsamlega verið unnið að því og þökk sé þeim sem þar hafa að staðið.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að þær hafnir víðast úti á landi sem ekki hafa möguleika á að standa undir eigin rekstri hafa skapað bæði sjómönnum og fiskvinnslufólki atvinnu og hafa jafnvel skapað þá byggð sem þar er fyrir. En ég sagði það hér áðan og ég held að það sé ekkert ofmælt þó að ég endurtaki það nú að því miður hefur borið allt of mikið á því að hafnarstjórnir víða úti á landi eða hafnarnefndir hafa verið meiri og áhugasamari í samkeppninni um það að ná fjármagni frá samgrn. til þess að framkvæma og á stundum hafa þær framkvæmdir verið óskynsamlegar, það hefur verið meira kapp en forsjá og það er vissulega full ástæða til þess að samgrn. með samgrh. í fararbroddi taki á þessum málum. Það eru breyttir tímar. Það eru enn menn sem eru kappsamir um það að stækka hafnir, auka viðlegu og auka miklu meira kostnað varðandi þetta mál jafnvel þó að menn standi frammi fyrir þrengingum. Það er minnkandi afli og það á að draga saman fiskiskipaflotann. Það á að fækka skipum. En samt eru menn í ýmsum höfnum úti á landi í allt of miklum framkvæmdum miðað við það sem áður hefur verið sagt: Nei,

það skulu ekki lagðar árar í bát heldur skal keyra áfram enn af meira kappi en forsjá svo lengi sem eitthvað drýpur úr þessum kassa samgrh. til hafnabóta.