Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:35:25 (1408)

[15:35]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. kom inn á það að vissulega væri nauðsynlegt fyrir menn sem töluðu sem ég hef hér gert úr ræðustól að þekkja vel til landshlutanna. Það hagar nú bara þannig til, hæstv. ráðherra, að ég þekki mjög vel til allra staðhátta. Sem fyrrverandi stýrimaður á vitaskipinu Árvakri siglandi hér um firði og flóa, voga og víkur, þá þekki ég landið ekki síður heldur en hæstv. samgrh. ( ÓÞÞ: En vegakerfið? Þið hafið ekki farið vegina.) Jú, jú, þá hef ég farið líka. Ég skildi hann vel. En ég óska honum bara gæfu og gengis í því sem hann sagði hér en hefði kannski mátt segja ítarlegar frammi fyrir alþjóð. Ég skil hann svo að hann sé að skoða flugvelli, hafnir og vegi og ætli að tengja þetta saman með sparnað og þjóðarhag í huga og muni þá væntanlega fækka höfnum og hætta að láta eftir þessari kröfugerð sem er löngu úrelt. Hvað svo sem má um byggð landsins segja, þá gerum við þéttbýlisþingmenn okkur fulla grein fyrir því að byggð verður að vera í landinu. En það er ekki sífellt hægt að segja í því ástandi sem nú ríkir: Skítt með alla skynsemi, byggð skal haldið hvar sem er og hvað sem það kostar. Það er ekki hægt að gera það og ekki hægt lengur að tala svo frammi fyrir þjóðinni að í nafni dreifbýlisins skuli framkvæmt hvort sem það er hagkvæmt eða fyrir þjóðarheill. ( JÁ: Það eru mestu framkvæmdirnar við Reykjavíkurhöfn.) Mestu framkvæmdirnar við Reykjavíkurhöfn, var hér kallað fram í. Jú, það hefur verið til þess að gera höfnina arðbærari til þess að það sé hægt að lækka flutningskostnað svo að kostnaður vegna vörukaupa út á land verði samkeppnishæfur og það hefur orðið stórlækkun á farmgjöldum vegna uppbyggingar Reykjavíkurhafnar. Því skulu dreifbýlismenn ekki gleyma.