Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:55:17 (1455)


[18:55]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta hafa verið málefnalegar og fjörugar umræður enda alveg ljóst að það er margt í þessu frv. sem orkar tvímælis og sem eðlilegt er að menn deili um. En mig langar sérstaklega að drepa hér á nokkur atriði í máli hv. síðasta ræðumanns, Inga Björns Albertssonar. Það er nú svo að margt af því sem hann sagði eru atriði sem menn hafa deilt um. Ýmislegt er hægt að skilja af því sem hann sagði, en sumt byggir á vanþekkingu. Það er t.d. svo að í sinni löngu ræðu gegn veiðikortunum dró hann m.a. til vitnis skotveiðimenn sem eru á móti veiðikortunum, staðhæfir hv. þm. Það er eigi að síður svo að talsmenn, forustumenn skotveiðimanna, þeirra félagasamtaka, eru hlynntir veiðikortum. Þeir hafa meira að segja gert sér erindi á fund þessa umhvrh. og lýst stuðningi sínum við það. Það kemur líka fram hér í greinargerðinni á bls. 10 að fyrstu drög að þessu frv. voru send Skotveiðifélagi Íslands. Það kemur fram hér í greinargerðinni. Það er því alveg ljóst að skotveiðimenn hafa fengið tækifæri til að segja sitt álit á þessu og athugasemdir þeirra hafa að einhverju marki verið teknar til greina, en ekki að öllu leyti. Það má t.d. benda á að úr hópi skotveiðimanna bárust athugasemdir í þá veru að það væri ekki nægilegt að hafa einungis ákvæði um það að ekki mætti hafa hlaðna byssu nema í 50 metra fjarlægð frá vélknúnu ökutæki. Þeir vildu hafa fjarlægðina meiri einmitt til þess að stemma stigu við þeirri tegund veiða sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var hér að mótmæla. Þetta er því ekki alveg rétt hjá þingmanninum.
    Varðandi afstöðu Alþfl. í þessu máli þá verð ég að segja þingheimi það í fyllsta trúnaði að ég vildi óska að það væri ekki meira deilt um neitt annað í þingflokki Alþfl. heldur en þetta mál. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson vísaði sérstaklega til hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og andmæla hans sem voru mjög hörð við umræðu hér. En það var við fyrstu umræðu þessa frv. sem fram fór á 115. löggjafarþinginu. Síðan hefur frv. verið breytt og talsvert mikið af athugasemdum sem þá komu fram hafa verið færðar til leiðréttingar í frv., m.a. atriði sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson var þá á móti. Það er nú svo, eins og ég hélt að ég hefði getið um í framsögu minni, að það var settur sérstakur starfshópur til að fara yfir frv. Í honum átti sæti m.a. hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson. Og þó ég sé sannfærður um að það eru stöku atriði sem umræddur þingmaður er enn á móti þá er eigi að síður obbinn af hans mótmælum brott fallinn. Ég hygg því að hv. þm. Ingi Björn Albertsson þurfi ekki að hafa mjög miklar áhyggjur af því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson muni mótmæla frv. mjög harkalega.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson ræddi nokkuð um byssur og þær skorður sem reistar eru við notkun tiltekinna skotvopna. En eins og ég gat um í minni framsögu þá kveða gildandi reglur á um að nú þegar megi ekki nota skotvopn sem taka fleiri en tvö skot. Að þessu leytinu er því ekki hægt að halda fram að hér sé verið að ónýta eigur manna sem nú þegar eru fyrir hendi. Það er alls ekki hægt að segja það. Það er að vísu svo að sums staðar er enn verið að veita leyfi fyrir slíkum byssum, en það er ekki samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi og þeim er þar af leiðandi ekki fylgt nægilega fram.

    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson velti líka fyrir sér hvernig ætti að koma við eftirliti með þessum lögum. Það sama má segja um öll önnur lög. Hvernig á að koma fram eftirliti með þeim? Lög eru að sjálfsögðu leiðbeiningar til fólksins í landinu og það verður auðvitað að ætlast til þess, eins og gerist í yfirgnæfandi fjölda tilvika, að menn fari eftir lögum. Það er þannig, reynslan sýnir það.    
    Varðandi veiðigjaldið þá varpar hv. þm. Ingi Björn fram þeirri spurningu: Hversu hátt telur þessi umhvrh. að veiðigjaldið eigi að vera? Það hefur ekki verið ákveðið, en ég skal varpa fram tölu. Ég tel að það ætti að vera einhvers staðar í kringum 1.000 kr. Það er ekki mjög mikið. Hv. þm. kallar þetta sérstakan skatt. Ég get ekki fallist á það. Það kemur skýrt fram í þessu frv. að þetta fé á að renna til rannsókna á þeim stofnum sem veiddir eru. Og það er í þágu allra, skotveiðimanna, landeigenda og þjóðarinnar allrar sem á í sameign þessa stofna, að farið verði í frekari rannsóknir á þeim. Þar með get ég ekki fallist á að þetta sé kallaður skattur. Um það má kannski deila.
    Hv. þm. ræddi líka sérstaklega um hæfnispróf. Nú er það svo að í þessu frv. er rætt um það að umhvrh. verði heimilt að mæla svo fyrir að þeir sem stundi veiðar á viltum dýrum skuli hafa lokið sérstöku prófi. Hverjir skyldu nú fylgja þessari hugmynd fastast fram? Það eru hinir ágætu vinir hans í Skotveiðifélagi Íslands. Ekki skal ég fullyrða að þessi hugmynd sé þaðan komin, en tvisvar sinnum hafa fulltrúar þeirra komið á minn fund og mælt sérstaklega með þessu. Það vill líka svo til að lögreglustjóraembættið í Reykjavík sem á árum fyrri hafði sérstök námskeið sem kölluð voru minna námskeið og meira námskeið í meðferð skotvopna og sem menn þurftu að fara á þegar þeir sóttu um byssuleyfi, hefur núna að frumkvæði Skotveiðifélagsins fengið sérstaka viðbót við sín námskeið. Þar er einmitt er farið í hluti eins og siðfræði veiða, náttúruvernd og ýmsa þætti dýralífs og þeir fá einmitt menn úr Skotveiðifélaginu til að flytja þessa fyrirlestra. Ég held því að það sé með engu móti hægt að segja að þetta hæfnispróf sé gegn vilja þeirra sem stunda skotveiðar. Það er rétt að það komi fram að það hefur sérstaklega verið óskað eftir því af hálfu samtaka skotveiðimanna, sem ég vænti að tali fyrir hönd skotveiðimanna, að það væri æskilegt að setja ítarlegar reglur t.d. um veiðar á stórum dýrum eins og hreindýrum. Þá hafa þeir einmitt vísað til reglna sem eru í gildi í löndum eins og Skandinavíulöndunum og Þýskalandi, þar sem menn mega ekki fara og skjóta stór spendýr án þess að hafa farið á námskeið sem lúta að lífsháttum þessara dýra og líka hvernig eigi að fara með bráðina. Hvernig eigi að taka innan úr henni o.s.frv. Og ég segi það alveg hiklaust að ég tel æskilegt að þetta sé gert. Það er enginn vafi í mínum huga um það að þeir sem eiga að borga fyrir slík námskeið það eru að sjálfsögðu þeir sem sækja þau, það finnst mér alveg einboðið.
    Þingmaðurinn spurði líka um 8. gr., þar segir: ,,Þar sem stöðuvötn, firðir, vogar eða sund sem ekki eru 230 metrar á breidd, skipta landareignum eiga landeigendur veiðirétt út að miðlínu.`` Hann spyr hvernig stendur á því að þessi tala, 230 metrar, er sérstaklega til tekin. Það vill svo til að netlög eru í orðskýringum þessa frv. og samkvæmt aldagamalli hefð skilgreind sem svæði sem ná 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landareigna eða 115 metra út frá bakka stöðuvatns. Það gefur auga leið að tvisvar sinnum 115 eru 230 sem skýrir umrædda tölu. Ef um er að ræða að stöðuvatn eða sund sem er svo mjótt að það nær ekki þessum tvisvar sinnum 115 metrum þá er reglan sú að nota miðlínu. Og ég tel að það sé ekkert óeðlilegt og það nota menn t.d. í samningum landa í millum.
    Ég tel að það sé eðlilegt að þingmenn fetti nokkuð fingur út í það sem sumir hafa kallað reglugerðafargan sem tengist þessum lögum. Ég tel að það sé eðlilegt. Ég er í grundvallaratriðum nokkuð sammála hv. þm. Inga Birni og fleirum sem hér hafa rætt um að það sé æskilegt að lög séu sem skýrust. Þá má velta því fyrir sér hvernig stendur á því að sú leið er farin varðandi samningu þessa frv. að gera ráð fyrir að lögin verði ekki mjög ítarleg heldur rammalög. Það er vegna þess að hér er ekki verið að fjalla um dauða hluti, hér er verið að fjalla um lifandi dýr. Og það er svo að stofnar þeirra taka miklum breytingum. Það er þekkt að dýrastofnar á norðurhjaranum fylgja næsta reglubundnum sveiflum, langtímasveiflum, kannski 10--15 ára. Orsakirnar eru hins vegar ekki jafn vel þekktar enda flókið samspil margra þátta. Vegna þessa er talið nauðsynlegt að það sé ákveðið svigrúm í þessum lögum til þess einmitt að laga reglugerðir, laga framkvæmd laganna að slíkum sveiflum. Það er þess vegna sem þessi leið er valin fremur en að fara þá leið að niðurnjörva í lög hvernig eigi að bregðast við ef tilteknar aðstæður sem eru ófyrirséðar geta komið upp. Það er ástæðan fyrir því.
    Þingmaðurinn kvaðst hafa talið níu heimildir til reglugerðarsetningar af hálfu ráðherra. Þær eru ellefu. En hins vegar er það svo að ég tel að sumar þeirra sé hægt að sameina. Sumar eru líka sérstaks eðlis eins og þar sem er kveðið á um heimild til ráðherra til þess að setja reglugerð um aðild Íslands að Alþjóðafuglaverndarráðinu. Hvers vegna skyldi það vera gert? Það er vegna þess að við teljum eðlilegast og lýðræðislegast að öll þau samtök sem tengjast með einhverjum hætti þeim málum eigi að geta komið að því í gegnum ákveðið fulltrúaráð. Nú er það svo að samtök eins og tegundir, lifa, eiga sér þroskaskeið, hrörna og deyja. Til þess að eiga möguleika á að gefa öllum þeim samtökum sem kynnu að verða til aðild að þessu í gegnum þetta fulltrúaráð þá töldum við æskilegast að fara þessa leið. En ég segi það hins vegar að mér er það ekkert heilagt mál. Ef hæstv. umhvn. telur að það sé betra að reyna með einhverjum hætti að fækka þessum reglugerðarheimildum, þá gott og vel. Menn verða einungis að vega það og meta og komast að niðurstöðu. Ég set mig ekki gegn því.
    Það er líka rétt að það komi fram af minni hálfu að ég geri mér grein fyrir því að mjög margt í þessum lögum er umdeilt og ég gef auðvitað ekki fremur en aðrir ráðherrar fyrirskipanir um að þetta eigi

að fara óbreytt í gegn. Eins og þingmenn hafa sagt þá á auðvitað að ræða þetta og það getur vel verið að menn komist að því að það sé betra að breyta einhverjum þeirra greina sem eru í þessu frv.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir varpaði einnig til mín nokkrum spurningum. Hún ræddi m.a. það ákvæði sem kemur fram í lögunum þar sem mælt er fyrir um að ef bráð særist þá eigi menn að sækja hana og reyna að deyða hana jafnvel þó það þurfi að fara inn á aðrar landareignir. Hún spurði jafnframt um að því er mér skildist hvernig ætti þá að fara með t.d. seli sem menn hafa verið að drepa og skilja eftir. Hér komum við aftur að þeim kafla sem varðar seli. Nú er það svo að það hefur verið ágreiningur uppi milli umhvrn. og sjútvrn. um það hvernig eigi að fara með málefni sela. Ég er þeirrar skoðunar að það væri æskilegast að það væri æskilegast að þau væru alfarið undir umhvrn. Ég bendi t.d. á að selir eru að ýmsu leyti sambærilegir sjófuglum. Sjófuglar eiga sín afkvæmi á landi en þeir sækja sér til sjávar bæði viðurværi sitt og lífsrými. Sjófuglarnir eru nýttir eins og selir og þeir teljast til hlunninda landareigna. Sjófugla tökum við undir umhvrn. og það má auðvitað spyrja: Hvers vegna á ekki að nota sama stjórnarfyrirkomulag fyrir selina eins og sjófuglana og hafa þá undir umhvrn.? Ég tel að það væri æskilegast. Ég segi það hins vegar að um þetta varð samkomulag eftir erfiðar samningaumleitanir milli umhvrn. og sjútvrn. í tíð fyrrv. umhvrh. og það samkomulag ætla ég að virða. Ég set mig hins vegar ekki upp á móti því ef umhvn. telur að með þessum hætti sé málum ekki rétt skipað og það eigi að gera þetta með einhverjum öðrum hætti. En hv. þm. Margrét Frímannsdóttir varpar til mín spurningu og ég bendi á að samkvæmt þessu frv. þá er það sjútvrh. sem stjórnar nýtingu selastofna. Og hann hefur umsjón með þeim aðgerðum af opinberri hálfu. Hingað til hefur það verið svo að hringormanefnd sem sjútvrh. skipar hefur þarna mjög sterka hönd í bagga. Ég tel hins vegar að þær reglur sem verður að setja í framtíðinni verði að vera þannig að þær beinlínis banni þessa meðferð sem við höfum lesið um í fjölmiðlum upp á síðkastið þar sem dauðir skrokkar sela eru skildir eftir. Og ég tel raunar að það væri mjög auðvelt að gera það með því t.d. að í staðinn fyrir að beita núverandi reglum þar sem veitt eru ákveðin veiðiverðlaun og síðan greitt eftir fastri stærð sela fyrir hvert kíló jafnvel þótt selunum sé ekki skilað inn til bræðslu. Ég tel það algerlega fráleita aðferð og tel þess vegna að það eigi að taka fast á þessu máli eins og mér virtist að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir væri að ýja að.
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð í lokin. Hv. þm. ræddi líka um þá fyrirskipan þessa frv. að skilja eftir aukinn fjölda eggja, tvö í gæsarhreiðrum og fjögur egg hjá ákveðnum andategundum. Nú er það svo að þetta er mjög gamallt fyrirkomulag, þetta er tekið upp úr eldri lögum og hefur gilt mjög lengi. Í þessu felst ævagamalt verndarsjónarmið sem ég tel rétt að hafa í heiðri. Hver á svo að hafa eftirlit með þessu? Ég vísa til þess sem ég sagði áðan sem svar við spurningu hv. þm. Inga Björns Albertssonar sem varpaði fram svipaðri spurningu um annað efni. Lögin eru fyrirmæli, þau eru boð, líka leiðbeining. Það er ætlast til þess að menn fari eftir þeim. Ég segi það af eigin reynslu að yfirgnæfandi meiri hluti manna gerir það. En eins og hv. þm. gat um í sinni ræðu, þessi umhvrh. mun ekki sjá um það sjálfur að framfylgja þessu.