Hæstiréttur Íslands

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:42:22 (1496)

[14:42]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég verð að byrja að gera þá játningu að ég hef ekkert óskaplega miklar skoðanir á því frv. sem liggur fyrir um breytingu á lögum um Hæstarétt. Mér sýnist þó af lestri þessa frv. og greinargerð og því sem ég hef hlustað á að þetta sé vel athugunarvirði og það geti í rauninni orkað tvímælis eins og þessu er háttað í dag, þ.e. að í rauninni sé valdið einvörðungu hjá einum tilteknum aðila sem er dómsmrh., þ.e. valdið til að setja nýja hæstaréttardómara í starf þó svo það sé auðvitað forseti Íslands sem skipi hæstaréttardómara þá er það að fenginni tillögu dómsmrh. Mér finnst eins og fleirum að það sé mjög mikilvægt að þeir sem sitja í Hæstarétti hverju sinni njóti fulls trausts og að fólk, hvar sem það stendur nú í þjóðfélaginu og hvar sem það stendur í pólitík, trúi því og treysti að þarna séu menn sem séu fyllilega óvilhallir og fari ekki eftir öðru en eðli máls hverju sinni.
    Ég verð að segja það, með allri virðingu fyrir þeim mönnum sem sitja í Hæstarétti --- það er auðvitað alltaf viðkvæmt þegar maður er að tala um háttsetta stofnun eins og þarna er um að ræða og svo fáa einstaklinga --- að ég er ekki sannfærð um að það hafi alltaf verið tekinn besti kostur þegar það hafa verið skipaðir nýir hæstaréttardómarar. Og ég vil í því sambandi sérstaklega lýsa óánægju með hlut kvenna í Hæstarétti, sem er og hefur verið afskaplega rýr. Ég tel raunar að ráðherra hafi ekki nýtt þau tækifæri sem gefist hafa til þess einmitt að fjölga konum í þessum dómstól. Í því sambandi vil ég minna á að tiltekin kona sem hefur afskaplega langa reynslu sem lögfræðingur og sem dómari, þ.e. Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, hefur sótt um embætti að ég held þrisvar sinnum og í þrígang verið gengið fram hjá henni. Engu að síður er þetta nú eins og ég segi ein sú kona í lögfræðingastétt sem hefur hvað mesta reynslu. Hún er ein af þessum sem útskrifaðist með fyrra fallinu úr lagadeild miðað við hlut kvenna þar. Hún er varaforseti héraðsdóms og hún er forseti félagsdóms og hefur þar af leiðandi afskaplega mikla dómarareynslu. En eins og ég segi það hefur í þrígang verið gengið fram hjá henni og ég vil jafnframt halda því til haga að a.m.k. tvisvar sinnum hafi verið teknir menn sem voru þekktir að því að vera sjálfstæðismenn. Auðvitað getur þetta verið erfitt í okkar litla samfélagi þar sem menn gegna mörgum hlutverkum og það er erfitt að meina fólki pólitíska þátttöku en það er nú einu sinni samt mín skoðun að ef menn ætla sér frama í dómarastétt, ef það er sá vettvangur sem menn hyggjast sækja inn á þá eigi þeir að halda pólitískum afskiptum sínum í lágmarki til þess að njóta þess trausts og þess trúnaðar sem nauðsynlegur er. En mér finnst að þarna hafi verið gengið fram hjá konum og ekki notað það tækifæri sem raunverulega gafst til að fjölga konum í Hæstarétti. Og þetta skiptir verulegu máli vegna þess að við höfum auðvitað heyrt gagnrýni frá konum ekki síst á það hvernig Hæstiréttur hefur tekið á ýmsum málum sem þær varðar. Þá vil ég sérstaklega nefna ýmis kynferðisafbrotamál. Þó vissulega sé allur gangur á því, það eru önnur mál sem ekki hefur komið nein gagnrýni á.
    Þessu vildi ég koma hér á framfæri úr því að þetta frv. var hér rætt. Það kannski heyrðist ekki nóg frá konum í þessi skipti þegar gengið var fram hjá Auði í þessa stöðu og hún er náttúrlega sjálf í þeirri stöðu að hún á afskaplega erfitt með að gera nokkuð í sínum málum sem konur geta kannski gert sem telja að þeim sé mismunað við aðrar stöðuráðningar þá er þetta starf þess eðlis að það er afskaplega erfitt fyrir viðkomandi einstakling að gera eitthvað í því.
    En hvað varðar 2. gr. þessa frv., sem fjallar um það að kjósi hæstaréttardómari að hverfa til annarra starfa um stundarsakir, þá skuli auglýsa stöðu hans þá finnst mér að þetta geti orkað tvímælis vegna þess --- þá er ég að horfa á það frá Íslendingum séð --- að sú reynsla sem þessi einstaklingur aflar sér, við skulum segja í einhverjum alþjóðlegum dómstólum, getur verið mjög dýrmæt fyrir hæstaréttardómara og getur nýst honum afskaplega vel í starfi þegar hann kemur til baka. Þetta er auðvitað ekkert sem á sérstaklega við um hæstaréttardómara, þetta á almennt við. Og við höfum m.a. séð þetta í stjórnkerfinu. Það getur verið afskaplega hagkvæmt að þeir sem starfi í stjórnkerfinu fari tímabundið til starfa t.d. erlendis eða til starfa á öðrum vettvangi og nýti síðan þá reynslu í sínu fyrra starfi þegar heim er komið. Hins vegar get ég alveg ímyndað mér að þetta geti orkað mjög tvímælis fyrir hinn alþjóðlega dómstól. Ég vil spyrja vegna þess að EES-dómstóllinn var aðeins dreginn inn í þetta hér, hvort því sé þannig háttað að Þór Vilhjálmsson, sem nú er orðinn dómari eða verður dómari í EES-dómstólnum frá áramótum ef allt fer sem horfir, hvort hann sé tímabundið í leyfi eða hvort hann hafi hætt störfum á vegum Hæstaréttar. Þetta tel ég að skipti máli séð frá EES vegna þess að þeir sem sitja bæði í eftirlitsstofnun EES og dómstólnum eiga að vera óháðir þjóðríkjunum. Þeir eiga ekki að vera í neinu sambandi eftir því sem um var rætt að minnsta kosti þegar þessi samningur var hér til umfjöllunar, eiga ekki að vera í neinu sambandi við viðkomandi stjórnvöld vegna þess að þá má draga í efa að þeir séu hlutlægir í sinni afstöðu, að þeir gangi ekki erinda síns stjórnvalds eða síns þjóðríkis. Þess vegna vil ég einmitt spyrja varðandi EES-dómstólinn hvernig því sé háttað með Þór Vilhjálmsson sem fer þar til starfa, hvort hann er í tímabundnu leyfi frá Hæstarétti á meðan eða hvort hann hefur sagt starfi sínu lausu. En mér finnst aðallega eins og ég segi að þetta geti orkað tvímælis frá sjónarhóli hins erlenda dómstóls eða alþjóðlega dómstóls fremur en frá sjónarhóli Hæstaréttar.
    Hins vegar hvað það varðar að hæstaréttardómari sé að stunda önnur dómarastörf jafnhliða störfum í Hæstarétti, þ.e. sé ekki tímabundið í leyfi heldur bara gegni þeim störfum jafnhliða störfum í Hæstarétti, þá finnst mér að það geti orkað tvímælis og maður hefur heyrt því haldið fram að hæstaréttardómarar okkar séu sumir hverjir svo störfum hlaðnir við slíka hluti að þeir hafi ekki tíma til að setja sig almennilega inn í þau mál sem til umfjöllunar eru í Hæstarétti. Þetta er auðvitað mjög slæmt ef þessi skoðun er uppi og menn sem fá á sig dóm Hæstaréttar eru þeirrar skoðunar að þeir sem kveða upp dóminn hafi ekki haft tíma til að sinna verki sínu eins og þeim ber.