Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:57:40 (1557)

[11:57]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það væri kannski ástæða til að fá þetta aðeins skýrara. Ég held að það hljóti að vera þannig að hæstv. ráðherrar viti hvaða verkefni eru í gangi í ráðuneytunum og hjá ríkisstofnunum og þessi þáltill. kveður á um það að endurskoðun eigi að fara fram á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Það er samþykkt á hv. Alþingi. Í fjmrn. fékk ég þau svör í haust, og þá talaði ég við nefndan Indriða Þorláksson um það mál, að enn hefði ekki unnist tími til þess að fara að vinna í þessu máli en svar hans var á þá leið að hann taldi þetta mál vera á forræði ráðuneytisins. Ég stóð í þeirri meiningu í minni einfeldni að það mundi verða fjmrn. sem beindi þá tilmælum til annarra ríkisstofnana en þeirra sem heyra þá beint undir ráðuneytið að taka þátt í þessari endurskoðun. Nú spyr ég bara: Hvern á ég að spyrja um það hvernig þetta mál er statt ef ekki nægir að spyrja hæstv. fjmrh.?