Mat vegna umönnunarbóta

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:29:40 (1694)

[16:29]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 185 ber ég fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um framkvæmd mats vegna umönnunarbóta.
    Þann 1. jan. 1992 tók gildi lagabreyting sem fól í sér að greiðslur umönnunarbóta og umönnunarstyrks vegna fatlaðra og langtímaveikra barna voru felldar inn í lög um almannatryggingar. Greiðslur þessar höfðu áður verið ákvarðaðar samkvæmt 10. gr. laga um málefni fatlaðra og bráðabirgðaákvæði sem gilti gagnvart greiðslum vegna sjúkra barna.
    Tilgangurinn með því að færa greiðslur þessar undir lög um almannatryggingar átti að verða til hagræðingar og til að auðvelda og samræma þessar greiðslur. Áður var það svo að upphæð umönnunarbóta vegna langtímaveikra barna var ákveðin eftir umsögn frá viðkomandi svæðisstjórn um málefni fatlaðra sem að öðru leyti hafði ekkert með málefni þessara sjúklinga að gera. Þetta þótti ekki nógu gott fyrirkomulag og eftir lagabreytinguna voru svæðisstjórnir um málefni fatlaðra því ekki lengur umsagnaraðilar varðandi veik börn en héldu að sjálfsögðu áfram að gegna hlutverki sínu fyrir fötluð börn og aðstandendur þeirra. Þessi breyting, að sérfróðir aðilar fjölluðu um báða þessa hópa, þ.e. umönnunarþörf fatlaðra barna og veikra, hefði átt að tryggja aukið samræmi og meira réttlæti bótagreiðslna vegna þessa. Svo virðist þó ekki vera því eftir þeim upplýsingum sem ég hef frá starfsfólki hjá Öryrkjabandalaginu og styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna hefur beiðnum til þeirra um aðstoð vegna úrskurðar Tryggingastofnunar um umönnunarbætur og umönnunarstyrk fjölgað verulega. Að mati þessara starfsmanna er jafnvel um meira misræmi að ræða í ákvörðun umönnunarbóta vegna sömu eða sambærilegra tilvika en áður var. Einnig að greiðslur hafa lækkað frá því sem áður var vegna sömu tilvik og aðstæðna.
    Í frv. til laga um félagslega aðstoð sem nú er til umfjöllunar í heilbr.- og trn. er kveðið á um þessar bótagreiðslur í 4. gr. Ef farið er fyllilega eftir þeirri grein sem er samhljóða þeirri sem nú gildir samkvæmt lögum um almannatryggingar þá eru það enn svæðisstjórnir um málefni fatlaðra sem eiga að gefa umsagnir um umönnunarþörf bæði vegna fatlaðra barna og veikra. Þetta er þó ekki þannig í framkvæmd. Samkvæmt reglugerð eru umsagnaraðilar vegna langtímaveikra barna aðrir. En eins og áður sagði virðist vera verulegur misbrestur á því að sömu greiðslur fáist vegna sömu eða svipaðra tilvika. Jafnvel er um að ræða að greiðslur vegna fatlaðra og veikra barna hafa lækkað eftir þá breytingu sem gerð var þegar lögum var beitt á þann veg sem áður segir. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    1. Hvernig er varið framkvæmd mats vegna greiðslu umönnunarbóta og umönnunarstyrks eftir að ákvæði um greiðslu þessara bóta voru tekin upp í lög um almannatryggingar?
    2. Eru matsreglur samræmdar þannig að ekki sé um misræmi að ræða í greiðslum vegna sömu eða svipaðra aðstæðna?
    3. Eru dæmi þess að bótagreiðslur til foreldra hafi lækkað vegna sömu eða svipaðra sjúkdómstilfella eða fötlunar barna eftir að ákvæði um þessar bótagreiðslur var fellt inn í lög um almannatryggingar?